Hrísgrjónagrautur er hefðbundinn jólamatur í Skandinavíu og er þar yfirleitt um að ræða einfaldan mjólkurgraut, þar sem grjónin eru hægsoðin í mjólk, stundum með smjörklípu, gjarna í a.m.k. klukkustund. Grauturinn er síðan saltaður og borinn fram með kanelsykri og oftast er líka gerð laut í hann og smjörklípa sett í hana. Venja er að setja eina heila möndlu í grautinn. Algengast er að sá sem finnur hana fái smágjöf, möndlugjöfina, en sumstaðar ríkti t.d. sú trú að sá sem fengi möndluna yrði genginn í hjónaband fyrir næstu jól. Grauturinn er ýmist borinn fram með kaldri mjólk, berjasaft eða saftsósu. Í Danmörku var hann yfirleitt borinn fram á undan jólasteikinni en annars staðar sem eftirréttur.Um grjónagraut á Íslandi hefur Nanna svo þetta að segja:
Grautur úr einhvers konar grjónum eða korni, ekki endilega hrísgrjónum, var einhver mesti hátíðarréttur Íslendinga á nítjándu öld og borinn fram t.d. á jólum, á sumardaginn fyrsta eða þegar haldin voru töðugjöld. Skírdagsgrautur og páskagrautur voru einnig þekktir, a.m.k. sunnanlands. Var þá soðinn hnausþykkur hrísgrjóna- eða bankabyggsgrautur úr mjólk, en ekki mjólkurblandi eða undanrennu, eins og annars var venja. Stundum var jafnvel blandað rjóma í mjólkina. Grauturinn var látinn sjóða lengur en vant var og er sagt að hann hafi stundum verið rauðseyddur. Í hann voru oft settar rúsínur og hann var síðan borinn fram með smjöri og kanelsykri eða stundum sírópsblandaðri mjólk. Leifar af þessum grautarveislum má enn sjá í jólagrautnum, sem borðaður er á stöku heimili, þótt hrísgrjónaábætirinn ris à l´amande hafi víðast hvar tekið við hlutverki hans. Annars er grjónagrautur hversdagsmatur en raunar mun sjaldséðari en var fyrir fáeinum áratugum, þegar einhver grautur eða súpa var hluti af flestum máltíðum hérlendis.Heimildir og mynd:
- Nanna Rögnvaldsdóttir. 1998. Matarást: Alfræðibók um mat og matargerð. Reykjavík: Iðunn.
- Food Timeline. Skoðað 17. 12. 2010.
- Mynd: Risengrød – Nem og lækker opskrift - madsvin.com. (Sótt 4.10.2021).