Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Axlarklemma er alvarlegt bráðatilvik í fæðingu þar sem öxl barnsins klemmist upp að lífbeini móðurinnar þegar höfuðið er fætt, barnið situr fast og kemst ekki í heiminn án aðstoðar.
Skiptar skoðanir eru á því hvort hægt sé að fyrirbyggja axlarklemmu eða sjá hana fyrir en vitað er að ýmsir þættir auka hættuna á slíkum tilvikum. Þeir eru meðal annars:
Þungburi (barnið er 4000 gr eða meira)
Móðir þyngist mikið á meðgöngu eða er yfir kjörþyngd
Sykursýki móður
Lágvaxin og/eða smágerð móðir
Legbotn (fundal) mælist hár
Síðburafæðing
Langdregið annað stig fæðingar
Axlarklemma í fyrri fæðingu
Flatt / afbrigðilegt lífbein eða þröng grind
Mikilvægt er að hafa í huga að þótt einhverjir áhættuþættir séu til staðar þá er það alls ekki ávísun á axlarklemmufæðingu. Hins vegar auka þessir þættir hættuna á tilvikinu umtalsvert. Konur hafa einnig lent í axlarklemmufæðingu þótt engir áhættuþættir hafi verið til staðar. Þó axlarklemma eigi sér fyrst og fremst stað í venjulegri fæðingu þá hafa orðið axlarklemmuskaðar við keisaraskurði en það er frekar sjaldgæft.
Þegar öxl barns klemmist í fæðingu og það situr fast þarf að hafa hraðar hendur til að koma í veg fyrir súrefnisskort hjá barninu. Ein af viðurkenndum aðferðum til að kljást við axlarklemmu, og sú sem er mest notuð hér á landi, er svokölluð McRoberts-aðferð. Hún felst meðal annars í því að gera stóran spangarskurð og reyna svo að opna grind móður eins mikið og hægt er með því að láta hana draga fætur upp að höku. Þetta tryggir þó ekki að barnið skaðist ekki.
Þegar togað er í höfuð barnsins til þess að hjálpa því í heiminn teygist á taugum sem liggja niður í handlegginn eða þær jafnvel slitna.
Afleiðingar axlarklemmu geta meðal annars verið viðbeinsbrot, köfnunardá (súrefnisskortur) og tímabundinn eða varanlegur taugaskaði hjá barninu. Í verstu tilfellum fara þessir þættir saman. Taugaskaðinn verður vegna þess að þegar togað er í höfuð barnsins til að koma því í heiminn þá togna eða trosna taugar sem liggja niður í handlegg barnsins eða þær jafnvel slitna með tilheyrandi lömun.
Hjá flestum börnum sem lenda í axlarklemmu gengur taugaskaðinn til baka á fyrstu ævimánuðunum og barnið öðlast aftur mátt í hinn lamaða handlegg að mestu eða öllu leyti. Hjá um 10-20% axlarklemmubarna er hins vegar um varanlegan skaða að ræða en hann er mismikill og lýsir sér á mismunandi hátt. Alvarlegasta afleiðing axlarklemmu er algerlega máttvana/lamaður handleggur.
Ef í ljós kemur að barn hefur hlotið taugaskaða vegna axlarklemmu er nauðsynlegt að hefja markvissa sjúkraþjálfun sem fyrst. Sjúkraþjálfunin læknar ekki kvillann en kemur í veg fyrir að vöðvar stífni og höndin "festist" og kreppist í slæmri og óeðlilegri stöðu. Aðeins tíminn getur leitt í ljós hve mikill skaðinn er og hversu mikinn mátt barnið fær aftur í handlegginn.
Stundum eru gerðar sérhæfðar taugaskurðaðgerðir til að reyna að lagfæra skaða af þessu tagi. Aðgerðin felst í því að tekin er taug úr fæti barnsins og er hún grædd við hið skaddaða svæði við háls barnsins. Sænskur taugaskurðlæknir að nafni Thomas Carlstedt hefur af og til komið hingað til lands og gert slíkar aðgerðir. En þrátt fyrir meðferð/sjúkraþjálfun og aðgerðir er ekki víst að fullur bati náist.
Opinberri skráningu á axlarklemmutilfellum er mjög ábótavant þó hún hafi vissulega batnað til muna undanfarin ár. Því er ekki vitað með vissu hve margir einstaklingar á Íslandi eru með varanlega taugaáverka vegna axlarklemmu.
Mynd:Shoulder Dystocia and Erb's Palsy
Svar þetta er stytt útgáfa af umfjöllun um axlarklemmu á heimasíðu Foreldrafélags axlarklemmubarna og birt hér með góðfúslegu leyfi þess.
Foreldrafélag axlarklemmubarna. „Hvað er axlarklemma?“ Vísindavefurinn, 3. febrúar 2006, sótt 30. október 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=5615.
Foreldrafélag axlarklemmubarna. (2006, 3. febrúar). Hvað er axlarklemma? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=5615