Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Karl Raimund Popper (1902-1994) er einn af áhrifameiri heimspekingum 20. aldar, sérstaklega á sviði vísindaheimspeki. Hann setti fram hugmyndir um hvernig greina mætti vísindi frá svokölluðum gervivísindum á grundvelli vísindalegrar aðferðafræði sem byggðist á hrekjanleika. Hugmyndir hans í stjórnmálaheimspeki um mikilvægi hins opna samfélags hafa einnig reynst áhrifaríkar.
Popper fæddist árið 1902 í Vínarborg sem þá var höfuðborg austurríska keisaradæmisins. Hann ólst upp á umrótatímum en keisaradæmið liðaðist í sundur árið 1918, undir lok fyrri heimstyrjaldarinnar. Popper nam heimspeki við Vínarháskóla og lauk doktorsritgerð sinni þar árið 1928. Ritgerðin nefnist „Aðferðafræðileg vandamál í hugrænni sálfræði“ (þ. Die Methodenfrage der Denkpsychologie, e. On the Methodological Problem of Cognitive Psychology). Þar varpaði Popper meðal annars fram þeirri hugmynd að mannshugurinn glími fyrst og fremst við lausn vandamála. Hún varð síðar að þekktu slagorði: „Lífið snýst um lausn vandamála“ (e. „All life is problem solving“). Áður en Popper lauk doktorsritgerðinni öðlaðist hann kennsluréttindi til að kenna stærðfræði og eðlisfræði en sýn hans á þessar greinar átti eftir að hafa mikil áhrif á viðhorf hans í vísindaheimspeki.
Karl Popper (til vinstri) ásamt tékkneska sálfræðingnum Cyril Hölsch.
Þegar Popper stundaði nám í heimspeki var mikil gerjun í menningu, listum, stjórnmálum og heimspeki. Svokallaður Vínarhringur (þ. Weinerkreis), sem rökfræðileg raunhyggja er oft kennd við, hittist á mótunárum Poppers í heimspeki. Sá hópur hafði mótandi áhrif á heimspeki fyrir seinna stríð. Popper tilheyrði aldrei Vínarhringnum enda var hann mjög gagnrýninn á neikvæða sýn hópsins á frumspeki og áherslu hópsins á merkingarfræði.
Árið 1936 flutti Popper ásamt eiginkonu sinni, Josephine Anna Henninger, til Nýja-Sjálands en þeim hjónum var þá orðið ljóst að vegna framgangs nasismans yrði þeim ekki lengur vært í Evrópu. Stuttu áður hafði fyrsta rit Poppers komið út, Rökfræði rannsókna (þ. Logik der Forschung) en það kom síðar út á ensku í nokkuð breyttri mynd og bar þá heitið Rökfræði vísindalegra uppgötvana (e. Logic of Scientific Discovery). Bókin er ein sú áhrifamesta í vísindaheimspeki 20. aldarinnar og að hluta til er hún uppgjör við ýmsar hugmyndir rökfræðilegu raunhyggjunnar. Í bókinni setur Popper einnig fram hugmyndir um hvað einkenni vísindalega aðferðafræði.
Á Nýja-Sjálandi var Popper fjarri stríðshrjáðri Evrópu og þar vann að hann tveggja binda verki sínu í stjórnmálaheimspeki Hið opna samfélag og óvinir þess (e. The Open Society and its Enemies). Bókin hefur einkum orðið fræg fyrir gagnrýni Poppers á áhrifamestu stjórnmálaheimspekinga mannkynssögunnar: Platon, Hegel og Marx. Í bókinni færir Popper rök fyrir því að alræðishyggja sé undirliggjandi í kenningum þessara heimspekinga og að hún ógni hugmyndinni um hið opna samfélag. Popper taldi að kenningar þremenninganna séu í raun andlýðræðislegar og að þær byggist á þeirri hugmynd að hægt sé að segja fyrir um þróun mannlegs samfélags með vísindalegri nákvæmni. Af þessu leiðir að stjórnmálamenn telja að hægt sé, með vissu um hvernig ákveðin þróun verður, að grípa til aðgerða til að tryggja bestu mögulegu útkomu. Hættan í þessu sé að lýðræðisleg ákvarðanataka verði undir, enda telji sérfræðingarnir sig vita allt best. Þessum hugmyndum fylgdi hann eftir í ritinu Örbrigð söguhyggjunar (e. The Poverty of Historicism).
