Væri ólöglegt að setja upp tollhlið við Seltjarnarnes, ef svo er, hvers vegna?Tollsvæði íslenska ríkisins er eins og segir í tollalögum landið ásamt eyjum og útskerjum sem því tilheyra, svo og tólf mílna landhelgi umhverfis það eins og hún er afmörkuð í lögum um landhelgi, efnahagslögsögu og landgrunn Íslands. Til tollsvæðis ríkisins telst enn fremur loftrými yfir fyrrgreindu land- og hafsvæði. Seltjarnarnes er eins og sakir standa hluti af þessu tollsvæði og þyrfti sveitarfélagið því væntanlega fyrst að öðlast sjálfstæði til að það gæti að talist sérstakt tollsvæði og tekið upp eigin innflutnings- eða útflutningstolla. Afar ólíklegt er að nokkur reyni að stofna sérstakt ríki á Seltjarnarnesi, hvort sem tilgangurinn er upptaka inn- eða útflutningstolla, eða einhver allt annar. Lesendur Vísindavefsins hafa áður spurt um sambærileg efni. Í svari Skúla Magnússonar við spurningunni Hvernig stofnar maður þjóðríki, til dæmis ef maður á jörð á Suðurlandi eða eyju á Breiðafirði? segir til að mynda:
[S]tofnun ríkis á eyju á Breiðafirði eða jörð á Suðurlandi er verulegum erfiðleikum bundin. Þessi svæði eru þegar undir yfirráðum íslenska ríkisins og er ekki líklegt að þeim yrði afsalað eða stofnun ríkja á þeim samþykkt með neinum hætti. Engin þjóðaréttarleg rök myndu heldur styðja kröfur um að svæði sem þessi yrðu að fullvalda ríkjum. Jafnvel þótt einhverjum aðilum tækist að ná virkri stjórn á þess konar svæðum án samþykkis íslenska ríkisins er því mjög ólíklegt að þeir myndu njóta viðurkenningar annarra sem ríki í samfélagi þjóðanna.Af framangreindu má því ætla að nær engar líkur séu á því að tollhlið verði sett upp á Seltjarnarnesi. Tollhlið á Seltjarnarnesi hefði enga lagalega merkingu og engum bæri að greiða þar inn- eða útflutningstolla. Myndir:
- Mats: Íslandsmyndasafn © Mats Wibe Lund. (Sótt 14.11.2017).