Sólin Sólin Rís 10:26 • sest 16:02 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 01:04 • Sest 15:19 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 01:05 • Síðdegis: 13:31 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 07:12 • Síðdegis: 20:04 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 10:26 • sest 16:02 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 01:04 • Sest 15:19 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 01:05 • Síðdegis: 13:31 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 07:12 • Síðdegis: 20:04 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Hvað getur þú sagt mér um afríska buffla?

Jón Már Halldórsson

Afríski buffallinn (Syncerus caffer) greinist í tvær deilitegundir, gresjubuffal (S. caffer caffer) og skógarbuffal (S. caffer nanus). Flokkunarfræðilega tilheyrir tegundin ættbálki klaufdýra (Artiodactyla), ættinni Bovidae og undirætt nautgripa (Bovinae).

Heimkynni gresjubuffla.

Gresjubuffallinn er nokkuð stærri en skógarbuffallinn og geta tarfarnir orðið allt að 900 kg. Hann er hópdýr og geta hjarðirnar verið frá 50 dýrum upp í fáein þúsund dýr. Rannsóknir á Serengeti-svæðinu í Afríku hafa sýnt að meðalhjarðstærðin er um 350 dýr. Í hjörðum gresjubuffla eru dýr af báðum kynjum og á öllum aldri að elstu törfunum undanskildum sem fara úr hópnum og halda sig einir eða í smærri hópum. Blönduðu hjarðirnar helga sér óðul eða heimasvæði sem getur verið einhver hundruð ferkílómetrar. Óðul gömlu tarfanna eru mun minni.

Ungir tarfar halda sig í nálægð við móður sína þar til þeir verða um ársgamlir en kvígurnar fylgja móður sinni til tveggja ára aldurs. Þegar ungur tarfur fer frá móður sinni slæst hann í hóp með öðrum ungtörfum sem mynda lítinn flokk innan megin hjarðarinnar. Fullorðnir tarfar yfirgefa hjörðina á þurrkatímum en snúa aftur þegar regntímabilið gengur í garð.



Bufflar halda sig í hjörðum.

Einhvers konar valdaröð ríkir meðal tarfanna. Í svo stórri hjörð væri keðjuvaldaröð nánast ómöguleg en dýrafræðingar telja að valdakerfið byggist á því að einn tarfur ráði yfir tveimur eða þremur öðrum sem svo ráða yfir öllum hinum. Þetta er valddreifing sem virðist þó ekki ná langt niður þar sem ómögulegt er fyrir forystutarfinn að þekkja alla hina tarfana í 3.000 dýra hjörð.

Kýrnar eignast sinn fyrsta kálf um fimm ára aldur. Þær verða oftast yxna þegar líður á regntímann og 10 til 11 mánuðum seinna, í upphafi næsta regntíma, bera þær. Það er mjög heppilegur tími því þá er ofgnótt af safaríku og nýsprottnu grasi. Fyrstu dagana er kálfurinn óstyrkur á fótum en nýtur verndar hjarðarinnar.



Kýr með kálf.

Merkileg samkennd ríkir innan hjarðarinnar. Ef ljón herja á hjörðina þá taka öll dýrin þátt í að vernda kálfana og furðu sjaldan ná ljónin að veiða kálfa. Það sýnir vel samtakamátt hjarðarinnar. Ljónið er helsti óvinur gresjubuffalsins og nánast eina afríska rándýrið sem á einhverja möguleika á því að leggja fullorðinn tarf. Krókódílar taka þó einnig buffla ef þeir hætta sér í djúpt vatn.

Særður buffall er stórhættulegur og eitt allra hættulegasta spendýr í heimi. Særður buffall berst þar til yfir lýkur og oft kemur það fyrir að ljón sem hefur verið að herja á hann liggur dautt eftir.

Sjaldgæft er að önnur spendýr séu í samfloti með bufflahjörð. Einstaka sinnum sjást stökkbukkar í suðurhluta Afríku við jaðar bufflahjarðar. Bufflar eru ekki á beit á opnum graslendum heldur þar sem þeir geta leitað skjóls við tré og eru því staktrjáategund. Yfir daginn halda þeir til í skugga trjáa og slaka þar á en eru á beit á næturnar.

