Sólin Sólin Rís 10:17 • sest 16:10 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 21:40 • Sest 15:54 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 10:12 • Síðdegis: 22:46 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 03:46 • Síðdegis: 16:36 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 10:17 • sest 16:10 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 21:40 • Sest 15:54 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 10:12 • Síðdegis: 22:46 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 03:46 • Síðdegis: 16:36 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Getið þið sagt mér eitthvað um þríbrota?

Jón Már Halldórsson

Þríbrotar (trilobita) eru útdauður hópur liðdýra (Arthropoda) sem uppi var á fornlífsöld. Þríbrotar voru með svokallaða ytri stoðgrind sem varðveitist afar vel í jarðlögum og gerir það að verkum að þetta er einn best þekkti hópur dýra frá fornlífsöld.



Þríbrotar hafa varðveist vel í jarðlögum.

Elstu þríbrotarnir fundust í jarðlögum frá því snemma á kambríum-skeiðinu, fyrir um 530 milljón árum síðan. Á fyrri hluta forlífsaldar varð mikil tegundaútgeislun meðal þríbrota og eru þeir einkennisdýr kambríum-tímabilsins (fyrsta tímabil fornlífsaldar). Hins vegar virðist sem tegundum hafi farið verulega fækkandi þegar kom fram á devon-tímabilið og aðeins er þekktur einn ættbálkur, Proetida, frá lokum þess tímabils, fyrir um 360 milljón árum síðan. Hann var síðan útdauður á mörkum fornlífs- og miðlífsaldar fyrir um 250 milljón árum í hinni miklu útrýmingarbylgju sem þá reið yfir lífverur jarðar.

Þríbrotar voru sjávardýr og komu þeir sér fyrir í ýmsum vistum í vistkerfi sjávar. Sumir skriðu um hafsbotninn og átu það sem á vegi þeirra varð og þeir höfðu burði til. Aðrir voru síarar, syntu um uppsjóinn og síuðu dýrasvif, enn aðrir síuðu sjávarsetið í leit að lífrænum ögnum og jafnvel er talið að einhverjar tegundir hafi verið hræætur.

Steingervingafræðingar hafa fundið og greint þúsundir tegunda þríbrota. Þeir eru mjög breytilegir að stærð, allt frá einum mm upp í rúma 70 cm, en algengasta stærðin er á bilinu 3-10 cm. Stærsta eintakið sem fundist hefur, mældist 72 cm og fannst í klettalögum við Hudsonflóa í Kanada árið 1998.

Þríbrotar voru með þrískiptan líkama, höfuð (cephalon), framlið (thorax) og afturlið (pygidium). Höfuð þríbrota er afar breytilegt eftir ættkvíslum. Í höfðinu var samanþjappaður taugavefur sem mætti kalla heila og þar voru samsett augu. Framliðurinn var samansettur úr liðum sem voru allbreytilegir eftir tegundum eða frá tveimur upp í 61 lið. Út frá hverjum lið gengu mislangar hornplötur sem hafa sennilega gegnt því hlutverki að verja tálknin fyrir árásum annarra dýra og annars konar hnjaski. Afturliðurinn var samsettur úr fjölmörgum liðum og voru öftustu liðirnir samvaxnir.

Þríbrotar hafa reynst líffræðingum ómetanlegir í rannsóknum á hraða þróunar og tegundamyndunar þar sem þeir eru þekktasti hópur fjölfrumunga fornlífsaldar og sá hópur sem vísindamenn hafa greint niður í flestar þekktar tegundir.

Frekari fróðleikur á Vísindavefnum:

Myndir:

Höfundur

Jón Már Halldórsson

líffræðingur

Útgáfudagur

23.11.2010

Spyrjandi

Aðalheiður Lilja Bjarnadóttir, f. 1991

Tilvísun

Jón Már Halldórsson. „Getið þið sagt mér eitthvað um þríbrota?“ Vísindavefurinn, 23. nóvember 2010, sótt 21. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=57141.

Jón Már Halldórsson. (2010, 23. nóvember). Getið þið sagt mér eitthvað um þríbrota? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=57141

Jón Már Halldórsson. „Getið þið sagt mér eitthvað um þríbrota?“ Vísindavefurinn. 23. nóv. 2010. Vefsíða. 21. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=57141>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Getið þið sagt mér eitthvað um þríbrota?
Þríbrotar (trilobita) eru útdauður hópur liðdýra (Arthropoda) sem uppi var á fornlífsöld. Þríbrotar voru með svokallaða ytri stoðgrind sem varðveitist afar vel í jarðlögum og gerir það að verkum að þetta er einn best þekkti hópur dýra frá fornlífsöld.



Þríbrotar hafa varðveist vel í jarðlögum.

Elstu þríbrotarnir fundust í jarðlögum frá því snemma á kambríum-skeiðinu, fyrir um 530 milljón árum síðan. Á fyrri hluta forlífsaldar varð mikil tegundaútgeislun meðal þríbrota og eru þeir einkennisdýr kambríum-tímabilsins (fyrsta tímabil fornlífsaldar). Hins vegar virðist sem tegundum hafi farið verulega fækkandi þegar kom fram á devon-tímabilið og aðeins er þekktur einn ættbálkur, Proetida, frá lokum þess tímabils, fyrir um 360 milljón árum síðan. Hann var síðan útdauður á mörkum fornlífs- og miðlífsaldar fyrir um 250 milljón árum í hinni miklu útrýmingarbylgju sem þá reið yfir lífverur jarðar.

Þríbrotar voru sjávardýr og komu þeir sér fyrir í ýmsum vistum í vistkerfi sjávar. Sumir skriðu um hafsbotninn og átu það sem á vegi þeirra varð og þeir höfðu burði til. Aðrir voru síarar, syntu um uppsjóinn og síuðu dýrasvif, enn aðrir síuðu sjávarsetið í leit að lífrænum ögnum og jafnvel er talið að einhverjar tegundir hafi verið hræætur.

Steingervingafræðingar hafa fundið og greint þúsundir tegunda þríbrota. Þeir eru mjög breytilegir að stærð, allt frá einum mm upp í rúma 70 cm, en algengasta stærðin er á bilinu 3-10 cm. Stærsta eintakið sem fundist hefur, mældist 72 cm og fannst í klettalögum við Hudsonflóa í Kanada árið 1998.

Þríbrotar voru með þrískiptan líkama, höfuð (cephalon), framlið (thorax) og afturlið (pygidium). Höfuð þríbrota er afar breytilegt eftir ættkvíslum. Í höfðinu var samanþjappaður taugavefur sem mætti kalla heila og þar voru samsett augu. Framliðurinn var samansettur úr liðum sem voru allbreytilegir eftir tegundum eða frá tveimur upp í 61 lið. Út frá hverjum lið gengu mislangar hornplötur sem hafa sennilega gegnt því hlutverki að verja tálknin fyrir árásum annarra dýra og annars konar hnjaski. Afturliðurinn var samsettur úr fjölmörgum liðum og voru öftustu liðirnir samvaxnir.

Þríbrotar hafa reynst líffræðingum ómetanlegir í rannsóknum á hraða þróunar og tegundamyndunar þar sem þeir eru þekktasti hópur fjölfrumunga fornlífsaldar og sá hópur sem vísindamenn hafa greint niður í flestar þekktar tegundir.

Frekari fróðleikur á Vísindavefnum:

Myndir:...