Skömmu eftir seinna stríð eða árið 1949 var Popper boðin prófessorsstaða í rökfræði og vísindalegri aðferðafræði við London School of Economics. Þá var hann orðinn vel þekktur af verkum sínum, bæði í vísinda- og stjórnmálaheimspeki. Í Lundúnum hélt Popper áfram rannsóknum sínum í vísindaheimspeki. Hann fylgdi eftir útgáfu Rökfræði rannsókna á ensku 1959 með Tilgátum og afsönnunum (e. Conjectures and Refutations) 1963. Sex árum síðar hætti Popper sem prófessor við London School of Economics. Verk Poppers höfðu mikil áhrif og einnig urðu margir nemenda hans þekktir fyrir störf sín. Kunnastur þeirra er væntanlega fjárfestirinn George Soros sem hefur oft rætt um hvernig heimspeki Poppers mótaði hann. Karl Popper lést árið 1994 og var þá kominn yfir nírætt.
Gröf Karls Poppers, sem lést árið 1994 eins og hér sést.
Hugmynd Poppers um hrekjanleika vísindakenninga hafði ekki aðeins mikil áhrif innan heimspekinnar heldur einnig meðal vísindamanna og þá sérstaklega eðlisfræðinga. Til að skilja hana er ágætt að byrja á þeirri hugmynd sem Popper hafnaði, það er tilleiðslulíkaninu. Á grunni slíks líkans gengur vísindaleg aðferðafræði út á að safna gögnum sem styðja við vísindakenningar. Þegar tekst að safna nægilega miklum gögnum kemst vísindasamfélagið að niðurstöðu um að viðkomandi kenning sé sönn. Popper taldi þessa framsetningu meingallaða og í raun væri þessu öfugt farið – vísindasamfélagið setti fram kenningar sem það reyndi svo að hrekja en ekki sanna. Vísindakenningar eru nefnilega prófaðar og þurfa að standast dóm reynslunnar. Aðalsmerki þeirra er að hægt er að prófa þær og kenningarnar eru hraktar þegar þær gefa ekki rétta forspá um hegðun fyrirbæra eða atburð. Sem dæmi má nefna að í ljós kom að aflfræði Newtons spáði ekki rétt fyrir um feril Merkúrs um sólu og gat ekki skýrt sveigju ljóss framhjá þungum hlutum eins og sólinni. Þá hefur því verið haldið fram að fræg tilraun Michelsons og Morleys hafi hrakið grundvallarkenningu í eðlisfræði 18. og 19. aldar um að ljósið ferðaðist um í svokölluðum ljósvaka (e. ether).
Það að vísindaleg aðferðafræði byggi á hrekjanleika tengist öðru þema í hugsun Popper en það er munurinn á vísindum og gervivísindum. Einkenni gervivísinda er að þar eru ekki settar fram forspár eða fullyrðingar sem hægt er að hrekja með reynsluathugunum. Raunar er það svo að gervivísindi beinlínis forðast hrakningu. Þetta getur til dæmis birst í því að stjörnuspáin í blaðinu er svo almennt orðuð að við getum lesið hvaðeina út úr henni og auðveldlega staðfest með einhverjum hætti það sem kemur fram í henni. Annað dæmi er trúarbrögðin en þar birtast staðhæfingar eins og „vegir Drottins eru órannsakanlegir“ sem augljóslega er hægt að skilja á marga vegu. Þá taldi Popper að kenningar Marx og Freuds væru dæmi um gervivísindi. Í tilfelli Marx var það vegna þess að af hálfu marga marxista væri kommúnísk bylting talin óhjákvæmileg en þó að hún kæmi ekki væri viðbáran að hún væri handan við hornið. Þess má þó geta að skilja má hugmynd Marx um endalok kapítalisma sem forspá um ákveðin atburð sem ætti að vera mögulegt að dæma út frá reynslu. Popper viðurkenndi reyndar að í framsetningu Marx væri um skilyrta forspá að ræða en gagnrýndi fylgismenn hans fyrir að hundsa hana. Gagnrýni hans á Freud og sálgreiningu var af svipuðum toga þar sem hann taldi að sálgreining setti ekki fram skilyrta forspá og því væri engin leið að hrekja kenninguna. Þess má þó get að vísindasamfélög reyna oft að sníða agnúa af kenningum þegar þau standa frammi fyrir neikvæðum niðurstöðum fremur en að varpa þeim fyrir róða.
