Guðrún er í 2. bekk. Á 16. blaðsíðu hefst 3. kafli. Á XVI. blaðsíðu hefst III. kafli. Hann fæddist 19. febrúar. Hann verður fjarverandi 6., 7., 8. og 9. mánuð ársins. Ætli Kristján X. og Hinrik VIII. hafi verið skyldirEins og dæmin bera með sér skal nota punkt á eftir raðtölum hvort heldur raðtölurnar eru ritaðar með arabískum eða rómverskum tölustöfum. Sumir hafa tamið sér þá reglu að sleppa punkti á eftir raðtölum sem ritaðar eru með rómverskum stöfum þótt þeir haldi sig við að rita punkta á eftir raðtölum með arabískum stöfum (það er rita til dæmis „í 6. frásögn í IV kafla“ í stað: í 6. frásögn í IV. kafla). Þetta ósamræmi endurspeglar skandinavíska venju en er í raun órökrétt. Því má bæta við í þessu sambandi að stundum eru rómverskar tölur ritaðar með lágstöfum (i, ii, iii, iv, v og svo framvegis) og vitaskuld gildir almenna reglan um punkt á eftir raðtölum þar einnig. Því ber að rita sem raðtölur i., ii., iii., iv., v. og svo framvegis á sama hátt og raðtölurnar I., II., III., IV., V. og svo framvegis. Nokkuð ber á því að raðtölupunktar verði út undan í ritun. Sem algengt dæmi má nefna þegar punkti er sleppt í dagsetningu, til dæmis „7 febrúar“ (í stað 7. febrúar). Einnig má oft sjá ritaðar dagsetningar á borð við „7.2 2010“ (í stað 7.2. 2010) þar sem raðtölupunkti er samviskusamlega til skila haldið á eftir raðtölu dagsins en hann gleymist á eftir raðtölu mánaðarins. Þegar raðtölupunktar gleymast er það ekki aðeins til lýta vegna ósamræmisins sem því fylgir heldur getur það verið beinlínis villandi í textanum. Frekara lesefni á Vísindavefnum:
- Af hverju er 1999 skrifað MCMXCIX en ekki MIM? eftir Þorstein Vilhjálmsson
- Hvernig reiknuðu menn með brotum á dögum Rómaveldis? eftir Kristínu Bjarnadóttur
- Fabulous Crossload. Sótt 19.1.2010.