Sólin Sólin Rís 10:17 • sest 16:10 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 21:40 • Sest 15:54 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 10:12 • Síðdegis: 22:46 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 03:46 • Síðdegis: 16:36 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 10:17 • sest 16:10 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 21:40 • Sest 15:54 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 10:12 • Síðdegis: 22:46 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 03:46 • Síðdegis: 16:36 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Hvernig og við hvaða skilyrði berst hafís til Íslands?

Trausti Jónsson

Nær allur hafís við Ísland er hingað kominn fyrir tilverknað hafstrauma og vinds. Það er aðeins í undantekningartilvikum sem hann myndast á hafsvæðum skammt undan ströndum landsins. Líkur á að hafís komi upp að ströndum landsins ráðast að mestu af tveimur þáttum: a) Heildarflatarmáli íss við Austur-Grænland og b) ríkjandi vindáttum við ískomu og vikurnar undan henni. Auk þessa stuðlar mikil og eindregin lagskipting sjávar að myndun hafíss og viðhaldi hans.

Þættirnir tveir eru ekki alveg óháðir því tilhneiging er til þess að meira myndist af nýjum ís í Austur-Grænlandsstraumnum sé vindafar með þeim hætti að það dreifi úr ísnum í miklum frostum.

Danski hafísfræðingurinn Lauge Koch lagði til í riti sínu um Austur-Grænlandsísinn (1945) að ískomur við Ísland væru greindar í þrjá flokka eftir því hversu breiður ísstraumurinn undan Austur-Grænlandi er.

Koch kallar það A-ískomu þegar ís berst til Íslands út úr mjóum ísstraum við Austur-Grænland, við kjósum að kalla það vesturís. Sé ísstraumurinn breiður talar Koch um B-ís, við köllum það norðurís. Sé ísstraumurinn afspyrnubreiður talar Koch um C-ís, en við tölum um austurís. Í hverjum flokki Koch voru síðan fjórar undirdeildir, 1 minnst, 4 mest.



Mynd sem sýnir hvernig vesturís berst til landsins (kortagrunnur eftir Þórð Arason).

Megnið af árinu eru norðan- og norðaustanáttir ríkjandi yfir hafsvæðunum norður og vestur af Íslandi. Ís rekur yfirleitt ekki beint undan vindi heldur um 30° til hægri við vindstefnu. Því halda ríkjandi vindáttir ísnum oftast inni í Austur-Grænlandsstraumnum. Hann rekur þá suðvestur um Grænlandssund, framhjá Íslandi.

Við þessi skilyrði er ísröndin oftast um eða utan við miðlínu milli Íslands og Grænlands. Stöku sinnum bregður út af með vindáttir og tímabil koma þegar áttir eru breytilegar eða jafnvel suðvestlægar eða vestlægar. Þá dregur mjög úr ísflutningum um Grænlandssund og ísinn dreifist þess í stað til austurs í sundinu og fyrir norðan land. Ísbrúnin verður óljós og ísinn dreifður og þekur hann oft aðeins 1 til 6 tíunduhluta sjávar, en liggur þó oftast í þéttum röstum með breiðum opnum lænum á milli þar sem aðeins jakar eru á stangli.

Þar sem Íslandsstrendur standa að lokum fyrir frekara reki getur hann safnast saman við ströndina og úti fyrir henni eða tafið siglingar.

Vesturís er algengasta afbrigði ískomu við Ísland og kemur á nokkurra ára fresti, til dæmis í töluverðu magni bæði 2005 og 2007. Taka ber eftir því að hann getur jafnvel komið þótt ís sé með minnsta móti við Grænland. Ískoma af þessu tagi getur komið á nærri því hvaða tíma árs sem er ef vindáttir liggja í nokkrar vikur úr vestri á Grænlandsundi.

Langalgengastur er vesturís þó síðla vetrar og snemma vors, en þá er mest af ís í Austur-Grænlandsstraumnum og á sumrin þegar norðaustanáttin við Grænland er veikust. Sé sjór við Ísland kaldur fyrir og vel lagskiptur getur vesturís borist austur fyrir Melrakkasléttu og Langanes með strandstraumum og þaðan suður með Austurlandi.



Hafís í Dýrafirði í lok janúar 2007.

