Mesta áhættan stafar af því að borða mat með miklu innihaldi díoxína yfir langt tímabil. Staðfest hefur verið að þau valdi ýmsum kvillum í dýrum, þar á meðal krabbameinum og skaða á ónæmiskerfi og æxlunarfærum. Þó virðast menn ekki vera jafn viðkvæmir og tilraunadýr. Eituráhrif efnanna er mismikil en til þess að hægt sé að bera saman eiturvirkni þeirra hefur verið skilgreindur alþjóðlegur jafngildisstuðull (e. Toxic Equivalent Factor, I-TEF) sem er hlutfall af eitrunaráhrifum þeirrar afleiðu díoxíns sem er eitruðust og nefnist 2,3,7,8-TCDD, en stuðull hennar er 1. Styrkur hverrar afleiðu margfaldaður með jafngildisstuðli hennar gefur eitrunarjafngildi, Toxic Equivalent, eða TEQ. Heildar eitrunaráhrif er síðan summa TEQ-gildanna. Hámarksgildi fyrir díoxín í matvælum eru sett í reglugerð Evrópusambandsins nr. 466/2004/EB sem tók gildi á íslandi með reglugerð 662/2003 um gildistöku tiltekinna gerða um aðskotaefni í matvælum. Hámarksgildi fyrir díoxínlík PCB efni eru sett í reglugerð 411/2004 um aðskotaefni í matvælum. Díoxín og díoxínlík PCB-efni finnast í öllum matvælum í mismiklu magni, líka þeim matvælum sem eru rík af mikilvægum næringarefnum. Það er nær ómögulegt að fjarlægja þessi efni úr matnum þegar þau eru komin inn í fæðukeðjuna. Almennt er viðurkennt að besta leiðin til að minnka díoxín og PCB í fæðu sé að koma í veg fyrir losun þeirra út í umhverfið. Niðurstöður vöktunar á lífríki sjávar sýna að ætilegur hluti matfisks sem veiddur er á Íslandsmiðum inniheldur almennt lítið magn af lífrænum mengunarefnum eins og díoxíni og díoxínlíkum PCB-efnum, samanborið við þau hámörk sem Evrópulöndin hafa viðurkennt. Talið er að helst sé hætta á ferðum hjá þeim sem borða mikinn fisk af menguðum hafsvæðum eins og til dæmis Eystrasaltinu. Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin (WHO) ráðleggur neytendum að skera fitu af kjöti og neyta frekar fituminni mjólkurvara til að minnka díoxín í fæði. Fjölbreytt fæði sem inniheldur ávexti, grænmeti og kornvörur í hæfilegu magni minnkar hættuna af mengun frá einum uppruna ef upp koma mengunartilfelli eins og til dæmis í írsku svínakjöti haustið 2008. Þessi ráð hafa helst áhrif til langs tíma litið og eiga helst við um stúlkur og konur á barneignaaldri til að minnka skaðleg áhrif díoxíns á fóstur og ungbörn á brjósti sem þær eiga hugsanlega eftir að eignast. Barnshafandi konum og konum með barn á brjósti er einnig bent á að borða ekki sjávarspendýr (sel, hval) og stóra ránfiska (túnfisk, sverðfisk). Frekara lesefni á Vísindavefnum: Mynd:
- Kiev Ukraine News Blog . Sótt 4.2.2010.
Þetta svar er stytt útgáfa af umfjöllun um díoxín á vef Matvælastofnunar og birt með góðfúslegu leyfi.