Sólin Sólin Rís 10:52 • sest 15:43 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 00:00 • Sest 00:00 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 07:25 • Síðdegis: 19:43 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 01:09 • Síðdegis: 13:45 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 10:52 • sest 15:43 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 00:00 • Sest 00:00 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 07:25 • Síðdegis: 19:43 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 01:09 • Síðdegis: 13:45 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Hvernig hefur íslensk flóra breyst í grófum dráttum frá landnámi?

Hörður Kristinsson (1937-2023)

Í stuttu máli þá breyttust magnhlutföll tegunda í flóru landsins mikið fyrst eftir landnám. Tegundum fjölgaði verulega og eru um 70-80 tegundir orðnar ílendar í dag, sem ekki voru í landinu fyrir landnám. Um 250 tegundir til viðbótar hafa borist til landsins utan ræktunar, en ekki náð að ílendast varanlega. Ekki eru heimildir um nema eina tegund sem horfið hefur úr flórunni eftir landnám, en ekki er útilokað að þær gætu verið fleiri þótt ekki sé hægt að staðfesta það í dag.

Eins og vel er kunnugt hefur orðið mikil breyting á gróðurþekju Íslands frá landnámi. Birkiskógar hafa breyst í mólendi og víða hefur gróðurþekjan blásið upp og orðið að melum og sandauðnum. En spurningin snýst um flóruna, og því verða breytingar á gróðurþekjunni ekki raktar hér.

Meginbreytingin sem orðið hefur á flórunni frá landnámi er fjölgun tegunda og einnig hafa nýir, innfluttir stofnar bæst við tegundir sem áður voru fyrir. Vitað er að landnámsmenn þurftu að hafa með sér fóður fyrir búpening sinn í flutningum sínum. Með fóðrinu og öðrum varningi hefur án efa komið nokkuð af fræjum sem náð hefur að spíra í íslenskri mold. Dæmi um jurtir sem taldar eru hafa komið við landnám eru húsapuntur, baldursbrá, njóli, skriðsóley, haugarfi, hjartarfi og varpasveifgras.



Baldursbrá (Matricaria maritima) er dæmi um plöntu sem talin er hafa komið til landsins við landnám.

Sammerkt er flestum jurtum sem komið hafa til landsins um landnám, að þær hafa lítið náð að dreifast um landið nema með byggðinni. Enn í dag vaxa þær að jafnaði aðeins við bústaði manna eða næsta nágrenni þeirra. Undantekning eru plöntur sem eiga þess kost að dreifast með sauðfé eða hestum. Þær finnast oft í dag við kindagötur og reiðvegi langt uppi á heiðum og inni á öræfum. Dæmi um það eru haugarfi og varpasveifgras. Gera má ráð fyrir að sumar þær plöntur, sem líklegastar eru til að hafa komið með landnámsmönnum, gætu einnig hafa verið komnar áður og því verið fyrir í landinu. Þar getur haugarfinn einnig verið dæmi, því hann er áburðarsækinn og vex meðal annars oft í fuglabjörgum. Hann gæti því vel hafa borist með fuglum þegar fyrir landnám, en haldið sig eingöngu við fuglabjörgin þar sem nægur áburður var.

Af sumum tegundum eru í dag á Íslandi mismunandi stofnar, deilitegundir eða afbrigði, þar sem einn stofninn er talinn innlendur, hefur verið kominn löngu fyrir landnám og er dreifður um allt landið upp um fjöll og firnindi, en annar stofn sömu tegundar aðfluttur við landnám og finnst að jafnaði enn í dag aðeins á láglendi eða í nágrenni við byggð. Dæmi um slíkar tegundir eru túnsúra, brennisóley, túnfífill, vallarsveifgras og hugsanlega vallhumall.

Ekki er vafi á því, að eitthvað hefur borist til landsins af fleiri tegundum síðar og fram eftir miðöldum, og má nefna kúmen og þistil sem dæmi, en veruleg aukning á aðfluttum plöntum verður hins vegar á 19. og 20. öld. Þá koma til dæmis háliðagras, vallarfoxgras og axhnoðapuntur sem fluttar voru inn til ræktunar, en einnig berast margar óviljandi með varningi, eins og til dæmis akurarfi og hlaðkolla. Sammerkt er öllum þessum plöntum, að þær berast mjög lítið út fyrir byggðina í landinu nema á afar löngum tíma. Uppi á heiðum og fjöllum finnast nær eingöngu gamlar, innlendar tegundir.



Hlaðkolla (Chamomilla suaveolens) barst fyrst til landsins aldamótin 1900, og hefur síðan dreifst nokkuð um landið. Hún vex einkum í hlaðvörpum og athafnasvæðum við hafnir og í vörumiðstöðvum.

