Þegar brýna nauðsyn ber til, getur forsetinn gefið út bráðabirgðalög [er Alþingi er ekki að störfum]. Ekki mega þau þó ríða í bág við stjórnarskrána. Ætíð skulu þau lögð [fyrir Alþingi þegar er það er saman komið á ný]. [Samþykki Alþingi ekki bráðabirgðalög, eða ljúki ekki afgreiðslu þeirra innan sex vikna frá því að þingið kom saman, falla þau úr gildi.] Bráðabirgðafjárlög má ekki gefa út, ef Alþingi hefur samþykkt fjárlög fyrir fjárhagstímabilið.Þegar Alþingi setur lög er við setningu þeirra farið eftir ákvæðum laga um þingsköp Alþingis. Setning almennra laga fer þannig fram að þingmaður eða ráðherra leggur frumvarp fyrir þingið, það þarf svo að ræða við þrjár umræður og jafnvel senda til nefnda til umsagnar. Venjulega eru lög ótímabundin, það er almenn lög gilda uns þau eru felld úr gildi með öðrum lögum. Bráðabirgðalögum er hins vegar markaður ákveðinn líftími og falla þau sjálfkrafa úr gildi ef Alþingi er ekki búið að samþykkja þau innan sex vikna frá því að þing kemur saman á ný. Bráðabirgðalög eru í sjálfu sér "fullgild lög", en það sem helst skilur greinir þau frá almennum lögum er að ferlið við setningu þeirra er mun einfaldara og fljótvirkara. Ráðherra semur einfaldlega frumvarp til bráðabirgðalaga og fer fram á það við forseta að hann staðfesti lögin (enn sem komið er hefur það bara einu sinni komið fyrir að forseti synji því að staðfesta lög). Við staðfestingu forseta öðlast lögin gildi og ber þá almenningi að hlíta þeim líkt og almennum lögum. Samkvæmt stjórnarskránni eru tvö skilyrði fyrir því að bráðabirgðalög verði sett; að brýna nauðsyn beri til og að Alþingi sé ekki að störfum. Skilyrðið um brýna nauðsyn er ekki mjög skýrt og fer það eftir mati ráðherra hverju sinni hvort brýna nauðsyn beri til. Þetta hugtak er í raun mjög matskennt og huglægt og veit ég ekki til þess að forseti hafi dregið í efa mat ráðherra um þetta. Bráðabirgðalög hafa helst verið notuð til að stöðva verkföll eða koma á aðgerðum í efnahagsmálum, en í sjálfu sér eru litlar skorður á því um hvað bráðabirgðalög geta fjallað. Það er ekki markmiðið með heimildinni til setningar bráðabirgðalaga að ráðherrar geti komið sér undan þingskaparlögunum og sett lög að vild. Þess vegna er það skilyrði að Alþingi sé ekki að störfum. Þannig á þetta úrræði eingöngu að vera notað í neyð, til að mynda ef verkfall eða önnur atvik ógna efnahagslegum og þjóðfélagslegum hagsmunum og skjótra aðgerða er þörf. Hér má nefna sem dæmi að bráðabirgðalög voru sett vegna vinnustöðvunar flugvirkja og flugvélstjóra í júlí 1986, meðal annars með þeim rökum að stöðvun farþegaflugs í annasamasta mánuði ársins mundi valda flugfélaginu og íslenskri ferðaþjónustu í heild gríðarlegu tjóni og álitshnekki. Í þessu tilfelli þótti ljóst að ófært hefði verið að bíða til hausts, er Alþingi kæmi saman aftur. Það er svo umdeilt hvort setning bráðabirgðalaga er nauðsynlegt úrræði nú á dögum, þegar allar samgöngur hafa batnað verulega, og auðvelt ætti að vera að kalla Alþingi saman í þinghléum. Bráðabirgðalög eru þó ekki algeng og hefur dregið mjög úr beitingu þeirra á síðustu árum.
Hvenær má setja bráðabirgðalög og hvernig er það gert?
Útgáfudagur
23.1.2006
Spyrjandi
Sigurður Andri Hjörleifsson
Tilvísun
Hildigunnur Hafsteinsdóttir. „Hvenær má setja bráðabirgðalög og hvernig er það gert?“ Vísindavefurinn, 23. janúar 2006, sótt 30. október 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=5583.
Hildigunnur Hafsteinsdóttir. (2006, 23. janúar). Hvenær má setja bráðabirgðalög og hvernig er það gert? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=5583
Hildigunnur Hafsteinsdóttir. „Hvenær má setja bráðabirgðalög og hvernig er það gert?“ Vísindavefurinn. 23. jan. 2006. Vefsíða. 30. okt. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=5583>.