Ef tígrisdýrin væru einu stóru rándýrin á svæðinu myndi málið horfa öðru vísi við. Þá er líklegt að afleiðingar þess að þau hyrfu yrðu þær að veiðidýrum fjölgaði, jafnvel óhóflega, sem gæti að lokum leitt til ofbeitar og í kjölfarið hnignunar í gróðurfari. Nokkur dæmi eru þekkt þar sem stór rándýr hafa horfið, svo sem víða í Bandaríkjunum þar sem fjallaljón (Puma concolor) og úlfar (Canis lupus) hurfu af stórum svæðum, og í kjölfari fjölgaði dádýrum óhóflega. Í ljósi reynslunnar má því gera ráð fyrir að öðrum stórum rándýrum sem hafa sambærilega vistfræðilega stöðu og tígrisdýr farnist vel við brotthvarf tígrisdýra. Ef það eru enginn önnur rándýr sem hagnast á brotthvarfinu þá gæti það leitt til offjölgunar grasbíta sem í kjölfarið myndi leiða til ofbeitar á svæðinu. Hins vegar eru rökin fyrir því að reyna að bjarga tígrisdýrum frá því að deyja út ekki eingöngu vistfræðileg heldur ekki síður menningarleg, þar sem tígrisdýr hafa merkingu fyrir fólk. Tígrisdýr er meðal annars þjóðardýr Indlands auk þess að vera héraðsdýr nokkurra héraða í Asíu svo sem í Primorye sýslu í austurhluta Rússlands. Á Vísindavefnum eru fjölmörg önnur svör um tígrisdýr, til dæmis:
- Hvar í heiminum lifa tígrisdýr?
- Hvað lifa mörg ljón og tígrisdýr í villtri náttúru?
- Hvað er hægt að gera til að bjarga tígrisdýrum frá útrýmingarhættu?
- Er það satt að búið sé að finna nýja tegund tígrisdýra?