Óvíst er hve gamalt nafnið Faxaflói er. Það er í lýsingu Gullbringu- og Kjósarsýslu 1852 eftir Þórð Jónasson (bls. 21). Talið er hugsanlegt að nafnið sé dregið af örnefninu Fax í Stafholtsey í Andakíl í Borgarfjarðarsýslu (Eyjarfax er nyrsti hluti eyjunnar og Nesfax er þar norðan ár.). Þar eru stórir móar og grasgefnir. Mjög grasgefið svæði getur heitið Föxur (‘litlar tjarnir vaxnar stör’). Orðið fax getur líka merkt ‘straumröst í miðri á’ eða ‘óslegin grasmön’ (Ásgeir Blöndal Magnússon, Íslensk orðsifjabók, 167; sbr. Íslensk orðabók). Í Stafholtsey var til forna þingstaður Þverárþings og er hugsanlegt að ósinn þar hafi verið kenndur við áðurnefnd Föx en síðan hefur hann farið að ná til alls fjarðarins eða flóans vegna þess hve þekktur staðurinn var. Nafnið Fax bendir helst til mikils gróðurs. Í Danmörku eru Fakse-örnefni talin dregin af orðinu fax í eldri dönsku í merkingunni „‘manke, mankehår’, vel sigtende til bevoksning“ (Stednavneordbog, 74). Heimildir og mynd:
- Ásgeir Blöndal Magnússon. Íslensk orðsifjabók. Rvk. 1989.
- Bent Jørgensen. Stednavneordbog. 2. udg. Kbh. 1994.
- Gullbringu- og Kjósarsýsla. Sýslu- og sóknalýsingar Hins íslenska bókmenntafélags 1839-1855. Guðlaugur R. Guðmundsson og Svavar Sigmundsson sáu um útgáfuna. Ný útgáfa. Rvk. 2007.
- Íslendingabók. Landnámabók. Íslenzk fornrit I. Rvk. 1968.
- Íslensk orðabók. 3. útg. Rvk. 2002.
- Íslenzkt fornbréfasafn I-XVI. Kmh. og Rvk. 1857-1972.
- Mynd: Visible Earth. NASA. Sótt 29. 11. 2010.