Segja má að allt sem varðar svarthol sé lyginni líkast. Sem dæmi má nefna það sem við sæjum ef við fylgdumst úr fjarlægð með geimfari nálgast svartholið. Vegna sveigju tímarúmsins myndi okkur virðast sem geimfarið færi alltaf hægar og hægar og ef við sæjum klukkur um borð í því myndi okkur virðast sem þær hægðu sífellt á sér. Þegar geimfarið næði jöðrum svartholsins (sjónhvörfunum) myndi okkur virðast tíminn í geimfarinu líða óendanlega hægt þannig okkur virtist það standa í stað og því sæjum við það aldrei falla inn. Ef ólánsamur geimfari væri staddur um borð mundi honum á hinn bóginn ekki virðast tíminn hægja á sér enda hefði hann annað og verra við að glíma. Sá hluti hans sem félli á undan inn í svartholið myndi verða fyrir mun meiri þyngdarkrafti en aðrir líkamspartar, og þessir missterku kraftar mundu sundra honum í frumeindir og jafnvel sundra frumeindunum sjálfum. (Þessir kraftar eru hliðstæðir svokölluðum sjávarfallakröftum).Þrátt fyrir marga undarlega og illskýranlega eiginleika er hægt að lýsa ytri eiginleikum svarthola með þremur stærðum; massa, rafhleðslu og hverfiþunga. Þessar upplýsingar eru einu eiginleikar þeirra sem fræðilega væri hægt að mæla. Innri byggingu svarthola er hins vegar ómögulegt að segja nokkuð til um.
Sýndarmynd af svartholi með tífaldan sólarmassa séð úr 600 km fjarlægð með vetrarbrautina okkar í bakgrunni
Helsti möguleikinn er að greina áhrif hins mikla þyngdarkrafts þeirra á nágrennið, sem er hægt ef svartholið hefur fylgistjörnu. Þegar gösin frá fylgistjörnunni dragast inn í svartholið hitna þau. Áður en þau týnast endanlega í svartholinu geta þau orðið svo heit að þau gefa frá sér röntgengeisla. Með því að mæla slíka röntgengeislun hafa vísindamenn fundið fyrirbæri í vetrarbrautinni okkar sem telja má líkleg svarthol.Þó að hugmyndin um svarthol sé gömul, en hún var fyrst sett fram af enska jarðfræðingnum John Michell (1724 – 1793) árið 1783, er það aðeins á seinustu áratugum sem menn hafa getað farið að leita eftir svartholum fyrir alvöru. Fundist hafa þó nokkur svæði þar sem allt bendir til þess að finna megi svarthol og í dag er talið að í miðju flestra ef ekki allra vetrarbrauta séu gríðarstór svarthol. Eitt slíkt er talið vera í Vetrarbrautinni okkar, í um 28.000 ljósára fjarlægð frá jörðinni. Það má því ljóst vera að eiginleikar svarthola eru þannig að mjög erfitt að staðfesta tilvist þeirra og stað. Það er því ómögulegt að segja til um fjölda svarthola í alheiminum, en ætla má að þau séu nær óteljandi. Mikið efni er til um svarthol á Vísindavefnum til dæmis þessi svör:
- Hverfur allt sem fer inn í svarthol eða kemur eitthvað út úr þeim aftur? eftir Kristján Rúnar Kristjánsson
- Er hægt að koma efnisögnum á meiri hraða en ljóshraða? Ef ekki, verður þá hægt að rannsaka svokölluð svarthol? eftir Árdísi Elíasdóttur
- Verða ruslatunnur í framtíðinni lítil svarthol? eftir Lárus Thorlacius og Þorstein Vilhjálmsson
- Hvað eru hvíthol? eftir TÞ
- Hvað eru ormagöng? eftir Tryggva Þorgeirsson