Sólin Sólin Rís 10:17 • sest 16:10 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 21:40 • Sest 15:54 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 10:12 • Síðdegis: 22:46 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 03:46 • Síðdegis: 16:36 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 10:17 • sest 16:10 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 21:40 • Sest 15:54 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 10:12 • Síðdegis: 22:46 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 03:46 • Síðdegis: 16:36 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Hvenær ársins sest sólin í hafið, séð frá tilteknum stað?

Þorsteinn Vilhjálmsson

Upphafleg spurning hljóðaði svo:
Hvenær ársins sest sólin í hafið, séð frá Sauðárkróki og/eða Eyjafirði. Og hvenær ársins séð frá norðanverðu Seltjarnarnesi?
Spyrjandi á við það, hvenær sólin setjist í hafið í stað þess að setjast á land, séð frá viðkomandi stað. Stutta svarið er að þetta er algerlega háð staðháttum og getur meðal annars breyst við það að menn færi sig um 10-1000 metra, einkum ef það sem afmarkar landið á sjónhringnum, fjöll eða annað, er nálægt athugunarstað.

Hugsum okkur að við séum stödd á lítilli eyju milli heimskautsbauganna og þaðan sjái hvergi til lands; hafið tekur yfir allan sjóndeildarhringinn. Sólin sest þá í hafið allan ársins hring. Á vetrarsólstöðum er sólargangur stystur og sólin sest á norðurhveli 23,5 gráðum sunnan við vestur ef við erum við miðbaug, en annars enn sunnar. Sólsetursstaðurinn færist síðan til norðurs, fyrst hægt og bítandi en síðan hraðar kringum jafndægur á vori og svo aftur hægar þegar nálgast sumarsólstöður. Á sumarsólstöðum sest sólin síðan nokkurn veginn jafnlangt norðan við miðbaug og hún settist sunnan við á vetrarsólstöðum. (Munurinn stafar eingöngu af ljósbroti í andrúmsloftinu og hann er mestur nálægt heimskautsbaugunum vegna þess að braut sólarinnar á himninum er þar mjög á ská).

Ef land er í stað hafs á sjóndeildarhringnum á þeim stað sem við erum stödd, þá getur það auðvitað gerst að sólin setjist yfir landinu í stað hafsins. Að sjálfsögðu fer það þá eftir staðháttum.

Ef við erum til dæmis stödd á tindi Heimakletts í Vestmannaeyjum, þá tekur hafið yfir meirihluta sjóndeildarhringsins og sólin sest í hafið mestan hluta ársins. Líklega sest hún þó í norðvestri yfir landi kringum sumarsólstöður. Með nánari athugun á staðháttum mætti komast að því frá hvaða almanaksdegi það gerist, en hann er alltaf sá sami frá ári til árs að því undanskildu að hann getur færst til um einn eftir því hvernig stendur á hlaupári.

Spurningin er annars skýrust og einföldust ef miðað er við stað sem er austanvert í firði eða flóa sem snýr til norðurs og há fjöll afmarka landið vestan fjarðarins. Húsavík er gott dæmi um þetta. Hjá Húsvíkingum sest sólin yfir Kinnarfjöllunum eða þar suður af þangað til einn góðan veðurdag á vorin að hún steypir sér í sjóinn norðan fjallanna og heldur svo áfram dag frá degi drjúgan spöl til norðurs. Síðan snýr sólsetursstaðurinn við á sólstöðum og sólin sest aftur á fjöllin þegar jafnlangt er um liðið. Þetta gerist alltaf nokkurn veginn sömu daga ársins.

Við höfum ekki gögn til að segja til um, hvaða dag þetta gerist á Húsavík enda kann það líka að vera lítillega háð því við hvaða stað í byggðinni er miðað. En kannski vilja glöggir Húsvíkingar upplýsa okkur og spyrjandann um það?

Ef láglendi er nyrst á sjóndeildarhring handan fjarðar eða flóa í norðvestri í stað fjalla verður spurningin svolítið viðsjálli og svarið enn háðara athugunarstað. Þá getur nefnilega verið að hafbungan hylji landið ef við erum við sjávarmál en það sjáist hins vegar ef við stöndum hærra. Okkur mundi þá sýnast sólin setjast í hafið í fyrra tilvikinu en á land í því síðara.

