Fimmti og sjötti peningurinn eru silfurpeningar, svokallaðir Dupondiusar, frá miðri og seinni hluta 3. aldar e.Kr. Þeir fundust báðir í mannvistarleifum frá 17.-18. öld, annar í Skansinum í Vestmannaeyjum 1991 en hinn á Arnarhóli í Reykjavík 1993. Ekki var hægt að útiloka að hrekkjalómar hefðu komið þeim síðarnefnda fyrir í uppgreftinum en í báðum tilvikum er líklegt að peningarnir séu fluttir inn á seinni öldum. Allt frá því á endurreisnartímabilinu hefur verið mikil verslun með rómverska forngripi, og af þeim er langmest um peninga. Hafa þeir því dreifst víða og er ekki óalgengt að finna þá í seinni alda rústum, einkum í þéttbýli. Ef sérkennilegt leirkersbrot sem fannst í yngri lögum í Viðey er rómverskt eða grískt eins og stungið hefur verið upp á (en það er alls ekki víst) þá myndi þessi skýring líka eiga við það. Slík skýring gengur hinsvegar ekki með bronspeningana fjóra. Tveir þeirra eru úr líklegu, og einn úr ótvíræðu víkingaaldarsamhengi, og því ljóst að fólk hefur haft þá með höndum hér á víkingaöld. Hvort þeir bárust hingað á þeim tíma, með fólki sem hafði eignast þá einhversstaðar annarsstaðar, eða hvort þeir hafa fundist hér er hinsvegar óvíst og hafa fræðimenn talsvert brotið um það heilann. Það sem helst mælir gegn því að víkingaaldarfólk hafi komið með þessa peninga hingað er að peningar af þessari gerð eru nánast óþekktir í víkingaaldarleifum annarsstaðar. Fátítt er raunar að finna rómverska peninga í víkingaaldarleifum og eru það þá fremur silfurpeningar, sem höfðu að minnsta kosti verðgildi sem hlutir úr silfri. Peningarnir sem hér hafa fundist eru hinsvegar úr bronsi og höfðu því lítið sem ekkert verðgildi eftir að þeir hættu að vera virkur gjaldmiðill í Rómaveldi. Þar fyrir utan eru þessir peningar af sláttum sem finnast sjaldan í norðvesturhluta Evrópu. Þeir voru slegnir í Róm og við austurhluta Miðjarðarhafs en myntir af öðrum sláttum voru notaðar til að borga hermönnum kaup á Bretlandi eða í Germaníu í kringum 300 e.Kr. Það er því sannarlega leyndardómsfullt hvernig eða hvenær þessir peningar hafa borist til Íslands. Hvort það voru rómverskir sjóliðar í hafvillum sem týndu þeim í Hamarsfirði um 300 e.Kr. eða fullir víkingar sem létu pranga inn á sig verðlausri skiptimynt á öldurhúsi í Suðurlöndum sex öldum síðar munum við líklega aldrei fá skorið úr um. Frekari fróðleikur á Vísindavefnum:
- Hversu gamall er elsti peningur á Íslandi? eftir Orra Vésteinsson.
- Kristján Eldjárn, Kuml og haugfé úr heiðnum sið á Íslandi, 2. útgáfa, Adolf Friðriksson ritstjóri, Reykjavík: Mál og menning 2000, bls. 25-37.
- Guðrún Sveinbjarnardóttir, Leirker á Íslandi. Pottery found in excavations in Iceland, (Rit Hins íslenska fornleifafélags og Þjóðminjasafns Íslands 3), Reykjavík 1996, bls. 64.
- Myndin birtist í bókinni Kuml og haugfé í heiðnum sið á Íslandi, 2. útgáfa, Reykjavík 2000. Ljósmyndari: Ívar Brynjólfsson, Þjóðminjasafni Íslands.