Sólin Sólin Rís 10:52 • sest 15:43 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 00:00 • Sest 00:00 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 07:25 • Síðdegis: 19:43 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 01:09 • Síðdegis: 13:45 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 10:52 • sest 15:43 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 00:00 • Sest 00:00 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 07:25 • Síðdegis: 19:43 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 01:09 • Síðdegis: 13:45 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Er blóðblöndun hættuleg, til dæmis ef tveir heilbrigðir einstaklingar nudda saman opnum sárum á þumalfingrum?

Þórdís Kristinsdóttir

Margir hættulegir sjúkdómar, til dæmis alnæmi og lifrarbólga C, smitast manna á milli með blóði. Smit getur átt sér stað jafnvel þó um lítið magn blóðs sé að ræða eins og til dæmis ef sár snertast. Það eru þekkt dæmi um það að einstaklingar beri sjúkdóm sem þeir vita ekki af og smiti fólk óvart með þessum hætti.

Ef báðir einstaklingarnir eru fullkomlega heilbrigðir ætti blóðblöndun í mjög litlum mæli ekki að koma að sök. Hins vegar getur verið hættulegt að blanda saman blóði tveggja heilbrigðra einstaklinga ef um nokkuð magn er að ræða, eins og við blóðgjafir. Það er vegna mismunandi blóðflokka sem byggja á tilvist eða skorti ákveðinna prótínsameinda sem kallast mótefni (e. antibody) og mótefnavakar (e. antigen).

Blóðblöndun hjá heilbrigðum einstaklingum í mjög litlum mæli ætti ekki að saka. Hins vegar geta menn borið sjúkdóma án þess að vita af því og margir hættulegir sjúdkómar smitast með blóði.

Mótefnavakar eru sameindir sem ýmist komast inn í líkamann og virkja ónæmiskerfið eða eru til staðar í líkamanum frá náttúrunnar hendi og vekja þá ekki ofnæmissvar í heilbrigðum einstaklingum. Mótefni eru sameindir sem ónæmiskerfið myndar til þess að bindast framandi mótefnavökum og gera þá óskaðlega. Ofnæmisviðbragð vaknar ef einstaklingur sem þiggur blóð hefur mótefni gegn mótefnavökum í blóði blóðgjafans.

Blóðgjöf hefur verið þekkt og notuð í hundruð ára. Það var þó ekki fyrr en 1901 sem Austurríkismaðurinn Karl Landsteiner (1868-1943) uppgötvaði tilvist blóðflokkanna og fékk hann Nóbelsverðlaun fyrir þá uppgötvun árið 1930. Áður létust margir í kjölfar blóðgjafar en eftir þessa uppgötvun varð blóðgjöf mun öruggari. Nokkrar tegundir blóðflokkakerfa eru til en ABO-blóðflokkakerfið og Rh-kerfið (Rhesus-kerfið) eru þau sem eru mest notuð í dag.

Á yfirborði rauðra blóðkorna eru mótefnisvakar. Samkvæmt ABO-kerfinu eru til tveir vakar sem kallast A og B. Einstaklingar sem hafa mótefnavaka A á yfirborði rauðra blóðkorna sinna hafa mótefni fyrir B mótefnavakanum í blóði og öfugt. Einnig eru til einstaklingar sem hafa báða mótefnavaka og þá hvorugt mótefnið og einstaklingar sem hafa hvorugan mótefnavakann en bæði mótefnin. Mótefni gegn þeim mótefnavaka sem við höfum ekki í blóði myndast á fyrsta aldursári.

ABO-blóðflokkarnir eru fjórir:

A-blóðflokkur: Einstaklingar í þessum flokki hafa mótefnavaka A á rauðum blóðkornum og B-mótefni í blóði. Þeir geta þegið blóð frá flokki A eða O.

