Eftir að Hitler og Eva höfðu svipt sig lífi voru lík þeirra flutt út í garð utan við Führerbunker, byrgið þar sem Hitler hafði hafst við, bensíni hellt yfir og kveikt í. Eldurinn eyddi líkamsleifunum þó ekki fullkomlega og þegar Sovétmenn komu á staðinn nokkrum dögum seinna komust leifarnar í hendur þeirra. Eftir krufningu fluttu þeir leifarnar með sér til borgarinnar Magdeburg í austurhluta Þýskalands þar sem líkin voru grafin í ómerktri gröf og staðsetningunni haldið leyndri. Árið 1970 stóð til að Sovétmenn afhentu Austur-Þjóðverjum bygginguna sem líkamsleifar Hitlers voru grafnar við. Áður en að því kom voru þær grafnar upp, brenndar þar til askan ein var eftir og henni svo dreift í ána Elbe. Með þessu vildu Sovétmenn koma í veg fyrir að gröf Hitlers yrði einhvers konar helgidómur nýnasista. Heimild og mynd:
- Death of Adolf Hitler á Wikipedia, the free encyclopedia
- Magdeburg á Wikipedia, the free encyclopedia
- Getur við verið visst um að Hitler sé dauður (að hann hafi dáið þegar fólk segir að hann hafi dáið)?
- Hvað varð um Hitler? Hefur líkami hans nokkuð fundist og hvernig framdi hann sjálfsmorð?
- Hvað varð um lík Adolfs Hitlers?
- Eru til áreiðanlegar heimildir að Hitler hafi framið sjálfsmorð?
Þetta svar er í flokknum "bekkirnir spyrja" þar sem starfsfólk vefsins svarar spurningum frá grunnskólabekk í kennslustund, samkvæmt samningi. Lögð er áhersla á skjót svör, stutt og aðgengileg. Oft er byggt á öðrum svörum sem kunna að nýtast almennum lesendum betur.