Höfuðborg Fídjieyja heitir Suva og er á suðausturströnd eyjunnar Viti Levu. Viti Levu er stærsta eyja Fídjieyjaklasans, 10.388 km2 að stærð eða um 1/10 af flatarmáli Íslands. Um þrír fjórðu hlutar Fídjieyinga búa á eyjunni, þar af tæplega 70.000 í höfuðborginni. Á höfuðborgarsvæðinu öllu eru íbúar á bilinu 150-200.000. Suva er ekki mjög gömul borg. Hún er sögð stofnuð árið 1849 en varð formlega gerð að höfuðstað Fídjieyja árið 1882. Í dag er Suva stærsta borg í Suður-Kyrrahafi að borgum í Ástralíu og Nýja-Sjálandi undanskildum. Hún er miðstöð stjórnsýslu og viðskipta og helsta hafnarborg Fídjieyja. Þar er að finna ýmsar stofnanir sem hafa með málefni Suður-Kyrrahafseyja að gera. Þar er einnig elsti og stærsti garður háskóla Suður-Kyrrahafsins (University of the South Pacific) en alls standa 12 ríki í Suður-Kyrrahafi að skólanum og er hann með starfsemi í þeim öllum. Meðal annarra menntastofnanna í Suva eru læknaskóli (Fiji School of Medicine) og landbúnaðarskóli (Fiji College of Agriculture).
- Fiji Facts and Figures - Fiji Island Bureau of Statistics. Skoðað í janúar 2006.
- Wikipedia, the free encyclopedia: Fiji og Suva. Skoðað í janúar 2006.
- Fiji. (2006). Encyclopædia Britannica. Skoðað á Encyclopædia Britannica Online í janúar 2006.
- Kort: Fiji Government. Sótt í febrúar 2006.
- Mynd: Dept. of Archaeology - Simon Fraser University. Sótt í febrúar 2006.