Náttúrufræðistofnun Íslands hefur nýlega gefið út Íslenskt plöntutal, þar sem listi er yfir allar villtar íslenskar plöntur. Í því eru 489 tegundir taldar ílendar í landinu í dag. Af þeim eru 430 tegundir feitletraðar sem taldar eru hafa verið komnar og líklega ílendar fyrir 1750. Af þessum 430 tegundum má ætla að 20-30 hafi fyrst komið með landnáminu. 300 tegundir teljast hafa borist til landsins eftir 1750, og hafa um 50 þeirra þegar ílendst, en hinar 250, smáletraðar í plöntutalinu, eru ekki taldar ílendar. Sumar þeirra hafa aðeins sést einu sinni eða í örfá skipti og gætu hafa horfið aftur.

Miklar magnbundnar breytingar á fjölda einstaklinga innan tegunda urðu einnig á flórunni eftir landnám. Útbreiðsla birkis og sumra skógarbotnategunda dróst mjög saman, en grös og ýmsar berangurstegundir urðu meira ríkjandi í gróðurfari. En þrátt fyrir það eru engar vísbendingar um að tegundum hafi fækkað við þetta. Allar þær plöntur sem vitað er um að hafi verið hér fyrir landnám en eftir ísöld, finnast enn í dag. Þó er ekki hægt að útiloka, að einhverjar sjaldgæfar tegundir með mjög takmarkaða útbreiðslu gætu hafa horfið með falli skóganna, þótt ekki komi það fram í frjókornalínuritum. Sumar tegundir greinast illa frá öðrum skyldum tegundum á frjókornunum einum saman, og eins gæti verið að mjög sjaldgæfar tegundir komi ekki fram í frjólínuritum. Eina útdauða tegundin sem vitað er um í íslensku flórunni er davíðslykill, en hann hvarf ekki fyrr en eftir 1980. Hann var á svo litlu svæði, að alveg er óvíst um hvenær hann nam land, eða hvort hann var kominn fyrir landnám.

Frekari fróðleikur á Vísindavefnum:

Myndir: Hörður Kristinsson er höfundur beggja myndanna og er þær að finna á vefnum Flóra Íslands.

Höfundur

Hörður Kristinsson (1937-2023)

sérfræðingur á Náttúrufræðistofnun Íslands

Útgáfudagur

18.2.2010

Spyrjandi

Iðunn Hauksdóttir

Tilvísun

Hörður Kristinsson (1937-2023). „Hvernig hefur íslensk flóra breyst í grófum dráttum frá landnámi?“ Vísindavefurinn, 18. febrúar 2010, sótt 3. desember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=55262.

Hörður Kristinsson (1937-2023). (2010, 18. febrúar). Hvernig hefur íslensk flóra breyst í grófum dráttum frá landnámi? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=55262

Hörður Kristinsson (1937-2023). „Hvernig hefur íslensk flóra breyst í grófum dráttum frá landnámi?“ Vísindavefurinn. 18. feb. 2010. Vefsíða. 3. des. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=55262>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Hvernig hefur íslensk flóra breyst í grófum dráttum frá landnámi?
Í stuttu máli þá breyttust magnhlutföll tegunda í flóru landsins mikið fyrst eftir landnám. Tegundum fjölgaði verulega og eru um 70-80 tegundir orðnar ílendar í dag, sem ekki voru í landinu fyrir landnám. Um 250 tegundir til viðbótar hafa borist til landsins utan ræktunar, en ekki náð að ílendast varanlega. Ekki eru heimildir um nema eina tegund sem horfið hefur úr flórunni eftir landnám, en ekki er útilokað að þær gætu verið fleiri þótt ekki sé hægt að staðfesta það í dag.

Eins og vel er kunnugt hefur orðið mikil breyting á gróðurþekju Íslands frá landnámi. Birkiskógar hafa breyst í mólendi og víða hefur gróðurþekjan blásið upp og orðið að melum og sandauðnum. En spurningin snýst um flóruna, og því verða breytingar á gróðurþekjunni ekki raktar hér.

Meginbreytingin sem orðið hefur á flórunni frá landnámi er fjölgun tegunda og einnig hafa nýir, innfluttir stofnar bæst við tegundir sem áður voru fyrir. Vitað er að landnámsmenn þurftu að hafa með sér fóður fyrir búpening sinn í flutningum sínum. Með fóðrinu og öðrum varningi hefur án efa komið nokkuð af fræjum sem náð hefur að spíra í íslenskri mold. Dæmi um jurtir sem taldar eru hafa komið við landnám eru húsapuntur, baldursbrá, njóli, skriðsóley, haugarfi, hjartarfi og varpasveifgras.



Baldursbrá (Matricaria maritima) er dæmi um plöntu sem talin er hafa komið til landsins við landnám.