En hvað skýrir vissu Poppers um að einkenni vísinda væri hrekjanleiki? Sú skoðun hans á rætur að rekja til heimspekingsins David Humes og vandamáls sem þekkt er sem tilleiðsluvandinn (e. the problem of induction). Hume benti á að þegar við drögum ályktanir um fyrirbæri stöndum við frammi fyrir ákveðnum vanda. Vandinn birtist okkur þegar við drögum almennar ályktanir út frá takmörkuðum gögnum eða sýnum. Ef við segjum til dæmis að allir svanir séu hvítir er sú fullyrðing um alla svani í fortíð, nútíð og framtíð en gögnin sem við drögum ályktunina af eru ekki allir þessir svanir heldur einungis hluti þeirra. Popper var sammála Hume í því að tilleiðsluvandann væri ekki hægt að leysa og af þeirri ástæðu hafnaði hann því að vísindakenningar væru almennar fullyrðingar sem byggðu á gögnum sem sýndi fram á þær væru sannar. Eins og áður segir að þá snýst hin vísindalega aðferðafræði um að reyna að hrekja þá kenningu sem unnið er með.
Þá vaknar sú spurning hvort vísindi geti aldrei veitt okkur endanlegan sannleika um þau viðfangsefni sem þau fjalla um og hvort saga vísinda sé saga hrakinna vísindakenninga? Stutta svarið við þessu er já; sýn Poppers virðist hafa þær afleiðingar. Hann reyndi þó að skýra framfarir í vísindum þannig að kenning sem tekur við af kenningu sem hefur verið hrakinn er sannlíkari (e. verisimilitude) en fyrri kenningin. Í einhverjum skilningi gerði hún betur en fyrri kenningin þó svo að vegna tilleiðsluvanda Hume getum við ekki fullyrt að hún sé sönn. Hugmynd Popper um sannlíki er þó verulegum annmörkum háð og átti hann í erfiðleikum með að svara fyrir hana. Það breytir þó ekki því að hugmynd hans um hrekjanleika kenninga hefur höfðað til margra vísindamanna og þá hvernig hrekjanleiki skýrir muninn á vísindum og gervivísindum.
Helstu verk Poppers:
Logik der Forschung. Julius Springer Verlag, Vienna, 1935.
The Open Society and Its Enemies. (2 Vols). Routledge, London, 1945.
The Logic of Scientific Discovery. Hutchinson, London, 1959.
Conjectures and Refutations: The Growth of Scientific Knowledge. Routledge, London, 1963.
The Poverty of Historicism (2nd. ed). Routledge, London, 1961.
Objective Knowledge: An Evolutionary Approach. Clarendon Press, Oxford, 1972.
Unended Quest; An Intellectual Autobiography. Fontana, London, 1976.
„A Note on Verisimilitude“, The British Journal for the Philosophy of Science 27, 1976, 147-159.
The Self and Its Brain: An Argument for Interactionism (ásamt J.C. Eccles). Springer International, London, 1977.
The Open Universe: An Argument for Indeterminism. (Ritstj. W.W. Bartley III.) Hutchinson, London, 1982.
Realism and the Aim of Science. (Ritstj. W.W. Bartley III.) London, Hutchinson, 1983.
The Myth of the Framework: In Defence of Science and Rationality. Routledge, London, 1994.
Knowledge and the Mind-Body Problem: In Defence of Interactionism. (Ritj. M.A. Notturno.) Routledge, London, 1994.
Frekara lesefni:
Hannes Hólmsteinn Gissurarson. „Frjálshyggjan verður aldrei fullsköpuð.“ [Viðtal]. Heimspekivefurinn (Sótt 11.1.16.)
Huginn Freyr Þorsteinsson (2009). „Inngangur“. Í K. Popper, Ský og klukkur og fleiri ritgerðir (bls. 7-25). Reykjavík: Heimspekistofnun Háskóla Íslands.
Huginn Freyr Þorsteinsson (2010). Afsönnun og þróunarkenning Darwins. Í Vísindavefur, afmælisrit Þorsteins Vilhjálmssonar (bls. 123-135). Reykjavík: Hið íslenska bókmenntafélag.
Popper, Karl Raimund (2009). Ský og klukkur og fleiri ritgerðir. Þýðandi Gunnar Ragnarsson. Reykjavík: Háskólaútgáfan.
Huginn Freyr Þorsteinsson. „Hver var Karl Popper og hvert var framlag hans til heimspekinnar?“ Vísindavefurinn, 8. mars 2016, sótt 23. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=59052.
Huginn Freyr Þorsteinsson. (2016, 8. mars). Hver var Karl Popper og hvert var framlag hans til heimspekinnar? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=59052
Huginn Freyr Þorsteinsson. „Hver var Karl Popper og hvert var framlag hans til heimspekinnar?“ Vísindavefurinn. 8. mar. 2016. Vefsíða. 23. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=59052>.