Vesturís berst stundum suður með Vestfjörðum og geta spangir eða samfelldur ís fyllt Ísafjarðardjúp og firðina þar suður af. Að sögn munu dæmi þess að vesturís hafi komist inn á Breiðafjörð norðanverðan en svo sjaldgæft er það að erfitt er að finna dæmi sem eru algjörlega vafalaus. Ísrek á Breiðafirði er nær undantekningarlaust lagnaðarís af firðinum innanverðum.

Vesturíss verður gjarnan vart eftir að vestan- eða suðvestanátt hefur verið ríkjandi í Grænlandssundi í viku til tíu daga. Ef vindur er úr vestri er algengasta ísrek úr vestnorðvestri. Úti af Vestfjörðum eru straumaskil á milli Austur-Grænlandsstraumsins og þeirrar álmu Irmingerstraumsins sem ber hlýjan Atlantssjó norðaustur með Vestfjörðum og sveigir síðan til austurs undan Norðurlandi. Vindurinn þarf því fyrst og fremst að koma ísnum suður fyrir straumaskilin til að leið hans austur á Húnaflóa sé tiltölulega greið. En hlýsjórinn er fjandsamlegur ísnum og hann bráðnar fljótt.

Það gefur augaleið að bráðni mikið af ís kólna yfirborðslög sjávar smám saman og „aðlagast“ ísnum. Meira væri um ískomur af þessu tagi ef ekki vildi svo til að vindáttir milli vesturs og norðurs eru sjaldgæfar á norðanverðu Grænlandssundi, en það stafar af áhrifum hálendis Grænlands.

Af ískomuflokkunum þremur er vesturísinn langalgengastur, þó ekki árviss.

Myndir:
  • Kort: Trausti Jónsson, kortagrunnur eftir Þórð Arason.
  • Mynd frá Dýrafirði: Veðurstofan.


Þetta svar er fengið af bloggi Trausta Jónssonar og birt hér í örlítið styttri mynd með góðfúslegu leyfi.

Höfundur

Trausti Jónsson

veðurfræðingur

Útgáfudagur

4.1.2011

Spyrjandi

Ritstjórn

Tilvísun

Trausti Jónsson. „Hvernig og við hvaða skilyrði berst hafís til Íslands?“ Vísindavefurinn, 4. janúar 2011, sótt 21. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=58095.

Trausti Jónsson. (2011, 4. janúar). Hvernig og við hvaða skilyrði berst hafís til Íslands? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=58095

Trausti Jónsson. „Hvernig og við hvaða skilyrði berst hafís til Íslands?“ Vísindavefurinn. 4. jan. 2011. Vefsíða. 21. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=58095>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Hvernig og við hvaða skilyrði berst hafís til Íslands?
Nær allur hafís við Ísland er hingað kominn fyrir tilverknað hafstrauma og vinds. Það er aðeins í undantekningartilvikum sem hann myndast á hafsvæðum skammt undan ströndum landsins. Líkur á að hafís komi upp að ströndum landsins ráðast að mestu af tveimur þáttum: a) Heildarflatarmáli íss við Austur-Grænland og b) ríkjandi vindáttum við ískomu og vikurnar undan henni. Auk þessa stuðlar mikil og eindregin lagskipting sjávar að myndun hafíss og viðhaldi hans.

Þættirnir tveir eru ekki alveg óháðir því tilhneiging er til þess að meira myndist af nýjum ís í Austur-Grænlandsstraumnum sé vindafar með þeim hætti að það dreifi úr ísnum í miklum frostum.

Danski hafísfræðingurinn Lauge Koch lagði til í riti sínu um Austur-Grænlandsísinn (1945) að ískomur við Ísland væru greindar í þrjá flokka eftir því hversu breiður ísstraumurinn undan Austur-Grænlandi er.

Koch kallar það A-ískomu þegar ís berst til Íslands út úr mjóum ísstraum við Austur-Grænland, við kjósum að kalla það vesturís. Sé ísstraumurinn breiður talar Koch um B-ís, við köllum það norðurís. Sé ísstraumurinn afspyrnubreiður talar Koch um C-ís, en við tölum um austurís. Í hverjum flokki Koch voru síðan fjórar undirdeildir, 1 minnst, 4 mest.



