Sólin Sólin Rís 10:17 • sest 16:10 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 21:40 • Sest 15:54 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 10:12 • Síðdegis: 22:46 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 03:46 • Síðdegis: 16:36 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 10:17 • sest 16:10 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 21:40 • Sest 15:54 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 10:12 • Síðdegis: 22:46 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 03:46 • Síðdegis: 16:36 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Hver er saga Tórínó-líkklæðisins?

Sigurður Ægisson

Enginn af helgum dómum kirkjunnar hefur verið rannsakaður jafn gaumgæfilega af vísindamönnum og sá sem kallaður hefur verið Tórínó-líkklæðið.

Þessa línstranga, sem er 4,36 m langur og 1,10 m breiður, er fyrst getið í heimildum, að öruggt sé, upp úr miðri 14. öld. Eigandi hans þá var Geoffroi de Charnay aðalsmaður, kenndur við smábæinn Lirey í Norður-Frakklandi. Á þeim tíma var haft fyrir satt að þetta væri líkklæði meistarans frá Betlehem og Nasaret. Áttu menn að hafa vafið því utan um jarðneskar leifar Krists, þegar hann var tekinn niður af krossinum á Hausaskeljastað en á umræddu klæðisplaggi sjást óljósar útlínur blóðugs manns.

Hið meinta líkklæði varð fljótlega miðdepill athygli pílagríma og annarra sem komu víðsvegar að til að berja það augum. Biskupinn í Troyes, Henri de Poitiers, bannaði þó fljótlega sýningu þess. Rúmlega 30 árum síðar var það tekið fram á ný, en í kjölfarið (1389) lýsti eftirmaður de Poitiers, Pierre D'Arcis, því yfir í bréfi til andpáfans í Avignon, að forveri sinn hafi talið þetta vera fölsun, og á sökudólgurinn að hafa játað verknaðinn, enda líka hvergi minnst á slíkan grip í heilagri ritningu. Klemens VII tók samt þann kostinn að leyfa sýningu þess, en bað fólk að muna að það einungis „stæði fyrir eða væri tákn“ hins eina sanna klæðis. Þeir sem á eftir honum komu töldu þetta hins vegar ósvikið.

Árið 1418 flutti Humbert greifi af Villersexel, sem kvæntur var afabarni Geoffroi de Charnay, línstrangann í kastala sinn í Montfort í Frakklandi til að bjarga honum undan ræningjaflokkum. Síðar var klæðið flutt til Saint-Hippolyte-sur-Doubs. Eftir dauða Humberts ferðaðist ekkja hans með það til sýningar, meðal annars í Liege og Genf. En árið 1453 lét hún að endingu strangann fyrir kastala í Varambon í Frakklandi. Nýi eigandinn var Louis frá Savoy og var efnið nú varðveitt í Chambery. Árið 1471 var það flutt á milli hinna ýmsu borga í Evrópu og af samtímalýsingum að dæma er greinilegt að þar var mikill dýrgripur talinn á ferð, enda þá geymt í silkivöfðu helgiskríni.

Árið 1532 skemmdist klæðið af eldi, meðal annars við að bráðið silfur lak á það, og sumir telja af vatni einnig. Nokkru síðar eða árið 1578 er það komið í dómkirkjuna í Tórínó á Ítalíu og á þar dvalarstað og heimkynni upp frá því. Árið 1983 er það gefið páfastóli, en breytir þó ekki um íverustað.

Þegar Secondo Pia tók ljósmynd af klæðinu árið 1898, en slíkt hafði aldrei verið gert áður, urðu menn forviða því negatífan sýndi ýmislegt mun betur en hin venjulega prentmynd, meðal annars sár á enni, líkt og eftir þyrnikórónu, sem og göt milli alnar og spíru, eins og för eftir nagla.



Negatífa Secondo Pia af Tórínó-klæðinu frá árinu 1898.

