Mannaðar veðurfarsstöðvar Veðrið er athugað kl. 9, 15 og 21. Veðurathugun er skráð í mánaðarbók, sem send er til Veðurstofunnar í pósti. Flestar veðurfarsstöðvar hafa einungis úrkomumæli og hitamælaskýli fyrir hitamæla. Á hverjum degi eru mæld og metin: Lofthiti, daggarmark, lágmarkshiti, hámarkshiti, úrkomumagn, úrkomutegund, skýjahula, skyggni, veðurlýsing, snjódýpt, snjóhula í byggð og fjöllum, hagi (fyrir búfénað), sjólag, vindhraði og vindátt. Nokkrar stöðvar mæla lágmarkshita nætur við jörð eða sjávarhita. Mannaðar veðurfarsstöðvar voru 10 talsins í júní 2010. Mannaðar úrkomustöðvar Á stöðinni er úrkomumælir. Mæld er sólarhringsúrkoma á hverjum morgni kl. 9. Þá er úrkomutegund undangenginn sólarhring skráð. Athugunarmaður mælir snjódýpt og leggur mat á snjóhulu í byggð og í fjöllum. Mælingar eru sendar daglega um síma til Veðurstofunnar og mánaðarskýrsla í pósti. Í júní 2010 voru 53 mannaðar úrkomustöðvar á landinu.
Sólskinsmælingastöðvar Stöð sem skráir sólskinsstundir. Bjart sólskin skín á glerkúlu í mælinum og brennir far á sólarblað dagsins. Athugunarmaður skiptir um sólarblað í mælinum á hverju kvöldi. Sólarblöð eru send mánaðarlega til Veðurstofunnar. Aðeins var ein sólskinsmælingarstöð í júní 2010, í Haganesi við Mývatn. Vindmælingastöðvar Veðurstöðvar þar sem einungis er mældur vindhraði. Vindurinn er skráður á síritarúllur. Umsjónarmaður mælis skiptir um rúllur reglulega og sendir þær til Veðurstofunnar. Ekki var tilgreind nein vindmælingarstöð á yfirliti yfir veðurstöðvar á Íslandi frá júní 2010 sem er að finna á vef Veðurstofunnar. Úrkomusafnmælar Flestir úrkomusafnmælar eru í óbyggðum og safna úrkomu yfir lengri tímabil. Úrkomumagnið í þeim er mælt einu sinni í mánuði eða einu sinni á ári. Árlega þarf að tæma mælana og skipta um pækil og uppgufunarvörn í þeim. Samkvæmt vef Veðurstofunnar voru 19 úrkomusafnmælar á landinu í júní 2010. Sjálfvirkar veðurstöðvar Sjálfvirkar veðurstöðvar skrá mælingar yfirleitt á 10 mínútna fresti, en nokkrar skrá á klukkustundar fresti. Í sjálfvirkum stöðvum er skráningartölva og samskiptabúnaður við síma. Tölvur á Veðurstofunni hringja yfirleitt á klukkustundar fresti í sjálfvirkar stöðvar og sækja mæligögn undangengins klukkutíma og færa gögnin í miðlægan gagnagrunn. Flestar stöðvarnar mæla lofthita og rakastig í 2 m hæð yfir jörðu og vindhraða og vindátt í 10 m hæð. Margar hafa úrkomumæli og loftvog. Þá eru sumar með sólgeislunarmæli, hitamæli við jörð, jarðvegshitamæla á 10, 20, 50 og 100 cm dýpi og snjódýptarmæli. Veðurstofa Íslands var með um 112 sjálfvirkar veðurathugunarstöðvar í júní 2010. Auk þess eru 135 sjálfvirkar stöðvar á vegum annarra stofnana svo sem Vegagerðarinnar, Siglingastofnunar, Landsvirkjunar og fleiri aðila. Myndir:
- Grímsstaðir á Fjöllum: Veðurstofa Íslands. Ljósmyndari: Elvar Ástráðsson. Sótt 29. 6. 2010.
- Kvísker: Veðurstofa Íslands. Ljósmyndari: Flosi Hrafn Sigurðsson. Sótt 29. 6. 2010.