Spyrjandi nefnir Sauðárkrók í spurningunni. Þar er fjall til norðurs og vesturs frá staðnum þannig að við höldum að sól setjist þar yfirleitt ekki í hafið nema þá ef til vill syðst og austast í bænum. Um Hofsós mundi hins vegar gegna allt öðru máli þar sem hann er austan fjarðar eins og Húsavík eða Blönduós.

Þá nefnir spyrjandi Eyjafjörð og er skemmst frá því að segja að svarið fer algerlega eftir því hvar við erum stödd í Eyjafirði. Innarlega í firðinum eins og á Akureyri sest sól aldrei í hafið heldur alltaf á vesturfjöllin. Hið sama gildir um Dalvík vegna landslagsins þar í kring. Í Grenivík og Hrísey mundi spurningin hins vegar eiga við.

Þá nefnir spyrjandi norðanvert Seltjarnarnes. Þar sest sólin yfir Reykjanesskaganum á veturna en við þurfum að fara upp á Valhúsahæð til að sjá hana setjast yfir Garðskaganum kringum jafndægur. Síðan sest hún yfir hafinu (flóanum) en við vitum ekki hvort hún nær yfir Snæfellsjökul um sólstöður. Kannski geta glöggir lesendur frætt okkur um það eða þá að við getum fylgst með því núna í sumar, en einnig er hægt að reikna það út.

Þessi spurning er náskyld annarri sem Íslendingar og aðrir íbúar norðursins þekkja mætavel: Hvenær sést fyrst til sólar í þröngum fjörðum? Sólarkaffi á Ísafirði miðast við það að sólin nái ákveðnum stað í bænum þar sem heitir Sólgata. Eftir það getur hins vegar liðið mánuður þar til hún sést á sumum öðrum stöðum í bænum.

Höfundur

Þorsteinn Vilhjálmsson

prófessor emeritus, ritstjóri Vísindavefsins 2000-2010 og ritstjóri Evrópuvefsins 2011

Útgáfudagur

16.5.2006

Spyrjandi

N.N.

Tilvísun

Þorsteinn Vilhjálmsson. „Hvenær ársins sest sólin í hafið, séð frá tilteknum stað?“ Vísindavefurinn, 16. maí 2006, sótt 21. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=5935.

Þorsteinn Vilhjálmsson. (2006, 16. maí). Hvenær ársins sest sólin í hafið, séð frá tilteknum stað? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=5935

Þorsteinn Vilhjálmsson. „Hvenær ársins sest sólin í hafið, séð frá tilteknum stað?“ Vísindavefurinn. 16. maí. 2006. Vefsíða. 21. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=5935>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Hvenær ársins sest sólin í hafið, séð frá tilteknum stað?
Upphafleg spurning hljóðaði svo:

Hvenær ársins sest sólin í hafið, séð frá Sauðárkróki og/eða Eyjafirði. Og hvenær ársins séð frá norðanverðu Seltjarnarnesi?
Spyrjandi á við það, hvenær sólin setjist í hafið í stað þess að setjast á land, séð frá viðkomandi stað. Stutta svarið er að þetta er algerlega háð staðháttum og getur meðal annars breyst við það að menn færi sig um 10-1000 metra, einkum ef það sem afmarkar landið á sjónhringnum, fjöll eða annað, er nálægt athugunarstað.

Hugsum okkur að við séum stödd á lítilli eyju milli heimskautsbauganna og þaðan sjái hvergi til lands; hafið tekur yfir allan sjóndeildarhringinn. Sólin sest þá í hafið allan ársins hring. Á vetrarsólstöðum er sólargangur stystur og sólin sest á norðurhveli 23,5 gráðum sunnan við vestur ef við erum við miðbaug, en annars enn sunnar. Sólsetursstaðurinn færist síðan til norðurs, fyrst hægt og bítandi en síðan hraðar kringum jafndægur á vori og svo aftur hægar þegar nálgast sumarsólstöður. Á sumarsólstöðum sest sólin síðan nokkurn veginn jafnlangt norðan við miðbaug og hún settist sunnan við á vetrarsólstöðum. (Munurinn stafar eingöngu af ljósbroti í andrúmsloftinu og hann er mestur nálægt heimskautsbaugunum vegna þess að braut sólarinnar á himninum er þar mjög á ská).

