Framan af 20. öld var algengast að varðveita hljóðupptökur á vínylplötum. Hér sést 10 tommu hljómplata.
Snúningshraði Nú eru framleiddar hljómplötur með 33 1/3 snúningum á mínútu og 45 snúningum á mínútu. Lengi framan af voru 78 snúninga plötur algengar en það heyrir til undantekninga að nútímaplötuspilarar bjóði upp á þann snúningshraða. Útlit vínylplatna Algengasta þvermál hljómplötu er í kringum 300 mm (12 tommur), en einnig er nokkuð algengt að styttri hljóðupptökur séu gefnar út á 250 mm (10 tommu) eða 175 mm (7 tommu) plötum. Plata í fullri lengd (breiðskífa, e. long play, LP) er yfirleitt 300 mm í þvermál og spilast á 33 1/3 snúningum á mínútu. Með því móti má koma allt að 30 mínútum af efni á hvora hlið plötunnar. Vani er að lita vínylplötur svartar, en viðhafnarútgáfur einstakra platna eða takmörkuð upplög eru oft höfð í öðrum litum og eru þær plötur oft eftirsóttar meðal safnara. Vínylplata í fullri lengd er yfirleitt 12 tommur í þvermál og spilast á 33 1/3 snúningum á mínútu Ókostir vínylplatna Ókostir vínylplatna eru þó nokkrir. Smærri rispur og ryk valda smellum og snarki við afspilun. Verði rispa milli ráka er hætt við að nálin flakki á milli þeirra þannig að hökt komi í hljóðupptökuna. Fylgifiskur þess að rákir plötu eru styttri eftir því sem innar er farið á plötuna er að hraði nálar miðað við rákir verður sífellt minni. Þetta veldur því að hljómur plötunnar getur breyst lítið eitt eftir því sem innar dregur. Vínylplötur geta einnig skekkst, til dæmis vegna hita eða framleiðslugalla. Þegar skekktar plötur eru spilaðar geta tónar upptökunnar afbakast þar sem hraðinn á yfirferð nálarinnar verður annar en gert var ráð fyrir við hönnun ráka hljómplötunnar. Svipuð áhrif geta orðið ef gatið í miðju hljómplötunnar er ekki rétt staðsett.

Stækkuð mynd af yfirborði vínilplötu. Rákirnar sjást vel og einnig ryk sem getur valdið smellum og snarki við afspilun.
- File:Vinyl record LP 10inch.JPG - Wikimedia Commons. (Sótt 5.01.2016).
- Gramophone record - Wikipedia, the free encyclopedia. (Sótt 5.01.2016).