Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Í svari Steinunnar S. Jakobsdóttur við spurningunni Hvað veldur jarðskjálftum? kemur fram að ysta lag jarðarinnar, jarðskorpan, er samsett úr mörgum flekum sem hreyfast hver miðað við annan. Flekarnir ýmist nuddast saman á hliðunum, ýtast hvor frá öðrum, eða þrýstast hver undir annan. Á öllum þessum flekasamskeytum byggist upp spenna sem losnar við jarðskjálfta.
Skjálftinn á Haítí hinn 12. janúar árið 2010 er dæmi um sniðgengisskjálfta, en það eru algengustu skjálftar sem verða á skilum, þar sem flekarnir renna hvor fram hjá öðrum. Haraldur Sigurðsson eldfjallafræðingur fjallaði um skjálftann á Haítí á heimasíðu sinni og er það sem hér kemur á eftir um fleka og hreyfingar þeirra stytt útgáfa af umfjöllun Haraldar.
Í raun koma nokkrir flekar saman í grennd við Haítí. Fyrst ber að nefna Karíbaflekann, en hann er einn af minni flekum á jörðinni. Því miður er hann fremur illa staðsettur og hagar sér eins og sleipur sveskjusteinn á milli fingranna. Hann er kreistur saman af hreyfingum Norður-Ameríkuflekans fyrir norðan og Suður-Ameríkuflekans fyrir sunnan. Afleiðingin er sú að Karíbaflekinn færist til austurs á um 2,5 cm hraða á ári.
Fyrir norðan eyjuna Hispaníólu, en eyjan Hispaníóla skiptist í tvö ríki, Haítí og Dóminíska lýðveldið, er risastórt misgengi á hafsbotni, sem nefnist Cayman Trough. Þetta er hjárek, þar sem jarðskorpan norðan við færist til vesturs, en Karíbaflekinn sunnan við Cayman Trough færist til austurs. Fyrir 60 milljón árum myndaði Haíti suðurendann á Kúbu en hreyfingin á Cayman Trough hjárekinu hefur síðan fært Haíti langt til austurs miðað við Kúbu.
Málið er enn flóknara þar sem rétt sunnan við hjárekið er míkrófleki sem kallast Gonâvefleki. Við syðri mörk Gonâveflekans er hjárek sem nefnist Enriquillo-Plaintain Garden misgengið, en það hefur verið virkt öðru hvoru og talið að nokkrir jarðskjálftar á 17., 18. og 19. öld hafi átt upptök sín þar. Það var einmitt á þessu misgengi, eftir 150 ára hlé, sem spenna brast 12. janúar 2010 með skelfilegum afleiðingum.
Jarðskjálftinn á Haítí var af stærðinni 7 og átti upptök sín skammt frá Port-au-Prince, höfuðborg Haítí, á um 13 km dýpi. Þó skjálftinn sé ekki í hópi stærstu jarðskjálfta sem vitað er um er hann einn sá mannskæðasti síðustu rúmlega 100 árin. Ástæður þess eru hversu grunnt upptökin voru og einnig að hann reið yfir mjög þéttbýlt svæði. Deilt er um hversu mikið manntjónið varð en opinbert mat stjórnvalda á Haítí er að 316.000 manns hafi látið lífið í skjálftanum eða í kjölfar hans. Eignatjón var einnig mjög mikið.
Heimildir og myndir:
EDS. „Hvers vegna kom jarðskjálfti á Haítí í janúar árið 2010?“ Vísindavefurinn, 11. janúar 2013, sótt 21. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=59020.
EDS. (2013, 11. janúar). Hvers vegna kom jarðskjálfti á Haítí í janúar árið 2010? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=59020
EDS. „Hvers vegna kom jarðskjálfti á Haítí í janúar árið 2010?“ Vísindavefurinn. 11. jan. 2013. Vefsíða. 21. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=59020>.