Mynd sem sýnir hvernig vesturís berst til landsins (kortagrunnur eftir Þórð Arason).

Megnið af árinu eru norðan- og norðaustanáttir ríkjandi yfir hafsvæðunum norður og vestur af Íslandi. Ís rekur yfirleitt ekki beint undan vindi heldur um 30° til hægri við vindstefnu. Því halda ríkjandi vindáttir ísnum oftast inni í Austur-Grænlandsstraumnum. Hann rekur þá suðvestur um Grænlandssund, framhjá Íslandi.

Við þessi skilyrði er ísröndin oftast um eða utan við miðlínu milli Íslands og Grænlands. Stöku sinnum bregður út af með vindáttir og tímabil koma þegar áttir eru breytilegar eða jafnvel suðvestlægar eða vestlægar. Þá dregur mjög úr ísflutningum um Grænlandssund og ísinn dreifist þess í stað til austurs í sundinu og fyrir norðan land. Ísbrúnin verður óljós og ísinn dreifður og þekur hann oft aðeins 1 til 6 tíunduhluta sjávar, en liggur þó oftast í þéttum röstum með breiðum opnum lænum á milli þar sem aðeins jakar eru á stangli.

Þar sem Íslandsstrendur standa að lokum fyrir frekara reki getur hann safnast saman við ströndina og úti fyrir henni eða tafið siglingar.

Vesturís er algengasta afbrigði ískomu við Ísland og kemur á nokkurra ára fresti, til dæmis í töluverðu magni bæði 2005 og 2007. Taka ber eftir því að hann getur jafnvel komið þótt ís sé með minnsta móti við Grænland. Ískoma af þessu tagi getur komið á nærri því hvaða tíma árs sem er ef vindáttir liggja í nokkrar vikur úr vestri á Grænlandsundi.

Langalgengastur er vesturís þó síðla vetrar og snemma vors, en þá er mest af ís í Austur-Grænlandsstraumnum og á sumrin þegar norðaustanáttin við Grænland er veikust. Sé sjór við Ísland kaldur fyrir og vel lagskiptur getur vesturís borist austur fyrir Melrakkasléttu og Langanes með strandstraumum og þaðan suður með Austurlandi.



Hafís í Dýrafirði í lok janúar 2007.

Vesturís berst stundum suður með Vestfjörðum og geta spangir eða samfelldur ís fyllt Ísafjarðardjúp og firðina þar suður af. Að sögn munu dæmi þess að vesturís hafi komist inn á Breiðafjörð norðanverðan en svo sjaldgæft er það að erfitt er að finna dæmi sem eru algjörlega vafalaus. Ísrek á Breiðafirði er nær undantekningarlaust lagnaðarís af firðinum innanverðum.

Vesturíss verður gjarnan vart eftir að vestan- eða suðvestanátt hefur verið ríkjandi í Grænlandssundi í viku til tíu daga. Ef vindur er úr vestri er algengasta ísrek úr vestnorðvestri. Úti af Vestfjörðum eru straumaskil á milli Austur-Grænlandsstraumsins og þeirrar álmu Irmingerstraumsins sem ber hlýjan Atlantssjó norðaustur með Vestfjörðum og sveigir síðan til austurs undan Norðurlandi. Vindurinn þarf því fyrst og fremst að koma ísnum suður fyrir straumaskilin til að leið hans austur á Húnaflóa sé tiltölulega greið. En hlýsjórinn er fjandsamlegur ísnum og hann bráðnar fljótt.

Það gefur augaleið að bráðni mikið af ís kólna yfirborðslög sjávar smám saman og „aðlagast“ ísnum. Meira væri um ískomur af þessu tagi ef ekki vildi svo til að vindáttir milli vesturs og norðurs eru sjaldgæfar á norðanverðu Grænlandssundi, en það stafar af áhrifum hálendis Grænlands.

Af ískomuflokkunum þremur er vesturísinn langalgengastur, þó ekki árviss.

Myndir:
  • Kort: Trausti Jónsson, kortagrunnur eftir Þórð Arason.
  • Mynd frá Dýrafirði: Veðurstofan.


Þetta svar er fengið af bloggi Trausta Jónssonar og birt hér í örlítið styttri mynd með góðfúslegu leyfi. ...