B-blóðflokkur: Einstaklingar í þessum flokki hafa mótefnavaka B á rauðum blóðkornum og A-mótefni í blóði. Þeir geta þegið blóð frá flokki B eða O.

AB-blóðflokkur: Einstaklingar í þessum flokki hafa bæði mótefnavaka A og B á rauðum blóðkornum en hvorki A- né B-mótefni í blóði. Þeir geta þegið blóð frá öllum fjórum flokkum.

O-blóðflokkur: Einstaklingar í þessum flokki hafa hvorki A né B mótefnavaka á rauðum blóðkornum en bæði A og B-mótefni í blóði. Þeir geta aðeins þegið blóð frá flokki O.

ABO-blóðflokkakerfið.

Ef mótefni kemst í snertingu við samsvarandi mótefnavaka bindast þau þeim og vekja ofnæmissvar sem veldur því að rauð blóðkorn kekkjast og geta stíflað æðar og þannig stoppað blóðflæði til ákveðinna líkamshluta eða líffæra. Kekkjuð rauð blóðkorn geta einnig sprungið og innihald þeirra lekið út, en þau innihalda hemóglóbín sem hefur eitrandi áhrif á líkamann utan rauðra blóðkorna.

Fram til 1939 var aðeins farið eftir ABO-blóðflokkunum við blóðgjöf og af og til komu upp alvarlegar aukaverkanir eða jafnvel dauði. Í lok fjórða áratugarins uppgötvaðist svo Rhesus-mótefnið. Nú eru þekktir allt að fimmtíu mismunandi mótefnavakar í Rhesus-kerfinu sem er eitt flóknasta blóðflokkakerfið. Rhesus-mótefnavakarnir eru mjög mótefnahvetjandi (e. immunogenic) en D-mótefnavakinn er sterkasti mótefnavaldurinn.

Rauð blóðkorn eru flokkuð Rhesus(D) jákvæð eða neikvæð eftir því hvort Rh(D) mótefnavakinn er á yfirborði þeirra eða ekki. Ólíkt ABO-kerfinu þá myndast Rh-mótefni ekki sjálfkrafa á fyrsta aldursári hjá Rh-D neikvæðu fólki en það gerist ef Rh(D) jákvæð blóðkorn komast í blóðrás þeirra. Það getur gerst við meðgöngu, barnsburð eða blóðgjöf. Það tekur nokkurn tíma að mynda mótefni eftir að Rh(D) jákvæð blóðkorn komast í blóðrás Rh(D) neikvæðs einstaklings en eftir það eru þau alltaf til staðar. Ef Rh(D) jákvæð blóðkorn komast svo aftur í blóðrás Rh(D) neikvæðs einstaklings, til dæmis við blóðgjöf, eftir að mótefni hafa myndast bindast þau rauðu blóðkornunum með mótefnavakann sem getur haft alvarlegar afleiðingar fyrir blóðþegann.

Það er því bráðnauðsynlegt að taka tillit til blóðflokka við blóðgjöf því það að gefa einstaklingi blóð með mótefnisvaka sem hann hefur mótefni fyrir getur reynst banvænt. Þetta sýnir mikilvægi þess að fólk gefi blóð, þar sem ekki aðeins þarf að vera til nægt blóð í lítrum talið til að sinna eftirspurn, heldur þarf blóðið einnig að vera í réttum flokki fyrir hvern einstakling til þess að hægt sé að nota það til lækninga.

Heimildir:

Myndir:


Upprunalega hljóðaði spurningin svona:
Er hættulegt að blanda saman blóði tveggja einstaklinga (láta opin sár á þumalfingrum snertast) ef þeir hafa engan sjúkdóm?

Höfundur

nemi í læknisfræði við HÍ

Útgáfudagur

27.3.2012

Spyrjandi

Hjalti Þór Ísleifsson, f. 1996

Tilvísun

Þórdís Kristinsdóttir. „Er blóðblöndun hættuleg, til dæmis ef tveir heilbrigðir einstaklingar nudda saman opnum sárum á þumalfingrum?“ Vísindavefurinn, 27. mars 2012, sótt 3. desember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=58803.

