Hvernig dýr eru sæapar eða "seamonkeys" og hvar lifa þau?Dýr það sem á ensku nefnist Sea-Monkey mætti kannski kalla sæapa á íslensku. Um er að ræða ræktað afbrigði af saltkefa (Artemia salina), en það er smávaxið krabbadýr af ættbálki tálknfætlna (Branchiopoda) og ættkvísl saltvatnsrækja (e. brine shrimps; Artemia). Í vísindaritum er fræðiheitið Artemia salina nyos gjarnan notað um þessa deilitegund saltkefans. Saltkefar verða venjulega um aðeins um 15 mm á lengd. Líkt og svo mörg smávaxin krabbadýr nærast þeir með því að sía vatnið af þörungum með reglubundnum hreyfingum fóta sem eru alsettir hárum. Eins og nafnið gefur til kynna eru þeir ákaflega seltuþolnir, en þeir finnast helst í selturíkum vötnum. Kunnasta vatnið sem saltkefinn lifir í er líklega Great Salt Lake í Utah ríki í Bandaríkjunum, en þar er seltan á bilinu 12-25% (selta úthafanna er venjulega í kringum 3,5%). Saltkefar geta aðeins lifað í um 5 tíma í fersku vatni. Kjörhitastig þeirra er við 24-30 °C.
- Hvers konar flokkur lífvera eru jafnfætlur?
- Á hverju nærast vatnaflær eða árfætlur?
- Hvert er mikilvægi þörunga fyrir lífríki jarðar?