Þó þetta hafi eflaust verið mikið hamfarahlaup er óvíst hvort það hafi í raun og veru sópað burt öllum þeim bæjum sem lögðust í eyði á þessum tíma. Ljóst er að gjóskufall í sveitinni var gríðarlegt og er gjóskan þar 20-40 cm þykk. Það eitt hefur nægt til að óbyggilegt varð í sveitinni um hríð og hún hlaut það nafn sem hún gengur undir síðan, Öræfi. Nokkur býli byggðust þó aftur og var á seinni öldum búið á átta bæjum í Öræfasveit. Einhverjir bæir fóru líka í eyði af öðrum orsökum – til dæmis var búið á kirkjustaðnum Breiðá fram um 1700 en bæjarstæðið hvarf síðar undir jökul. Engu að síður lítur út fyrir að meir en 2/3 allra bæja í Héraði hafi lagst endanlega í eyði vegna gossins 1362. Tveir af þessum bæjum hafa verið grafnir upp, Gröf skammt norðan við Hof og Bær við Salthöfða. Uppgröftur sýnir að bæirnir hafa lagst í eyði við gosið og voru tóftir þeirra fullar af vikri. Hvort að það hafi gerst í gusthlaupi eins og í Pompeii þannig að allt líf hafi eyðst í einni andrá (sjá Morgunblaðið 15. júní, 2005, Líklegt að gusthlaup hafi eytt Litla-Héraði) eða hvort íbúarnir hafi haft ráðrúm til að taka saman föggur sínar og koma sér í burtu skal ekki dæmt um hér. Það skiptir heldur ekki höfuðmáli frá sjónarmiði fornleifafræðinnar: víst er að fjölmargir bæir lögðust endanlega í eyði í þessu gosi og að fornleifauppgröftur á svæðinu hefur stórbætt skilning okkar á íslensku miðaldasamfélagi. Fleiri bæjarstæði geta átt eftir að koma í ljós og er óhætt að fullyrða að ef einhver staður á Íslandi líkist Pompeii þá er það Öræfasveit. Heimildir og mynd:
- Sigurður Þórarinsson, ‘Hérað milli sanda og eyðing þess.’ Andvari 82 (1957), bls. 35-47.
- Sigurður Þórarinsson, The Öræfajökull Eruption of 1362, (Acta Naturalia Islandica II, 2), Reykjavík: Náttúrugripsasafn Íslands 1958.
- Gísli Gestsson, 'Gröf í Öræfum.' Árbók hins íslenzka fornleifafélags 1959, bls. 5 87.
- Bjarni F. Einarsson, ‘Inn í eilífiðina á augnabliki – Bær í Öræfum.’ Glettingur 15,2-3, (2005) bls. 25-34.
- Mynd: Fornleifafræðistofan.
Er mögulegt að finna leifar Litla-Héraðs eins og leifar Pompei?