Þórdís Kristinsdóttir. (2012, 27. mars). Er blóðblöndun hættuleg, til dæmis ef tveir heilbrigðir einstaklingar nudda saman opnum sárum á þumalfingrum? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=58803

Þórdís Kristinsdóttir. „Er blóðblöndun hættuleg, til dæmis ef tveir heilbrigðir einstaklingar nudda saman opnum sárum á þumalfingrum?“ Vísindavefurinn. 27. mar. 2012. Vefsíða. 3. des. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=58803>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Er blóðblöndun hættuleg, til dæmis ef tveir heilbrigðir einstaklingar nudda saman opnum sárum á þumalfingrum?
Margir hættulegir sjúkdómar, til dæmis alnæmi og lifrarbólga C, smitast manna á milli með blóði. Smit getur átt sér stað jafnvel þó um lítið magn blóðs sé að ræða eins og til dæmis ef sár snertast. Það eru þekkt dæmi um það að einstaklingar beri sjúkdóm sem þeir vita ekki af og smiti fólk óvart með þessum hætti.

Ef báðir einstaklingarnir eru fullkomlega heilbrigðir ætti blóðblöndun í mjög litlum mæli ekki að koma að sök. Hins vegar getur verið hættulegt að blanda saman blóði tveggja heilbrigðra einstaklinga ef um nokkuð magn er að ræða, eins og við blóðgjafir. Það er vegna mismunandi blóðflokka sem byggja á tilvist eða skorti ákveðinna prótínsameinda sem kallast mótefni (e. antibody) og mótefnavakar (e. antigen).

Blóðblöndun hjá heilbrigðum einstaklingum í mjög litlum mæli ætti ekki að saka. Hins vegar geta menn borið sjúkdóma án þess að vita af því og margir hættulegir sjúdkómar smitast með blóði.

Mótefnavakar eru sameindir sem ýmist komast inn í líkamann og virkja ónæmiskerfið eða eru til staðar í líkamanum frá náttúrunnar hendi og vekja þá ekki ofnæmissvar í heilbrigðum einstaklingum. Mótefni eru sameindir sem ónæmiskerfið myndar til þess að bindast framandi mótefnavökum og gera þá óskaðlega. Ofnæmisviðbragð vaknar ef einstaklingur sem þiggur blóð hefur mótefni gegn mótefnavökum í blóði blóðgjafans.

Blóðgjöf hefur verið þekkt og notuð í hundruð ára. Það var þó ekki fyrr en 1901 sem Austurríkismaðurinn Karl Landsteiner (1868-1943) uppgötvaði tilvist blóðflokkanna og fékk hann Nóbelsverðlaun fyrir þá uppgötvun árið 1930. Áður létust margir í kjölfar blóðgjafar en eftir þessa uppgötvun varð blóðgjöf mun öruggari. Nokkrar tegundir blóðflokkakerfa eru til en ABO-blóðflokkakerfið og Rh-kerfið (Rhesus-kerfið) eru þau sem eru mest notuð í dag.

Á yfirborði rauðra blóðkorna eru mótefnisvakar. Samkvæmt ABO-kerfinu eru til tveir vakar sem kallast A og B. Einstaklingar sem hafa mótefnavaka A á yfirborði rauðra blóðkorna sinna hafa mótefni fyrir B mótefnavakanum í blóði og öfugt. Einnig eru til einstaklingar sem hafa báða mótefnavaka og þá hvorugt mótefnið og einstaklingar sem hafa hvorugan mótefnavakann en bæði mótefnin. Mótefni gegn þeim mótefnavaka sem við höfum ekki í blóði myndast á fyrsta aldursári.

