Hægt er að hugsa sér Guð sem karl eða konu, eða hvað sem okkur virðist Guð vera. Fólk sér Guð á ólíkan hátt til að auka skilning sinn á hvað Guð er. Þegar við segjum eða skrifum að Guð sé karl eða kona, þá erum við að mynda okkur skoðun sem við getum ekki sannað. Betra er að gera Guð að því sem þú vilt, ef það eykur traust þitt og trú á Guð. Sumir sjá Guð fyrir sér sem gamlan karl, eins og elskulegan afa, en aðrir sjá fyrir sér brennandi runna eða skínandi ljós. Minningar og reynsla geta haft áhrif á skoðun okkar og hvernig við sjáum Guð fyrir okkur. Samt sem áður er ímynd okkar af Guði ekki það sem skiptir máli, heldur hugmyndin eða það sem býr að baki ímyndinni. Hugmyndina um Guð er ekki hægt að takmarka, því að hún er síbreytileg og mótast af trúarlegri reynslu. Guð skilgreinir fólk og fólk skilgreinir Guð. Að flokka Guð sem hugtak tengt öðrum hugtökum getur hæglega leitt út í ógöngur. Flokkunin yrði aldrei þannig að allir yrðu sáttir við hana. Margir líta á Guð sem hinn 'almáttuga stjórnanda'. Tilraunir til að flokka Guð sem karl eða konu kunna þannig að vera fyrirfram dæmdar til að mistakast. Að ein manneskja felldi slíkan dóm fyrir alla aðra á jörðinni væri skammsýni. Kannski er Guð aðeins í þeirri mynd sem hvert okkar um sig vill að hann sé: karl, kona, hlutur eða hugmynd. Eftirtaldir nemendur á heimspekinámskeiði fyrir börn og unglinga í Nebraska í Bandaríkjunum gerðu drög að þessu svari undir leiðsögn Hrannars Baldurssonar kennara síns: Melissa Favinger, Tiffany Duncan, Jordan Johnson.
Mynd: Úr kvikmyndinni Contact, eftir Robert Zemeckis