Ekki er fjallað um önnur dýr í lögunum og má því reikna með að almennt sé heimilt að vera með hamstra og gullfiska í fjöleignarhúsum svo framarlega sem það veldur nágrönnum ekki verulegu ónæði. Sé hunda- eða kattareigandi með sérinngang þarf þó ekki samþykki annarra íbúa, enda sé dýrið ekki á ferð um sameiginleg rými. Þess þarf þó alltaf að gæta að dýrahald valdi ekki öðrum íbúum ónæði eða óþægindum. Vera hunda og katta í sameign eða á sameiginlegri lóð er skilyrðum háð og til að mynda er lausaganga hunda á slíkum svæðum óleyfileg. Um skammtímaheimsóknir hunda er sérstaklega fjallað í samþykkt um hundahald í Reykjavík. Þar segir að um slíkar heimsóknir gildi ákvarðanir eigenda fjöleignarhúss eða húsfélags. Það þýðir að sé hundahald bannað í viðkomandi fjölbýlishúsi þá eru styttri heimsóknir hunda það líka. Þetta verður að teljast mjög eðlileg regla enda væri annars hægt að komast framhjá banni við hundahaldi með því að hafa hund bara í „heimsókn.“ Ofangreindar takmarkanir gilda ekki alfarið þegar um hjálparhunda er að ræða, en slíkur hundur þarf þá að vera sérþjálfaður og skráður sem slíkur. Hvað ketti varðar er vitaskuld ekki algengt að fólk skreppi í heimsóknir með heimiliskettina sína með sér. Hins vegar er eitthvað um að fólk komi köttum sínum fyrir í "pössun" hjá vinum og ættingjum. Þó að ekki sé fjallað um slíkar heimsóknir katta í samþykktum um kattahald verður að telja að hið sama gildi, það er að bannað sé að taka ketti í fóstur í fjöleignarhúsum þar sem kattahald er bannað. Það er meginregla nábýlisréttar að maður verður að þola ákveðið ónæði frá nágrönnum sínum. Þannig þýðir ekki að kvarta undan barnsgráti eða vegna þess að nágranni manns fer út með ruslið. Astmasjúklingur með ofnæmi fyrir köttum á hins vegar ekki að þurfa að þola það að köttur komi í „heimsókn“ til nágrannans í næstu íbúð, af þeirri einu ástæðu að ekki er fjallað um slíkar heimsóknir í samþykkt um kattahald. Þessi niðurstaða er þó ekki afdráttarlaust og gæti verið á annan veg væri öðrum túlkunaraðferðum lögfræðinnar beitt. Undirritaðri finnst það þó felast í eðli málsins að heimsóknir gæludýra séu bannaðar þar sem gæludýrahald er bannað, enda geta alls kyns gildar ástæður legið að baki banninu. Auðvitað væri þó best ef tekið væri á þessu álitamáli á skýran hátt í samþykktum um dýrahald. Nánari upplýsingar:
- Lög um fjöleignarhús nr. 26/1994
- Upplýsingar um kattahald í Reykjavík.
- Upplýsingar um hundahald og hundaeftirlit í Reykjavík
- Hundasamfélagið: Upplýsingar um hundahald eftir sveitarfélögum.
- Húseigendafélagið: Fólk og dýr í fjölbýli.
Þetta svar var uppfært 7.5. 2018 af ritstjórn Vísindavefsins, eftir ábendingu frá Söru Ósk Halldórsdóttur.