Þegar jeg tala um einkennislýsing, á jeg ekki við hið óendanlega fimbulfamb um smámuni. (Eimreiðin 1898:38)Orðið er notað í merkingunni ‘þvættingur, heimskutal’. Það er sett saman úr fyrri liðnum fimbul- sem er herðandi forliður í merkingunni ‘ógnar-, regin-’ og –fambi. Forliðurinn kemur þegar fyrir í fornu máli í Eddukvæðum. Óðinn er til dæmis nefndur fimbultýr ‘hinn mikli guð’ í 60. erindi Völuspár, fimbulljóð kemur fyrir í 140. erindi Hávamála og fimbulþulur er nefndur í 142. erindi sama kvæðis, fimbulvetur kemur fyrir í 44. erindi Vafþrúðnismála og fimbulfambi í 103. erindi Hávamála. Erindinu lýkur á þessum hendingum:
Fimbulfambi heitir sá er fátt kann segja, það er ósnoturs aðal.Fimbulfambi merkir ‘mjög heimskur maður’ og með orðinu ósnotur ‘heimskur, vitgrannur’ er lögð áhersla á að heimskan sé einkenni þess sem hefur frá litlu að segja.
Orðið –fambi virðist einungis koma fyrir í fimbulfambi og samsetningum leiddum af því orði. Af fimbulfambi er leidd sögnin að fimbulfamba ‘tala flónslega, þrugla’ sem Orðabókin á elst dæmi um úr þriðja árgangi Fjölnis frá miðri 19. öld. Af sögninni er síðan leitt nafnorðið fimbulfamb og gerandnafnorðið fimbulfambari. Í orðabókarhandriti Jóns Ólafssonar úr Grunnavík frá 18. öld (AM 433 fol.) er einungis fimbulfambi fletta og við stendur latneska skýringin ‘multum pauciloqvus’, það er sá sem hefur mjög lítið að segja, og vitnar Jón í Hávmál. Fimbulfambi er ekki fletta í orðabók Björns Halldórssonar frá 1814 og virðist það fyrst komast í orðabók í útgáfu Sigfúsar Blöndals á Íslensk-danskri orðabók 1920–1924 en þar má finna öll orðin, fimbulfamb, fimbulfamba og fimbulfambi. Í Íslenskri orðsifjabók (1989:175) bendir Ásgeir Blöndal Magnússon á skyldleika við orðið fimbulsvætti ‘þorpari, þrjótur’ í færeysku, fornenska áhersluliðinn fīfel- og fornenska nafnorðið fīfel ‘óvættur, risi’. Fimbul- er skylt orðinu fífl sem komið er úr germönsku *femfila-. Síðari samsetningarliðinn –fambi tengir hann nýnorska orðinu famp ‘digur maður’ og orðinu fjambe ‘flón’ í danskri mállýsku og telur að upphafleg merking hafi ef til vill verið ‘digur, luralegur (og klaufskur) maður’ (1989:163). Heimildir og mynd:
- Ásgeir Blöndal Magnússon. 1989. Íslensk orðsifjabók. Orðabók Háskólans, Reykjavík.
- Ritmálssafn Orðabókar Háskólans (www.arnastofnun.is).
- Sigfús Blöndal. 1920–1924. Íslensk-dönsk orðabók. Reykjavík.
- Mynd: Spilavinir. Sótt 28. 12. 2010.
Þetta svar hefur einnig birst sem pistill um orð vikunnar á vef Stofnunar Árna Magnússonar og birt hér með góðfúslegu leyfi.