Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Orðið áfengi á sér gamlar rætur og er sýnilega tengt sögninni fá og forsetningunni á. Sagnarsambandið kemur enda fram í fornu máli í merkingu sem greinilega býr að baki nafnorðinu. Í orðabók Fritzners um fornmálið er tilgreint sambandið drykkr fær á e-n og vísað til þriggja heimilda því til staðfestingar.
Sagnarstofninn og forsetningin fara einnig saman í lýsingarorðinu áfengur sem dæmi eru um þegar í fornmáli, eins og orðabók Árnasafns í Kaupmannahöfn vitnar um (hér eru dæmin sýnd með samræmdum nútímarithætti):
Lætur hann óspart ölið, það er áfengast var til.
Þeir drukku fast um kvöldið áfengt munngát.
Aldrei drakk hann áfengan drykk, svo að hann spillti viti sínu.
Af sömu orðstofnum er einnig myndað lýsingarorðið áfenginn, samanber eftirfarandi dæmi sem tilgreind eru í orðabók Árnasafns:
þar var og áfenginn mjöður og mjög drukkið.
Þessi maður Jóhannes mun mikill verða í guðs augliti, og mun hann eigi drekka vín eða áfenginn drykk.
Síðarnefnda orðið hefur ekki haldið velli en orðið áfengur hefur lifað góðu lífi allar götur til nútímamáls.
Áfengi í ýmsum myndum.
Elstu nafnorð af þessum orðstofnum sem vart verður í ritheimildum eru kvenkynsorðin áfengja og áfengni. Hið fyrrnefnda kemur fram um miðja 17. öld, í riti eftir séra Pál Björnsson í Selárdal, í samsetningunni áfengjudrykkur:
þeyr af asettu raadi syndga, og giefa suo synu synd þystu hiarta þann afeyngudryck.
Annað dæmi um orðið áfengja er frá byrjun 18. aldar, í sambandinu áfengja drykkjarins. Orðið áfengni kemur fram í Ferðabók Tómasar Sæmundssonar frá fyrri hluta 19. aldar, þar sem hann segir svo um eðli og einkenni vína:
Vínin eru nú harla margbreytt, sem kemur af eðli berjanna og tilbúningi vínsins. Þau eru öll annaðhvört rauð eður ljós, og hvör um sig margvíslig að sætleik og áfengni.
Þessi orð, sem vísa til vínandamagns og áhrifamáttar hins áfenga drykkjar, hafa ekki fest sig í sessi.
Þá er loks komið að því orði sem hér er haft að yfirskrift, nafnorðinu áfengi. Ritheimildir benda til þess að það sé yngsta orðið í þessari fjölskyldu, því það kemur ekki fram í söfnum Orðabókarinnar fyrr en seint á 19. öld, og þá bæði sem sjálfstætt orð og í samsetningum. Meðal elstu samsetninga orðsins eru áfengisvín og áfengisöl en af þeim má ráða að upphafleg merking orðsins lúti að styrkleika drykkjarins, eins og í orðunum áfengja og áfengni, sem fyrr voru nefnd. Sú merking hefur þó fljótlega vikið fyrir þeirri merkingu sem endurspeglast í samsetningum eins og áfengisvara, áfengistollur, áfengissala og áfengisbann, sem öll koma fram í lok 19. aldar, og vísa til áfengra drykkja sem framleiðslu- og söluvöru. Segja má að með þessari orðmyndun sé svarað kalli tímans, þegar áfengir drykkir og meðferð þeirra er orðin að félagslegu og menningarlegu fyrirbæri sem útheimtir ýmiss konar starfsemi, með tilheyrandi reglum, boðum og bönnum.
Heimildir og mynd:
Ritmálsskrá Orðabókar Háskólans.
Ordbog over det norrøne prosasprog. 1: a-bam. Redigeret af Helle Degnbol, Bent Chr. Jacobsen, Eva Rode, Christopher Sanders, Þorbjörg Helgadóttir. Udgivet af Den arnamagnæanske kommission. København 1995.
Johan Fritzner. Ordbog over Det gamle norske Sprog. Nytt uforandret opptrykk av 2. utgave (1883-1896). Oslo 1954.
Jón Hilmar Jónsson. „Hvað er orðið áfengi gamalt í málinu?“ Vísindavefurinn, 19. janúar 2011, sótt 21. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=58276.
Jón Hilmar Jónsson. (2011, 19. janúar). Hvað er orðið áfengi gamalt í málinu? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=58276
Jón Hilmar Jónsson. „Hvað er orðið áfengi gamalt í málinu?“ Vísindavefurinn. 19. jan. 2011. Vefsíða. 21. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=58276>.