Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Stutt og einfalt svar við þessari spurningu er nei.
Um ráðningu ríkisstarfsmanna gilda lög nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Þau taka til allra þeirra sem ráðnir eru, settir eða skipaðir í störf í þágu ríkisins. Lögin gilda þó ekki um þjóðkjörna fulltrúa, starfsmenn félaga sem eru einkaréttarlegs eðlis, til dæmis hlutafélög í ríkiseign, eða starfsmenn sjálfseignarstofnana. Þá gilda lögin ekki ef ætlunin er að starf standi skemur en einn mánuð eða ef starf er ekki aðalstarf viðkomandi.
Í 6. gr. laganna koma fram almenn skilyrði sem menn verða að uppfylla til að fá starf hjá ríkinu, til dæmis um aldur, lögræði og búsetu. Í athugasemdum með þessari grein kemur fram að "veitingarvaldshafi hafi heimild til að veita hverjum þeim manni sem uppfyllir skilyrði 6. gr. starf að gættum grundvallarreglum stjórnsýsluréttarins." Þetta þýðir að séu skilyrði 6. gr. uppfyllt má sá sem ræður í starf ákveða hvern hann ræður. Hann eða hún verður þó að gæta málefnalegra sjónarmiða við valið. Það má til dæmis ekki ráða starfsmann bara af því hann er mjór, mjög feitur, skemmtilegur eða sérstaklega fyndinn og gamansamur. Hins vegar er í lagi að forstöðumaður velji hvort hann ráði mann með lögfræðimenntun eða viðskiptafræðimenntun í starfið. Stundum eru þó frekari skilyrði sett í einstökum lögum. Það er til dæmis í lögum að dómarar skuli hafa lögfræðimenntun og er þá ekki heimilt að skipa sálfræðing sem dómara.
Forstöðumaður ríkisstofnunnar gæti ekki ráðið einn af þessum þremur mönnum, bara af því hann væri fyndnari en hinir. Þjóðleikhússtjóri gæti þó metið kímnigáfu þeirra ef hann væri að ráða nýjan gamanleikara til starfa.
Við ráðningu í starf hjá ríkinu þarf eins og áður sagði að gæta að grundvallarreglum stjórnsýsluréttarins. Stjórnsýslulögin, lög nr. 37/1993, eiga við þegar stjórnvöld taka ákvarðanir um rétt og skyldu manna. Í athugasemdum með 1. gr. þessara laga segir: "Í lögfræðinni hafa ákvarðanir um skipun, setningu og ráðningu opinberra starfsmanna, svo og lausn þeirra frá störfum og brottvikningu þeirra, verið flokkaðar sem stjórnvaldsákvarðanir." Stjórnsýslulögin, sem eiga að tryggja borgaranum lágmarksrétt, eiga semsagt við þegar ráðið er í starf hjá ríkinu.
Í 3. gr. stjórnsýslulaganna eru svo nefndar þær ástæður sem geta leitt til vanhæfis starfsmanns. Eigi þessar aðstæður við, þýðir það að maður má ekki taka stjórnvaldsákvörðun, eins og til að mynda að ráða í starf, heldur þarf að fá staðgengill til þess. Starfsmaður er vanhæfur ef aðili máls, það er umsækjandi, er maki hans eða fyrrverandi maki, skyldur honum eða mægður í beinan legg eða annan legg til hliðar. Þetta þýðir meðal annars að ekki má ráða barnabarn sitt, ömmu, tengdapabba eða systurson í starf hjá ríkinu. Þó er í lagi að ráða fjarskyldari ættingja, eins og til dæmis þremenning ef ekki koma til aðrar vanhæfisástæður. Í 3. gr. er líka lagt bann við því að starfsmaður taki þátt í ákvörðun ef réttmætt er að draga óhlutdrægni hans í efa. Í þessu felst með annars að maður er vanhæfur til að taka ákvörðun um ráðningu ef umsækjandi er besti vinur hans eða svarinn óvinur.
Á síðari árum hafa ýmsar reglur verið settar sem eiga að auka réttaröryggi og gagnsæi innan stjórnsýslunnar. Það er markmið að opna stjórnsýsluna og gera hana aðgengilegri fyrir borgarann. Almenningur á þannig rétt á að fá upplýsingar um umsækjendur starfa hjá ríki eða sveitarfélögum eftir að umsóknarfrestur er liðinn. Þá er það líka meginregla að skylt er að auglýsa laus störf hjá hinu opinbera. Þetta á að veita stjórnvöldum ákveðið aðhald við ráðningu í störf og val á umsækjendum.
Þrátt fyrir framangreindar reglur er alls ekki útilokað að bræður, mæðgur eða frændur vinni störf hjá ríkinu, hér er einungis um að ræða takmarkanir á því hver má ráða í starfið.
Heimildir og mynd:
Lög nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins og athugasemdir með frumvarpi til þeirra laga.
Lög nr. 37/1993, stjórnsýslulög og athugasemdir með frumvarpi til þeirra laga.
Lög nr. 50/1996, upplýsingalög og athugasemdir með frumvarpi til þeirra laga.
Ásmundur Helgason: "Eru sérstakar reglur um réttarstöðu ríkisstarfsmanna til gagns eða óþurftar?", Rannsóknir í Félagsvísindum VI, Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands, 2005.
Þórhallur Vilhjálmsson: "Aðgangur almennings að upplýsingum í starfsmannamálum", Rannsóknir í Félagsvísindum VI, Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands, 2005.
Hildigunnur Hafsteinsdóttir. „Er opinberum starfsmönnum heimilt að ráða sína eigin fjölskyldumeðlimi í vinnu?“ Vísindavefurinn, 25. janúar 2006, sótt 30. október 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=5589.
Hildigunnur Hafsteinsdóttir. (2006, 25. janúar). Er opinberum starfsmönnum heimilt að ráða sína eigin fjölskyldumeðlimi í vinnu? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=5589
Hildigunnur Hafsteinsdóttir. „Er opinberum starfsmönnum heimilt að ráða sína eigin fjölskyldumeðlimi í vinnu?“ Vísindavefurinn. 25. jan. 2006. Vefsíða. 30. okt. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=5589>.