Hiksti er krampi í þindinni sem veldur snöggri innöndun sem stöðvast síðan jafn snögglega við það að bilið á milli raddbandanna lokast, en það veldur einmitt hljóðinu sem fylgir þessum kvilla. Algengasta orsök hiksta er sú að fólk kann sér ekki magamál, hvort heldur í mat eða drykk. Þegar fólk borðar eða drekkur of mikið þenst maginn út og þrýstir á þindina.Til eru mörg ráð við hiksta. Vitað er að lágt hlutfall af koltvíoxíðið í blóði gerir hiksta verri, og með því að halda niðri í sér andanum á maður að geta læknað hiksta, en þá hækkar einmitt hlutfall koltvíoxíðs í blóðinu.
Margir þekkja þau ráð að drekka kalt vatn, að kyngja þrisvar án þess að anda á milli eða láta manni bregða, en allt þetta á að trufla hikstann. Hversu árangursrík þessi ráð eru skal hins vegar ósagt látið. Lesendum er bent á að kynna sér áðurnefnt svar Ólafs Páls í heild sinni. Mynd: Albany Research Center
Þetta svar er í flokknum "bekkirnir spyrja" þar sem starfsfólk vefsins svarar spurningum frá grunnskólabekk í kennslustund, samkvæmt samningi. Lögð er áhersla á skjót svör, stutt og aðgengileg. Oft er byggt á öðrum svörum sem kunna að nýtast almennum lesendum betur.