Andstæðingar þeirrar hugmyndar að Tórínó-klæðið megi rekja til Jesú Krists benda helst á frásögn Jóhannesarguðspjalls, 20. kafla. Þar segir að Jóhannes, lærisveinninn sem Jesús elskaði, og Pétur hafi komið að gröfinni, sá fyrr nefndi á undan, og hann „laut inn og sá línblæjurnar liggjandi, en fór samt ekki inn. Nú kom líka Símon Pétur á eftir honum og fór inn í gröfina. Hann sá línblæjurnar liggja þar og sveitadúkinn, sem verið hafði um höfuð hans. Hann lá ekki með línblæjunum, heldur sér samanvafinn á öðrum stað.“ Hér er með öðrum orðum um tvo hluti að ræða, en ekki einn.

Í Oviedo á Spáni er reyndar varðveittur andlitsdúkur, 84 x 53 cm að stærð, ævaforn og blóðugur, ekkert merkilegur þó á að líta í fljótu bragði, en hefur einhverra hluta vegna þótt sérstakur og þess virði að geyma í traustri hirslu, og frjókorn í honum benda til Palestínu. Nýleg rannsókn vísindamanna gefur til kynna að klútur þessi sé í órjúfanlegum tengslum við áðurnefnt Tórínó-líkklæði, hafi verið í snertingu við sama einstakling.

Ef hratt er farið yfir sögu benti kolefnistrefjarannsókn, sem gerð var á Tórínó-klæðinu árið 1979 og síðan aftur 1988, þó til þess að um svik væri að ræða. Vísindamenn frá þremur háskólum komust að þeirri niðurstöðu að það væri frá árabilinu 1260-1390.

Eldsvoði ógnaði líndúknum á ný árið 1997, en þó tókst að bjarga málum fyrir horn. Árið 2002 lét páfastóll gera við plaggið og með því gafst tækifæri að mynda það að innanverðu í fyrsta sinn og taka ný efnissýnishorn. Kom í ljós að klæðið er mun eldra en fyrri rannsóknir höfðu bent til, eða 1300-3000 ára gamalt. Mun sýni úr fyrri rannsóknum hafa verið tekið úr bót, sem ofin var inn í klæðið á miðöldum, eftir brunann sem áður er minnst á.

Annað sem alltaf var talið styðja að þetta væri líkklæði Krists var að í því er að finna ákveðin frjókorn sem ættuð eru frá Austurlöndum nær líkt og í Oviedo-sveitadúknum, en eru ekki til í Evrópu.

Sumir vilja meina að minnst sé á tilurð þessa klæðis löngu fyrir miðja 14. öld, því í helgisögu einni sem Evsebíus frá Sesareu (um 260–um 341) minnist á og trúir, er sagt, að Jesús hafi skilið eftir andlitsmynd sína á líndúk sem hafi síðan komist í eigu Abgars konungs í Edessa (þar sem borgin Urfa í Tyrklandi stendur nú). Hvað sem öllum helgisögum líður þá er vitað að á 6. öld fannst klæði falið í borgarvegg Edessa með mynd sem þá var talin vera andlitsmynd Jesú. Á 10. öld barst þessi dúkur til Konstantínópel en ekki er vitað um afdrif hans eftir árið 1204 þegar krossfarar fóru með ránum um borgina. Hafa sumir haldið því fram að þetta sé Tórínó-líkklæðið en það er umdeilt.

Að lokum má geta þess, að Einar Jónsson myndhöggvari notaði andlitsfall Tórínó-líkklæðisins og naglaför þegar hann bjó til Kristsstyttuna árið 1946, sem hann gaf Hallgrímskirkju í Reykjavík og er þar enn.

Margar síður á veraldarvefnum eru helgaðar umfjöllun um líkklæðið frá Tórínó og má til dæmis finna þær með því að slá inn „Shroud of Turin“ í leitarvélar.

Mynd: Wikipedia, the free encyclopedia. „Shroud of Turin“ Sótt 5. júní 2005.