ABO-blóðflokkarnir eru fjórir:

A-blóðflokkur: Einstaklingar í þessum flokki hafa mótefnavaka A á rauðum blóðkornum og B-mótefni í blóði. Þeir geta þegið blóð frá flokki A eða O.

B-blóðflokkur: Einstaklingar í þessum flokki hafa mótefnavaka B á rauðum blóðkornum og A-mótefni í blóði. Þeir geta þegið blóð frá flokki B eða O.

AB-blóðflokkur: Einstaklingar í þessum flokki hafa bæði mótefnavaka A og B á rauðum blóðkornum en hvorki A- né B-mótefni í blóði. Þeir geta þegið blóð frá öllum fjórum flokkum.

O-blóðflokkur: Einstaklingar í þessum flokki hafa hvorki A né B mótefnavaka á rauðum blóðkornum en bæði A og B-mótefni í blóði. Þeir geta aðeins þegið blóð frá flokki O.

ABO-blóðflokkakerfið.

Ef mótefni kemst í snertingu við samsvarandi mótefnavaka bindast þau þeim og vekja ofnæmissvar sem veldur því að rauð blóðkorn kekkjast og geta stíflað æðar og þannig stoppað blóðflæði til ákveðinna líkamshluta eða líffæra. Kekkjuð rauð blóðkorn geta einnig sprungið og innihald þeirra lekið út, en þau innihalda hemóglóbín sem hefur eitrandi áhrif á líkamann utan rauðra blóðkorna.

Fram til 1939 var aðeins farið eftir ABO-blóðflokkunum við blóðgjöf og af og til komu upp alvarlegar aukaverkanir eða jafnvel dauði. Í lok fjórða áratugarins uppgötvaðist svo Rhesus-mótefnið. Nú eru þekktir allt að fimmtíu mismunandi mótefnavakar í Rhesus-kerfinu sem er eitt flóknasta blóðflokkakerfið. Rhesus-mótefnavakarnir eru mjög mótefnahvetjandi (e. immunogenic) en D-mótefnavakinn er sterkasti mótefnavaldurinn.

Rauð blóðkorn eru flokkuð Rhesus(D) jákvæð eða neikvæð eftir því hvort Rh(D) mótefnavakinn er á yfirborði þeirra eða ekki. Ólíkt ABO-kerfinu þá myndast Rh-mótefni ekki sjálfkrafa á fyrsta aldursári hjá Rh-D neikvæðu fólki en það gerist ef Rh(D) jákvæð blóðkorn komast í blóðrás þeirra. Það getur gerst við meðgöngu, barnsburð eða blóðgjöf. Það tekur nokkurn tíma að mynda mótefni eftir að Rh(D) jákvæð blóðkorn komast í blóðrás Rh(D) neikvæðs einstaklings en eftir það eru þau alltaf til staðar. Ef Rh(D) jákvæð blóðkorn komast svo aftur í blóðrás Rh(D) neikvæðs einstaklings, til dæmis við blóðgjöf, eftir að mótefni hafa myndast bindast þau rauðu blóðkornunum með mótefnavakann sem getur haft alvarlegar afleiðingar fyrir blóðþegann.

Það er því bráðnauðsynlegt að taka tillit til blóðflokka við blóðgjöf því það að gefa einstaklingi blóð með mótefnisvaka sem hann hefur mótefni fyrir getur reynst banvænt. Þetta sýnir mikilvægi þess að fólk gefi blóð, þar sem ekki aðeins þarf að vera til nægt blóð í lítrum talið til að sinna eftirspurn, heldur þarf blóðið einnig að vera í réttum flokki fyrir hvern einstakling til þess að hægt sé að nota það til lækninga.

Heimildir:

Myndir:


Upprunalega hljóðaði spurningin svona:
Er hættulegt að blanda saman blóði tveggja einstaklinga (láta opin sár á þumalfingrum snertast) ef þeir hafa engan sjúkdóm?

...