Hver svefnlota getur byrjað skyndilega en fyrstu einkenni líkjast oft flensu. Á þeim tíma sem líður milli kasta bera einstaklingar ekki merki sjúkdómsins en muna oft ekki eftir því sem gerðist í síðasta kasti. Vegna mikilla geðrænna breytinga og annarra vandamála sem fylgja svefnlotunum er þunglyndi oft afleiðing sjúkdómsins. Orsök heilkennisins er óþekkt en talið er að áðurnefnd einkenni gætu stafað af bilun í stúku (e. thalamus) og undirstúku (e. hypothalamus) í heila, en þau svæði stjórna svefni og matarlyst. Engin ákveðin meðferð er til við Kleine-Levin-heilkenninu og yfirleitt er ekki mælt með lyfjagjöf. Nauðsynlegt er að einstaklingar sem þjást af heilkenninu séu undir fremur stöðugu eftirliti heima við, sérstaklega á meðan á köstum stendur. Örvandi töflur á borð við amfetamín geta unnið gegn svefnþörfinni en geta aftur á móti aukið á pirring og hjálpa ekki gegn skilvitlegum og geðrænum breytingum. Vegna líkinda heilkennisins við ýmsar lyndisraskanir (e. mood disorders) er stundum skrifað upp á liþín og svipuð lyf, sem í sumum tilfellum virðast koma í veg fyrir endurtekin köst. Yfirleitt fækkar köstum og þau verða vægari á um það bil tólf árum. Verið er að rannsaka þessa og fleiri svefnraskanir og reynt að finna við þeim lausnir til að auka lífsgæði sjúklinga. Heimild, frekari fróðleikur og mynd:
- ninds.nih.org. National Institute of Neurological Disorders and Stroke - Kleine-Levin Syndrome information page.
- KLS Foundation.
- flickr.com. Sótt 2.9.2011. D Sharon Pruitt tók ljósmyndina.
Hvað getið þið sagt mér um sjúkdóminn Kleine-Levin Syndrome eða það sem hefur verið kallað þyrnirósarheilkennið?