Rétt eiga menn á að stofna félög í sérhverjum löglegum tilgangi, þar með talin stjórnmálafélög og stéttarfélög, án þess að sækja um leyfi til þess. Félag má ekki leysa upp með ráðstöfun stjórnvalds. Banna má þó um sinn starfsemi félags sem er talið hafa ólöglegan tilgang, en höfða verður þá án ástæðulausrar tafar mál gegn því til að fá því slitið með dómi. Engan má skylda til aðildar að félagi. Með lögum má þó kveða á um slíka skyldu ef það er nauðsynlegt til að félag geti sinnt lögmæltu hlutverki vegna almannahagsmuna eða réttinda annarra. Rétt eiga menn á að safnast saman vopnlausir. Lögreglunni er heimilt að vera við almennar samkomur. Banna má mannfundi undir berum himni ef uggvænt þykir að af þeim leiði óspektir.Þessu ákvæði er ætlað að auðvelda mönnum að stofna félög í löglegum tilgangi. Sé hins vegar ætlunin að félag stundi atvinnustarfsemi gilda um það aðrar og flóknari reglur. Leiðbeiningar um stofnun hlutafélaga og sameignarfélaga er til dæmis að finna á vef iðnaðarráðuneytisins. Um þau gilda sérstök lög og á þeim hvíla margvíslegar skyldur, meðal annars hvað varðar bókhald og skattskil. Oft hvílir lagaskylda á mönnum um að vera aðilar í félögum, til að mynda í húsfélögum en um þau er fjallað í lögum nr. 26/1994 um fjöleignarhús. Það væri of langt mál að telja upp öll þau félög sem skylt er að stofna samkvæmt lögum. Slík lagafyrirmæli eru mjög algeng og þarf þá að skoða í hverju tilviki hvaða reglur gilda um stofnun og starfshætti félags. Þá er mönnum frjálst að stofna með sér félag um hugðarefni sín og áhugamál en um þannig félög gilda engin sérstök lög, ef undanskilin eru þau lög sem félögin setja sér sjálf. Ekki hvílir sérstök skráningarskylda á þeim og félögin eru hvorki skattskyld né bókhaldsskyld. Þau eru jafnan rekin með framlögum frá félagsmönnum sjálfum en stunda hvorki atvinnustarfsemi né eru rekin í hagnaðarskyni.
