Það eiturefni, sem kemur helst við sögu hér á landi, bæði við bráða og langvinna eitrun, er flúor og er þar yfirleitt átt við flúoríð, samband þess og vetnis (HF) eða önnur auðleyst sambönd. Margfaldur munur á flúor hefur mælst í fínni og grófri ösku frá Heklu. Ef askan er ekki þeim mun meiri (2-3 mm), ganga skepnur að beit á landi sem fín aska hefur fallið á, en síður ef askan er gróf og þær kroppa hiklaust strá, sem koma upp úr ösku, hvort sem hún er fín eða gróf. Í báðum tilfellum er um að ræða eitrunarhættu. Gróðurinn tekur þó heldur lítið inn í sig af flúor úr ösku og aðeins í skamman tíma. Mengunin fylgir aðallega fína öskurykinu, sem loðir við gróðurinn. Flúormenguð aska getur fallið beint í kyrrstætt vatn (polla, vötn) eða vatnsföll. Úrkoma getur fljótt þvegið flúorinn úr ösku, sem liggur á jörðinni og á plöntunum og skolað honum út í polla og vatnsföll, en þá er líka fyrst á eftir hætta á mengun drykkjarvatns, einkum í grunnum pollum eða vötnum. Því er rétt að bæta við hér, að flúor er þekkt að því að menga útblástur frá álverum, einkum gömlum álverum. Í nágrenni álvera er því eitrunarhætta, en úr henni má draga verulega með góðum hreinsibúnaði. Mynd:
- Veðurstofa Íslands. Ljósmyndari: Oddur Sigurðsson. Sótt 16. 4. 2010.