- Önnur tölvan sendir stafrænar upplýsingarnar á formi rafpúlsa (Af hverju byggjast tölvur upp á 1 og 0?) í beini (e. router), sem þýðir merkið yfir í útvarpsbylgjur og notar loftnet til þess að senda þær í hina tölvuna.
- Hin tölvan notar eigið loftnet til að nema útvarpsbylgjurnar og þýðir þær síðan aftur á stafrænt form sem hún getur unnið með.

Rafsegulgeislun er allt í kring um okkur og reyndar inni í okkur líka. Stærsti hluti hennar kemur frá sólinni. Rafsegulgeislun getur haft ýmis áhrif á mannslíkamann ef við erum næm fyrir tíðninni og geislarnir eru nógu orkumiklir. Mannsaugað er til að mynda mjög næmt fyrir rafsegulgeislun af tíðninni 400 – 790 THz (sem við köllum sýnilegt ljós), en finnur hvorki fyrir rafsegulgeislun sem hefur lengri né styttri öldulengd. Það getur verið óhollt að beina sýnilegu ljósi, eins og til dæmis. orkumiklum leysigeisla, í augu fólks, þótt sami geisli ylli engum skaða ef honum væri beint á önnur líffæri. En hvaða áhrif gætu útvarpsbylgjur frá sendi þráðlauss Internets haft á mannslíkamann? Til að byrja með er vert að taka fram að þessi tegund rafsegulgeislunar hefur alls ekki sömu áhrif og svokölluð jónandi geislun sem er geislun frá geislavirkum efnum. Það útilokar þó ekki að hún geti haft annars konar áhrif. Hæsta tíðni rafsegulbylgna sem notuð er í þráðlausu Interneti (5 GHz) er á mörkum útvarps- og örbylgna, þannig að vel má gera sér í hugarlund að áhrif þeirra á líkamann væri svipuð og áhrif örbylgna í örbylgjuofnum. Það er vel þekkt að þegar rafsegulbylgjur hitta á eigintíðni efniseinda geta þær valdið því að eindirnar titra til og frá, og efnið hitnar. Svipuð hegðun er meðal annars nýtt í örbylgjuofnum. Það má því hugsa sér að þráðlaust Internet geti látið efni í líkamanum titra og hitað þannig hluta líkamans, á sama hátt og matarafgangar eru hitaðir upp í örbylgjuofni. Það er meira að segja almennt viðurkennt að geislun frá farsímum getur hitað höfuð þeirra sem í þá tala um brot af gráðu en það er um það bil einni stærðargráðu lægra en höfuðið hitnar þegar við erum í sterku sólskini án höfuðfata. Vísindamönnum ber að langmestu leyti saman um að þessi áhrif valda ekki líffræðilegum skaða. Þetta á hins vegar ekki beint við um geislun frá þráðlausu Interneti. Í fyrsta lagi eru bylgjurnar sem sendar þráðlauss Internets gefa frá sér töluvert orkuminni en þær sem farsímar nota. Í öðru lagi er farsímum haldið þétt við höfuðið þegar þeir eru notaðir, en sendar þráðlauss Internets eru yfirleitt í nokkurra metra fjarlægð frá þeim sem notar hann.
