Orsakir mígrenis eru ekki enn þekktar að fullu. Flest bendir þó til að um sé að ræða truflun á starfsemi slagæða sem liggja til heila og heilahimna. Við foreinkenni verður þrenging á þessum æðum en síðan mikil útvíkkun með auknu blóðrennsli og þá kemur verkurinn. Nýlegar rannsóknir hafa þó leitt í ljós að þetta er ekki alveg svona einfalt, heldur er einnig um að ræða truflun á taugastarfsemi. Augu manna hafa beinst að taugaboðefninu serótóníni (einnig nefnt 5-hýdroxýtrýptamín eða 5-HT) en sum þeirra lyfja sem gagnast best við mígrenikasti hafa svipuð áhrif í líkamanum og serótónín. Enn vantar þó mikið á að við skiljum þetta nógu vel.Það eru ýmsir þættir sem geta stuðlað að mígreniskasti og eru þeir oft mjög einstaklingsbundnir. Algengt er þó að þreyta, áfengi, tíðablæðingar og hungur geti komið af stað köstum. Einnig er algengt að neysla ákveðinna fæðutegunda hafi áhrif og nefna mígrenissjúklingar þá helst súkkulaði, lakkrís, osta, rauðvín, skelfisk og hveiti. Flestir þeir sem þjást af mígreni fá köst sjaldnar en einu sinni í mánuði. Með því að forðast þekkta áhrifavalda svo sem reykingar, áfengi, lítinn svefn og neyslu ákveðinna fæðutegunda geta mígrenissjúklingar dregið úr líkum þess að fá köst. Fyrir flesta sjúklinga er svo nóg að nota venjuleg verkjalyf sem innihalda acetýlsalisýlsýru, paracetamól eða íbúprófen þegar þeir fá mígrenisköst. Þá skiptir máli að taka þau nógu snemma og gott er að leggjast út af í myrkvuðu og hljóðu herbergi. Sumir einstaklingar eru þó það slæmir að venjulegar aðferðir duga ekki og er þá hægt að grípa til sérstakra mígrenilyfja sem innihalda ergotamín (til dæmis lyfið Cafergot) eða súmatriptan (lyfið Imigran). Nánari upplýsingar um mígreni má meðal annars finna á Doktor.is, DeCode.is og hjá Íslensku mígrenissamtökunum.
Hvað er mígreni, af hverju stafar það og hvernig er hægt að losna við það?
Útgáfudagur
10.5.2006
Spyrjandi
Marta Sigún
Tilvísun
MBS. „Hvað er mígreni, af hverju stafar það og hvernig er hægt að losna við það?“ Vísindavefurinn, 10. maí 2006, sótt 21. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=5894.
MBS. (2006, 10. maí). Hvað er mígreni, af hverju stafar það og hvernig er hægt að losna við það? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=5894
MBS. „Hvað er mígreni, af hverju stafar það og hvernig er hægt að losna við það?“ Vísindavefurinn. 10. maí. 2006. Vefsíða. 21. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=5894>.