Ef við viljum telja upp að endalausu þá er um að gera að byrja!
einn...tveir...þrír...fjórir...fimm...Eini munurinn á því að telja upp í endalaust og að telja upp í hundrað er sá að þegar við teljum upp í hundrað þá hættum við þegar við segjum hundrað:
...níutíu og átta...níutíu og níu...hundrað BÚIÐEn til þess að telja upp í endalaust verðum við að gæta þess að hætta aldrei. Þannig kemst maður upp í endalaust eftir endalausan tíma. Því miður geta mennirnir ekki lifað endalaust svo að þetta er ónothæf aðferð. Jafnvel þótt einn tæki við af öðrum með einhvers konar vaktaskiptum þá dygði það ekki til vegna þess að mönnum er aðeins ætlaður endanlegur tími hér á jörðinni og hugsanlegt er líka að alheimurinn eigi eftir að líða undir lok eftir endanlegan tíma. Til þess að geta talið upp í endalaust á endanlegum tíma þarf að telja mjög hratt. Til dæmis má nota eftirfarandi aðferð:
Segðu "einn" einni sekúndu síðar segðu "tveir" hálfri sekúndi síðar segðu "þrír" helmingnum af hálfri sekúndu síðar segðu "fjórir" helmingnum af helmingnum af hálfri sekúndu síðar segðu "fimm" og svona verður að halda áfram alltaf hraðar og hraðar...Með þessari aðferð kemstu upp í endalaust á aðeins tveimur sekúndum! Að vísu gæti orðið erfitt að segja orðin svona hratt og það getur verið fljótlegra að segja þau bara í hljóði. Síðan eftir tvær sekúndur geturðu sagt "Búin, ég er komin upp í endalaust!" En, sem sagt, ekki taka þetta of alvarlega!