Einhvers konar valdaröð ríkir meðal tarfanna. Í svo stórri hjörð væri keðjuvaldaröð nánast ómöguleg en dýrafræðingar telja að valdakerfið byggist á því að einn tarfur ráði yfir tveimur eða þremur öðrum sem svo ráða yfir öllum hinum. Þetta er valddreifing sem virðist þó ekki ná langt niður þar sem ómögulegt er fyrir forystutarfinn að þekkja alla hina tarfana í 3.000 dýra hjörð. Kýrnar eignast sinn fyrsta kálf um fimm ára aldur. Þær verða oftast yxna þegar líður á regntímann og 10 til 11 mánuðum seinna, í upphafi næsta regntíma, bera þær. Það er mjög heppilegur tími því þá er ofgnótt af safaríku og nýsprottnu grasi. Fyrstu dagana er kálfurinn óstyrkur á fótum en nýtur verndar hjarðarinnar.
Merkileg samkennd ríkir innan hjarðarinnar. Ef ljón herja á hjörðina þá taka öll dýrin þátt í að vernda kálfana og furðu sjaldan ná ljónin að veiða kálfa. Það sýnir vel samtakamátt hjarðarinnar. Ljónið er helsti óvinur gresjubuffalsins og nánast eina afríska rándýrið sem á einhverja möguleika á því að leggja fullorðinn tarf. Krókódílar taka þó einnig buffla ef þeir hætta sér í djúpt vatn. Særður buffall er stórhættulegur og eitt allra hættulegasta spendýr í heimi. Særður buffall berst þar til yfir lýkur og oft kemur það fyrir að ljón sem hefur verið að herja á hann liggur dautt eftir. Sjaldgæft er að önnur spendýr séu í samfloti með bufflahjörð. Einstaka sinnum sjást stökkbukkar í suðurhluta Afríku við jaðar bufflahjarðar. Bufflar eru ekki á beit á opnum graslendum heldur þar sem þeir geta leitað skjóls við tré og eru því staktrjáategund. Yfir daginn halda þeir til í skugga trjáa og slaka þar á en eru á beit á næturnar. Myndir:
- Kort: Syncerus caffer á Ultimateungulate.com. Sótt 17.5.2010.
- Mynd af hjörð: Zimbabwe - Malilangew Private Wildlife Reserve. Sótt 17. 5. 2010.
- Mynd af kú með kálf: African buffalo á Wikipedia. Höfundur myndar: Pedro Gonnet. Sótt 17. 5. 2010.