mér kynni þá líka ad liggja á einum og ødrum búsáhøldum (ef eg þá færi ad búa).Þótt orðið þekkist þegar á fyrri hluta 19. aldar kemst það tiltölulega seint inn í orðabækur. Það er til dæmis ekki að finna í Íslensk-danskri orðabók Sigfúsar Blöndal (1920–1924) en er fletta í viðbæti við þá bók frá 1963 og skýringin ‛husgeråd, køkkentøj’. Þar eru einnig samsetningarnar búsáhaldabúð, búsáhaldadeild og búsáhaldaglamur. Í fyrstu tveimur útgáfum Íslenskrar orðabókar (1963 og 1983) er orðið ekki fletta en í þriðju útgáfu frá 2002 er það með og skýringin sögð ‛hlutur sem notaður er við matreiðslu eða framleiðslu matar’ (bls. 191).
Af dæmum í Ritmálssafni Orðabókarinnar má sjá að orðið hefur áður fyrr einnig verið notað í víðari merkingu en þeirri sem fram kemur í Íslenskri orðabók. Undir flettunni búsáhaldasýning er þetta dæmi úr bókinni Horfnir starfshættir og leiftur frá liðnum öldum eftir Guðmund Þorsteinsson frá Lundi (1975:45):
Það er ekki fyrr en Halldór á Hvanneyri sýnir á búsáhaldasýningu 1921 heyhnífa, sem litu út sem ristuspaðar með beinum fal og fótstigi, sem heyhnífar breiðast út.Flestir nota nú orðið búsáhöld í sömu eða svipaðri merkingu og eldhúsáhöld, það er um potta og pönnur, sleifar og hnífa og fleira af því tagi til daglegra nota í eldhúsi. Mynd: Buffalo Export. Sótt 23. 12. 2010.
Þetta svar hefur einnig birst sem pistill um orð vikunnar á vef Stofnunar Árna Magnússonar og birt hér með góðfúslegu leyfi.