Hinir gallarnir tveir sem geta orsakað Down-heilkenni eru annars vegar yfirfærsla (e. translocation) og hins vegar svokölluð tiglun (e. mosaicism). Þegar um yfirfærslu er að ræða færist bútur af litningi 21 yfir á annan og erfist með honum. Afleiðingin er sú að það verða þrjú eintök af sumum genum á litningi 21 en fjöldi þessar gena er misjafn eftir tilfellum. Yfirfærsla getur erfst á milli kynslóða og má rekja 2-3% tilfella af Down-heilkenni til hennar. Ef um tiglun er að ræða eru frumur einstaklings ekki allar erfðafræðilega eins og er einstaklingurinn sagður vera tigla af eðlilegum frumum og frumum með þrístæðu 21. Þetta gerist vegna mistaka í frumuskiptingu eftir frjóvgun. Tiglun er orsök Down-heilkennis í 1-2% tilfella. Nánar er hægt að lesa um tiglun í svari Guðmundar Eggertssonar við spurningunni Hvað er tigla í erfðafræði? Af þessu er ljóst að líkur á að eignast barn með Down-heilkenni aukast ekki mikið þótt heilkennið komi fyrir í ættinni. Til þess að líkurnar séu meiri en gerist og gengur verður orsökin fyrir tilfellinu í ættinni að vera yfirfærsla. Önnur svör á Vísindavefnum um Down-heilkenni:
- Hverjar eru líkur á því að barn fæðist með Down-heilkenni? eftir Hans Tómas Björnsson
- Er Down-heilkenni til hjá öllum kynþáttum? eftir Þuríði Þorbjarnardóttur
- Geta börn sem fæðast heilbrigð fengið Down-heilkenni? eftir EDS