Sammerkt er flestum jurtum sem komið hafa til landsins um landnám, að þær hafa lítið náð að dreifast um landið nema með byggðinni. Enn í dag vaxa þær að jafnaði aðeins við bústaði manna eða næsta nágrenni þeirra. Undantekning eru plöntur sem eiga þess kost að dreifast með sauðfé eða hestum. Þær finnast oft í dag við kindagötur og reiðvegi langt uppi á heiðum og inni á öræfum. Dæmi um það eru haugarfi og varpasveifgras. Gera má ráð fyrir að sumar þær plöntur, sem líklegastar eru til að hafa komið með landnámsmönnum, gætu einnig hafa verið komnar áður og því verið fyrir í landinu. Þar getur haugarfinn einnig verið dæmi, því hann er áburðarsækinn og vex meðal annars oft í fuglabjörgum. Hann gæti því vel hafa borist með fuglum þegar fyrir landnám, en haldið sig eingöngu við fuglabjörgin þar sem nægur áburður var.

Af sumum tegundum eru í dag á Íslandi mismunandi stofnar, deilitegundir eða afbrigði, þar sem einn stofninn er talinn innlendur, hefur verið kominn löngu fyrir landnám og er dreifður um allt landið upp um fjöll og firnindi, en annar stofn sömu tegundar aðfluttur við landnám og finnst að jafnaði enn í dag aðeins á láglendi eða í nágrenni við byggð. Dæmi um slíkar tegundir eru túnsúra, brennisóley, túnfífill, vallarsveifgras og hugsanlega vallhumall.

Ekki er vafi á því, að eitthvað hefur borist til landsins af fleiri tegundum síðar og fram eftir miðöldum, og má nefna kúmen og þistil sem dæmi, en veruleg aukning á aðfluttum plöntum verður hins vegar á 19. og 20. öld. Þá koma til dæmis háliðagras, vallarfoxgras og axhnoðapuntur sem fluttar voru inn til ræktunar, en einnig berast margar óviljandi með varningi, eins og til dæmis akurarfi og hlaðkolla. Sammerkt er öllum þessum plöntum, að þær berast mjög lítið út fyrir byggðina í landinu nema á afar löngum tíma. Uppi á heiðum og fjöllum finnast nær eingöngu gamlar, innlendar tegundir.



Hlaðkolla (Chamomilla suaveolens) barst fyrst til landsins aldamótin 1900, og hefur síðan dreifst nokkuð um landið. Hún vex einkum í hlaðvörpum og athafnasvæðum við hafnir og í vörumiðstöðvum.

Náttúrufræðistofnun Íslands hefur nýlega gefið út Íslenskt plöntutal, þar sem listi er yfir allar villtar íslenskar plöntur. Í því eru 489 tegundir taldar ílendar í landinu í dag. Af þeim eru 430 tegundir feitletraðar sem taldar eru hafa verið komnar og líklega ílendar fyrir 1750. Af þessum 430 tegundum má ætla að 20-30 hafi fyrst komið með landnáminu. 300 tegundir teljast hafa borist til landsins eftir 1750, og hafa um 50 þeirra þegar ílendst, en hinar 250, smáletraðar í plöntutalinu, eru ekki taldar ílendar. Sumar þeirra hafa aðeins sést einu sinni eða í örfá skipti og gætu hafa horfið aftur.

Miklar magnbundnar breytingar á fjölda einstaklinga innan tegunda urðu einnig á flórunni eftir landnám. Útbreiðsla birkis og sumra skógarbotnategunda dróst mjög saman, en grös og ýmsar berangurstegundir urðu meira ríkjandi í gróðurfari. En þrátt fyrir það eru engar vísbendingar um að tegundum hafi fækkað við þetta. Allar þær plöntur sem vitað er um að hafi verið hér fyrir landnám en eftir ísöld, finnast enn í dag. Þó er ekki hægt að útiloka, að einhverjar sjaldgæfar tegundir með mjög takmarkaða útbreiðslu gætu hafa horfið með falli skóganna, þótt ekki komi það fram í frjókornalínuritum. Sumar tegundir greinast illa frá öðrum skyldum tegundum á frjókornunum einum saman, og eins gæti verið að mjög sjaldgæfar tegundir komi ekki fram í frjólínuritum. Eina útdauða tegundin sem vitað er um í íslensku flórunni er davíðslykill, en hann hvarf ekki fyrr en eftir 1980. Hann var á svo litlu svæði, að alveg er óvíst um hvenær hann nam land, eða hvort hann var kominn fyrir landnám.

Frekari fróðleikur á Vísindavefnum:

Myndir: Hörður Kristinsson er höfundur beggja myndanna og er þær að finna á vefnum Flóra Íslands....