Hvaðan kemur orðatiltækið 'enginn verður óbarinn biskup'? Voru biskupar lamdir í gamla daga?Engin sérstök saga virðist tengd við máltækið enginn verður óbarinn biskup. Með því er átt við að enginn nái langt án þess að hafa lagt hart að sér, ekki einu sinni biskupar. Í sögunni af Guðmundi biskupi góða er frá því sagt að hann hafi verið heldur ódæll í æsku og verið barinn til bókar, það er honum var refsað ef hann lagði ekki að sér við námið. Hann náði þó að verða biskup, ef til vill vegna þess að hann var tuktaður til, barinn. Máltækið gæti átt óbeint rætur að rekja til Guðmundar sögu en verið um leið þýðing á latneskum málshætti, til dæmis per arduum ad astra 'með erfiði til stjarnanna'. Í Íslensk-danskri orðabók Sigfúsar Blöndals (1920-1924:586) er sambærilegt máltæki, tugt og lære giver brød og ære, notað sem þýðing á 'enginn verður óbarinn biskup'. Orðasambandið að berja einhvern til bókar er þekkt úr fornu máli og er notað enn í dag þótt fáum sé haldið að bóklestri nú til dags með barsmíðum.
Útgáfudagur
30.3.2006
Spyrjandi
Linda Árnadóttir
Magnús Símonarson
Tilvísun
Guðrún Kvaran. „Voru biskupar barðir fyrr á öldum?“ Vísindavefurinn, 30. mars 2006, sótt 21. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=5744.
Guðrún Kvaran. (2006, 30. mars). Voru biskupar barðir fyrr á öldum? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=5744
Guðrún Kvaran. „Voru biskupar barðir fyrr á öldum?“ Vísindavefurinn. 30. mar. 2006. Vefsíða. 21. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=5744>.