Ef land er í stað hafs á sjóndeildarhringnum á þeim stað sem við erum stödd, þá getur það auðvitað gerst að sólin setjist yfir landinu í stað hafsins. Að sjálfsögðu fer það þá eftir staðháttum.

Ef við erum til dæmis stödd á tindi Heimakletts í Vestmannaeyjum, þá tekur hafið yfir meirihluta sjóndeildarhringsins og sólin sest í hafið mestan hluta ársins. Líklega sest hún þó í norðvestri yfir landi kringum sumarsólstöður. Með nánari athugun á staðháttum mætti komast að því frá hvaða almanaksdegi það gerist, en hann er alltaf sá sami frá ári til árs að því undanskildu að hann getur færst til um einn eftir því hvernig stendur á hlaupári.

Spurningin er annars skýrust og einföldust ef miðað er við stað sem er austanvert í firði eða flóa sem snýr til norðurs og há fjöll afmarka landið vestan fjarðarins. Húsavík er gott dæmi um þetta. Hjá Húsvíkingum sest sólin yfir Kinnarfjöllunum eða þar suður af þangað til einn góðan veðurdag á vorin að hún steypir sér í sjóinn norðan fjallanna og heldur svo áfram dag frá degi drjúgan spöl til norðurs. Síðan snýr sólsetursstaðurinn við á sólstöðum og sólin sest aftur á fjöllin þegar jafnlangt er um liðið. Þetta gerist alltaf nokkurn veginn sömu daga ársins.

Við höfum ekki gögn til að segja til um, hvaða dag þetta gerist á Húsavík enda kann það líka að vera lítillega háð því við hvaða stað í byggðinni er miðað. En kannski vilja glöggir Húsvíkingar upplýsa okkur og spyrjandann um það?

Ef láglendi er nyrst á sjóndeildarhring handan fjarðar eða flóa í norðvestri í stað fjalla verður spurningin svolítið viðsjálli og svarið enn háðara athugunarstað. Þá getur nefnilega verið að hafbungan hylji landið ef við erum við sjávarmál en það sjáist hins vegar ef við stöndum hærra. Okkur mundi þá sýnast sólin setjast í hafið í fyrra tilvikinu en á land í því síðara.

Spyrjandi nefnir Sauðárkrók í spurningunni. Þar er fjall til norðurs og vesturs frá staðnum þannig að við höldum að sól setjist þar yfirleitt ekki í hafið nema þá ef til vill syðst og austast í bænum. Um Hofsós mundi hins vegar gegna allt öðru máli þar sem hann er austan fjarðar eins og Húsavík eða Blönduós.

Þá nefnir spyrjandi Eyjafjörð og er skemmst frá því að segja að svarið fer algerlega eftir því hvar við erum stödd í Eyjafirði. Innarlega í firðinum eins og á Akureyri sest sól aldrei í hafið heldur alltaf á vesturfjöllin. Hið sama gildir um Dalvík vegna landslagsins þar í kring. Í Grenivík og Hrísey mundi spurningin hins vegar eiga við.

Þá nefnir spyrjandi norðanvert Seltjarnarnes. Þar sest sólin yfir Reykjanesskaganum á veturna en við þurfum að fara upp á Valhúsahæð til að sjá hana setjast yfir Garðskaganum kringum jafndægur. Síðan sest hún yfir hafinu (flóanum) en við vitum ekki hvort hún nær yfir Snæfellsjökul um sólstöður. Kannski geta glöggir lesendur frætt okkur um það eða þá að við getum fylgst með því núna í sumar, en einnig er hægt að reikna það út.

Þessi spurning er náskyld annarri sem Íslendingar og aðrir íbúar norðursins þekkja mætavel: Hvenær sést fyrst til sólar í þröngum fjörðum? Sólarkaffi á Ísafirði miðast við það að sólin nái ákveðnum stað í bænum þar sem heitir Sólgata. Eftir það getur hins vegar liðið mánuður þar til hún sést á sumum öðrum stöðum í bænum....