Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Freknur eru litlar skellur af litarefninu melaníni í húðinni. Þær eru mjög mismunandi á stærð, oftast álíka stórar og títuprjónshaus en geta runnið saman og þá orðið stærri. Freknur myndast við sams konar ferli og þegar við verðum sólbrún (sjá svar sama höfundar við spurningunni Hvers vegna verðum við brún af því að vera mikið í sól?) nema að dreifing melaníns verður ójöfn þegar um freknur er að ræða. Flestir freknóttir einstaklingar eru ljósir á hörund.
Freknur er helst að finna í andliti, einkum á nefinu, en geta þó myndast hvar sem sól skín á húðina. Þær eru mjög sjaldgæfar á ungbörnum en miklu algengari á 5-12 ára börnum en fullorðnum.
Erfðir ráða því hvort einstaklingur hefur tilhneigingu til að fá freknur eða verða brúnn þegar sólin skín á húð hans. Freknóttir eru með sérstakt afbrigði af einu genanna sem ræður húð- og hárlit. Nokkur afbrigði eru þekkt af þessu geni og eru þau víkjandi gagnvart því geni sem algengast er. Ef einstaklingur erfir slíkt afbrigði frá öðru eða báðum foreldrum sínum er húð hans föl og verður freknótt þegar hún er óvarin fyrir sól.
Freknur fylgja gjarnan rauðu hári.
Munur er á þeim sem erfa afbrigðið frá báðum foreldrum og þeim sem erfa það aðeins frá öðru foreldrinu. Arfhreinir (með afbrigðið frá báðum foreldrum) eru rauðhærðir auk þess að vera ljósir á hörund, brenna auðveldlega í sól og fá freknur í stað brúnku (nánar má lesa um rautt hár í svari sama höfundar við spurningunni Eru litningar í rauðhærðum eitthvað gallaðir?). Arfblendnir eru ekki endilega rauðhærðir en hafa sömu húðeinkennin og arfhreinir. Einstaklingar sem eru með ljósa húð og brenna auðveldlega ættu að fara mjög varlega í sól og nota ávallt sólarvörn því þeir eru í miklu meiri hættu en aðrir að fá húðkrabbamein.
Sumar freknur dofna á veturna eða hverfa nær alveg en birtast aftur þegar sól hækkar á lofti. Hjá sumum dofna þær einnig með aldrinum. Hægt er að losna tímabundið við freknur með því að bera á þær krem sem upplita þær, en þegar sól skín aftur á húðina koma nýjar í staðinn. Það er auðveldara að koma í veg fyrir freknur (eða draga úr því að þær myndist) með því að halda sig frá sólinni eða að minnsta kosti nota öfluga sólarvörn en að losna við þær. En hvers vegna að losna við þær? Eins og einhver sagði: „Andlit án frekna er eins og næturhiminn án stjarna!“
Heimildir og mynd: