Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Útvarpsbylgjur (radio waves) eru ein tegund af rafsegulbylgjum (electromagnetic waves) sem við köllum svo. Rafsegulbylgjur verða til þegar rafhleðslur (electric charge) hreyfast fram og aftur með einhverjum hætti, til dæmis þegar breytilegur rafstraumur fer um sendiloftnet eða rafeindir fara í hringi í segulsviði en einnig koma þær frá heitum hlutum og frá atómum og öreindum sem breyta orkuástandi sínu um leið og þær senda frá sér rafsegulbylgjurnar. Ljósið sem við teljum okkur þekkja svo vel er ekkert annað en rafsegulbylgjur með bylgjulengd á nánar tilteknu bili.
Um flestar bylgjur sem við þekkjum gildir að eitthvert efni þarf að vera milli bylgjugjafa og bylgjunema til að bylgjan berist á milli. Þannig ber loftið hljóðbylgjurnar frá þeim sem talar til hins sem hlustar, og ekkert hljóð berst í tómarúmi.
Það er hins vegar eitt af undrum veraldarinnar að ekkert efni þarf til að bera rafsegulbylgjur milli staða. Við getum séð þetta þannig fyrir okkur að rafhleðsla á hreyfingu skapi fyrst breytilegt rafsvið, það skapar síðan breytilegt segulsvið sem myndar aftur breytllegt rafsvið og þannig koll af kolli án þess að nokkurt efni komi við sögu. En þetta leiðir til þess að við njótum ljóss og orku frá sólinni þó að tómarúm sé í geimnum milli okkar og hennar.
Allar rafsegulbylgjur geta borist um tómarúmið úti í geimnum, þar á meðal útvarpsbylgjur sem hér er spurt um. Hins vegar er mismunandi hvort bylgjurnar berast gegnum lofthjúp jarðar þannig að við getum skynjað þær og mælt hér niðri á yfirborði jarðar. Það á þó við bæði um ljós og útvarpsbylgjur.
Að lokum má geta þess að rannsóknir á útvarpsbylgjum utan úr geimnum hafa fært okkur mikilsverðar upplýsingar um ýmis fyrirbæri sem við hefðum annars farið á mis við. Til þessara rannsókna eru notaðir svokallaðir útvarpssjónaukar (radio telescopes). Með því að setja enska orðið inn í leitarvél má fræðast meira um þá og skoða myndir. Hér er mynd af japönskum útvarpssjónauka.