Höfundur

guðfræðingur og þjóðfræðingur

Útgáfudagur

6.3.2006

Spyrjandi

Ritstjórn

Tilvísun

Sigurður Ægisson. „Hver er saga Tórínó-líkklæðisins?“ Vísindavefurinn, 6. mars 2006, sótt 21. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=5688.

Sigurður Ægisson. (2006, 6. mars). Hver er saga Tórínó-líkklæðisins? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=5688

Sigurður Ægisson. „Hver er saga Tórínó-líkklæðisins?“ Vísindavefurinn. 6. mar. 2006. Vefsíða. 21. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=5688>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Hver er saga Tórínó-líkklæðisins?
Enginn af helgum dómum kirkjunnar hefur verið rannsakaður jafn gaumgæfilega af vísindamönnum og sá sem kallaður hefur verið Tórínó-líkklæðið.

Þessa línstranga, sem er 4,36 m langur og 1,10 m breiður, er fyrst getið í heimildum, að öruggt sé, upp úr miðri 14. öld. Eigandi hans þá var Geoffroi de Charnay aðalsmaður, kenndur við smábæinn Lirey í Norður-Frakklandi. Á þeim tíma var haft fyrir satt að þetta væri líkklæði meistarans frá Betlehem og Nasaret. Áttu menn að hafa vafið því utan um jarðneskar leifar Krists, þegar hann var tekinn niður af krossinum á Hausaskeljastað en á umræddu klæðisplaggi sjást óljósar útlínur blóðugs manns.

Hið meinta líkklæði varð fljótlega miðdepill athygli pílagríma og annarra sem komu víðsvegar að til að berja það augum. Biskupinn í Troyes, Henri de Poitiers, bannaði þó fljótlega sýningu þess. Rúmlega 30 árum síðar var það tekið fram á ný, en í kjölfarið (1389) lýsti eftirmaður de Poitiers, Pierre D'Arcis, því yfir í bréfi til andpáfans í Avignon, að forveri sinn hafi talið þetta vera fölsun, og á sökudólgurinn að hafa játað verknaðinn, enda líka hvergi minnst á slíkan grip í heilagri ritningu. Klemens VII tók samt þann kostinn að leyfa sýningu þess, en bað fólk að muna að það einungis „stæði fyrir eða væri tákn“ hins eina sanna klæðis. Þeir sem á eftir honum komu töldu þetta hins vegar ósvikið.

Árið 1418 flutti Humbert greifi af Villersexel, sem kvæntur var afabarni Geoffroi de Charnay, línstrangann í kastala sinn í Montfort í Frakklandi til að bjarga honum undan ræningjaflokkum. Síðar var klæðið flutt til Saint-Hippolyte-sur-Doubs. Eftir dauða Humberts ferðaðist ekkja hans með það til sýningar, meðal annars í Liege og Genf. En árið 1453 lét hún að endingu strangann fyrir kastala í Varambon í Frakklandi. Nýi eigandinn var Louis frá Savoy og var efnið nú varðveitt í Chambery. Árið 1471 var það flutt á milli hinna ýmsu borga í Evrópu og af samtímalýsingum að dæma er greinilegt að þar var mikill dýrgripur talinn á ferð, enda þá geymt í silkivöfðu helgiskríni.

Árið 1532 skemmdist klæðið af eldi, meðal annars við að bráðið silfur lak á það, og sumir telja af vatni einnig. Nokkru síðar eða árið 1578 er það komið í dómkirkjuna í Tórínó á Ítalíu og á þar dvalarstað og heimkynni upp frá því. Árið 1983 er það gefið páfastóli, en breytir þó ekki um íverustað.

Þegar Secondo Pia tók ljósmynd af klæðinu árið 1898, en slíkt hafði aldrei verið gert áður, urðu menn forviða því negatífan sýndi ýmislegt mun betur en hin venjulega prentmynd, meðal annars sár á enni, líkt og eftir þyrnikórónu, sem og göt milli alnar og spíru, eins og för eftir nagla.



Negatífa Secondo Pia af Tórínó-klæðinu frá árinu 1898.

