Hvaðan er orðið eyjaskeggi komið? Og hvað merkir "skeggi" þarna?Eiginnafnið Skeggi var algengt í fornu máli og eru allnokkur dæmi um það í Íslendingasögum, Landnámu og Sturlungu. Í fornmálsorðabók Johans Fritzners (1896:299) er skeggi sagt merkja ‘maður’. Einnig var Skeggi notað sem viðurnefndi, til dæmis Skegg-Þórir í Egils sögu og Skegg-Bjálfi í Gísla sögu. Fritzner hefur einnig samsetningarnar eyjarskeggi, Götuskeggi og Mostrarskeggi. Í Færeyinga sögu stendur (ÍF MMVI: 80)
Sigmundr ok þeir váru uppi á eyjunni; sá þeir þá at menn gengu upp á eyna ok þar blikuðu við skildir fagrir. Þeir höfðu töl á, ok váru tólf menn komnir upp á eyna. Sigmundr spurði hvat mönnum þat mundi vera. Þórir kvezk kenna at þar váru Götuskeggjar, Þrándr ok þeir frændr hans. (Stafsetningu lítillega breytt)Þrándur bjó í bænum Götu á Austurey. Þarna tel ég eðlilegast að -skeggi merki ‘maður’, það er mennirnir frá Götu. Þórólfur Mostrarskegg er nefndur í Eyrbyggju (ÍF 1935:6). Útgefendur taka af öll tvímæli og skýra viðurnefnið svo í neðanmálsgrein: ,,Viðurnefni hans er Mostrarskeggi hjá Ara [fróða] og í Gull-Þóris s., og er það réttara; það þýðir Mostrarbúi.“ Mostur er eyja við Noreg. Eyjarskeggi ætti samkvæmt þessu að vísa til þeirra sem búa á eyju. Heimildir:
- ÍF 1935. Eyrbyggja saga, Grænlendinga saga.
- ÍF 2006. Færeyinga saga. Ólafs saga Tryggvasonar eptir Odd munk Snorrason. Ólafur Halldórsson gaf út. Hið íslenzka fornritafélag. XXV bindi. Reykjavík.
- Johan Fritzner. 1896. Ordbog over det gamle norske Sprog. Tredie Bind, R–Ö. Den norske Forlagsforening: Kristiania.
- File:The landing of Vikings on America.jpg - Wikipedia. (Sótt 9.11.2018).