Flestir fá næga orku úr daglegri fæðu og þær hitaeiningar sem koma með gosdrykkju eru því oftast nær hrein og klár viðbót sem líkaminn geymir sem fitu. Einhver kann að spyrja hvort ekki sé hægt að borða minna til þess að eiga inni “kvóta” fyrir orkunni sem fæst með gosdrykkjum. Það er hins vegar mjög óskynsamlegt og ekki heilsusamlegt, þar sem venjulegur matur inniheldur nauðsynleg næringarefni sem við þurfum á að halda en gosdrykkir gefa okkur ekkert nema orku. Fyrir utan það að geta átt þátt í aukakílóum er gos mjög slæmt fyrir tennur þar sem það veldur tannátu (tannskemmdum). Margir hafa líklega heyrt af tilraun þar sem tönn er sett ofan í kók til þess að sjá hversu fljótt hún eyðist. Sykurlaust gos er að því leyti betra, þar sem það inniheldur ekki sykur sem veldur tannátu en hins vegar hefur það alveg sömu áhrif þegar kemur að glerungseyðingu, sem er vaxandi vandamál. Um þetta má lesa nánar í svari við spurningunni Er betra fyrir tannheilsuna að neyta sykurskertra gosdrykkja í stað sykraða, þá í sambandi við tannátu? Heimildir og mynd:
- Ráðleggingar um mataræði og næringarefni. Lýðheilsustöð, 2006. Skoðað 19. 5. 2010
- Næringarefnatöflur á vef Lýðheilsustöðvar. Skoðað 19. 5. 2010
- Mynd: Coca-Cola á Wikipedia. Sótt 20. 5. 2010
Upprunalega hljóðaði spurningin svona:
Er gos fitandi? Eða er það bara óhollt fyrir tennurnar eins og maður hefur heyrt í gegnum árin?