Andstæðingar þeirrar hugmyndar að Tórínó-klæðið megi rekja til Jesú Krists benda helst á frásögn Jóhannesarguðspjalls, 20. kafla. Þar segir að Jóhannes, lærisveinninn sem Jesús elskaði, og Pétur hafi komið að gröfinni, sá fyrr nefndi á undan, og hann „laut inn og sá línblæjurnar liggjandi, en fór samt ekki inn. Nú kom líka Símon Pétur á eftir honum og fór inn í gröfina. Hann sá línblæjurnar liggja þar og sveitadúkinn, sem verið hafði um höfuð hans. Hann lá ekki með línblæjunum, heldur sér samanvafinn á öðrum stað.“ Hér er með öðrum orðum um tvo hluti að ræða, en ekki einn.

Í Oviedo á Spáni er reyndar varðveittur andlitsdúkur, 84 x 53 cm að stærð, ævaforn og blóðugur, ekkert merkilegur þó á að líta í fljótu bragði, en hefur einhverra hluta vegna þótt sérstakur og þess virði að geyma í traustri hirslu, og frjókorn í honum benda til Palestínu. Nýleg rannsókn vísindamanna gefur til kynna að klútur þessi sé í órjúfanlegum tengslum við áðurnefnt Tórínó-líkklæði, hafi verið í snertingu við sama einstakling.

Ef hratt er farið yfir sögu benti kolefnistrefjarannsókn, sem gerð var á Tórínó-klæðinu árið 1979 og síðan aftur 1988, þó til þess að um svik væri að ræða. Vísindamenn frá þremur háskólum komust að þeirri niðurstöðu að það væri frá árabilinu 1260-1390.

Eldsvoði ógnaði líndúknum á ný árið 1997, en þó tókst að bjarga málum fyrir horn. Árið 2002 lét páfastóll gera við plaggið og með því gafst tækifæri að mynda það að innanverðu í fyrsta sinn og taka ný efnissýnishorn. Kom í ljós að klæðið er mun eldra en fyrri rannsóknir höfðu bent til, eða 1300-3000 ára gamalt. Mun sýni úr fyrri rannsóknum hafa verið tekið úr bót, sem ofin var inn í klæðið á miðöldum, eftir brunann sem áður er minnst á.

Annað sem alltaf var talið styðja að þetta væri líkklæði Krists var að í því er að finna ákveðin frjókorn sem ættuð eru frá Austurlöndum nær líkt og í Oviedo-sveitadúknum, en eru ekki til í Evrópu.

Sumir vilja meina að minnst sé á tilurð þessa klæðis löngu fyrir miðja 14. öld, því í helgisögu einni sem Evsebíus frá Sesareu (um 260–um 341) minnist á og trúir, er sagt, að Jesús hafi skilið eftir andlitsmynd sína á líndúk sem hafi síðan komist í eigu Abgars konungs í Edessa (þar sem borgin Urfa í Tyrklandi stendur nú). Hvað sem öllum helgisögum líður þá er vitað að á 6. öld fannst klæði falið í borgarvegg Edessa með mynd sem þá var talin vera andlitsmynd Jesú. Á 10. öld barst þessi dúkur til Konstantínópel en ekki er vitað um afdrif hans eftir árið 1204 þegar krossfarar fóru með ránum um borgina. Hafa sumir haldið því fram að þetta sé Tórínó-líkklæðið en það er umdeilt.

Að lokum má geta þess, að Einar Jónsson myndhöggvari notaði andlitsfall Tórínó-líkklæðisins og naglaför þegar hann bjó til Kristsstyttuna árið 1946, sem hann gaf Hallgrímskirkju í Reykjavík og er þar enn.

Margar síður á veraldarvefnum eru helgaðar umfjöllun um líkklæðið frá Tórínó og má til dæmis finna þær með því að slá inn „Shroud of Turin“ í leitarvélar.

Mynd: Wikipedia, the free encyclopedia. „Shroud of Turin“ Sótt 5. júní 2005....