Myndir:

Höfundur

Jón Már Halldórsson

líffræðingur

Útgáfudagur

2.6.2010

Síðast uppfært

19.6.2018

Spyrjandi

Svava Jóhannesdóttir

Tilvísun

Jón Már Halldórsson. „Hvað getur þú sagt mér um afríska buffla?“ Vísindavefurinn, 2. júní 2010, sótt 24. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=55231.

Jón Már Halldórsson. (2010, 2. júní). Hvað getur þú sagt mér um afríska buffla? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=55231

Jón Már Halldórsson. „Hvað getur þú sagt mér um afríska buffla?“ Vísindavefurinn. 2. jún. 2010. Vefsíða. 24. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=55231>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Hvað getur þú sagt mér um afríska buffla?
Afríski buffallinn (Syncerus caffer) greinist í tvær deilitegundir, gresjubuffal (S. caffer caffer) og skógarbuffal (S. caffer nanus). Flokkunarfræðilega tilheyrir tegundin ættbálki klaufdýra (Artiodactyla), ættinni Bovidae og undirætt nautgripa (Bovinae).

Heimkynni gresjubuffla.

Gresjubuffallinn er nokkuð stærri en skógarbuffallinn og geta tarfarnir orðið allt að 900 kg. Hann er hópdýr og geta hjarðirnar verið frá 50 dýrum upp í fáein þúsund dýr. Rannsóknir á Serengeti-svæðinu í Afríku hafa sýnt að meðalhjarðstærðin er um 350 dýr. Í hjörðum gresjubuffla eru dýr af báðum kynjum og á öllum aldri að elstu törfunum undanskildum sem fara úr hópnum og halda sig einir eða í smærri hópum. Blönduðu hjarðirnar helga sér óðul eða heimasvæði sem getur verið einhver hundruð ferkílómetrar. Óðul gömlu tarfanna eru mun minni.

Ungir tarfar halda sig í nálægð við móður sína þar til þeir verða um ársgamlir en kvígurnar fylgja móður sinni til tveggja ára aldurs. Þegar ungur tarfur fer frá móður sinni slæst hann í hóp með öðrum ungtörfum sem mynda lítinn flokk innan megin hjarðarinnar. Fullorðnir tarfar yfirgefa hjörðina á þurrkatímum en snúa aftur þegar regntímabilið gengur í garð.



Bufflar halda sig í hjörðum.

Einhvers konar valdaröð ríkir meðal tarfanna. Í svo stórri hjörð væri keðjuvaldaröð nánast ómöguleg en dýrafræðingar telja að valdakerfið byggist á því að einn tarfur ráði yfir tveimur eða þremur öðrum sem svo ráða yfir öllum hinum. Þetta er valddreifing sem virðist þó ekki ná langt niður þar sem ómögulegt er fyrir forystutarfinn að þekkja alla hina tarfana í 3.000 dýra hjörð.

Kýrnar eignast sinn fyrsta kálf um fimm ára aldur. Þær verða oftast yxna þegar líður á regntímann og 10 til 11 mánuðum seinna, í upphafi næsta regntíma, bera þær. Það er mjög heppilegur tími því þá er ofgnótt af safaríku og nýsprottnu grasi. Fyrstu dagana er kálfurinn óstyrkur á fótum en nýtur verndar hjarðarinnar.



Kýr með kálf.

Merkileg samkennd ríkir innan hjarðarinnar. Ef ljón herja á hjörðina þá taka öll dýrin þátt í að vernda kálfana og furðu sjaldan ná ljónin að veiða kálfa. Það sýnir vel samtakamátt hjarðarinnar. Ljónið er helsti óvinur gresjubuffalsins og nánast eina afríska rándýrið sem á einhverja möguleika á því að leggja fullorðinn tarf. Krókódílar taka þó einnig buffla ef þeir hætta sér í djúpt vatn.

Særður buffall er stórhættulegur og eitt allra hættulegasta spendýr í heimi. Særður buffall berst þar til yfir lýkur og oft kemur það fyrir að ljón sem hefur verið að herja á hann liggur dautt eftir.

Sjaldgæft er að önnur spendýr séu í samfloti með bufflahjörð. Einstaka sinnum sjást stökkbukkar í suðurhluta Afríku við jaðar bufflahjarðar. Bufflar eru ekki á beit á opnum graslendum heldur þar sem þeir geta leitað skjóls við tré og eru því staktrjáategund. Yfir daginn halda þeir til í skugga trjáa og slaka þar á en eru á beit á næturnar.

Myndir:...