a. Í samsettum örnefnum skal þeirri reglu fylgt að rita nafnið með stórum staf í upphafi og án bandstriks milli liða, ef síðari hluti þess er samnafn, t.d. Syðribakki, Fornihvammur. b. Í samsettum örnefnum, sem hafa sérnafn að síðari hluta, svo og mannanöfnum, sem hafa eins konar viðurnefni að forlið, skal rita stóran staf í báðum samsetningarliðum, og band skal vera milli liðanna, t.d. Syðri-Guðrúnarstaðir; Vestur-Ísafjarðarsýsla; Víga-Glúmur. (7. gr.)Allur gangur er á því hvort þessari aðgreiningu milli nafna með samnöfn að seinni lið (Syðribakki) og sérnöfn að seinni lið (Syðri-Guðrúnarstaðir) hefur verið fylgt eftir að auglýsingin var birt á sínum tíma. Þar hefur eflaust oft ráðið fyrri hefð og svo verður að hafa í huga að tiltekinn liður getur verið samnafn í sumu samhengi og sérnafn í öðru samhengi. Þetta á til dæmis við um orðið bakki sem annars vegar er orð um tiltekið fyrirbæri í landslagi og svo er það víða til sem sérnafnið Bakki (en sem bæjarnafn hefur það væntanlega verið dregið af landslagsfyrirbærinu).
Örnefnanefnd setti sér árið 2001 eftirfarandi meginreglu um ritun bæjanafna í þeim tilvikum þar sem ritreglurnar frá 1974 virtust ófullnægjandi eða of takmarkandi:
Ef talið er ljóst að nafnhlutar hafi stöðu sérnafna – enda þótt þeir samsvari jafnframt samnöfnum – er heimilt að rita bæjanöfn eins og gert er í b-lið 7. gr. gildandi auglýsingar um stafsetningu. ― Greinargerð og skýringar: Einkum er um að ræða nöfn með aðgreiningarforliði á borð við Litli-, Stóri-, Austur-, Vestur-, Fremri-, Ytri- o.s.frv. Stundum háttar þannig til að upphafleg jörð skiptist og nýbýlin draga nafn sitt af heiti (sérnafni) upphaflegu jarðarinnar. Dæmi: háls í landslagi verður upphaflega til þess að býli er nefnt Háls. Úr landi Háls rísa tvö nýbýli. Býlið utan við Háls kallast Ytri-Háls og býlið framan við Háls fær nafnið Fremri-Háls. Ljóst má vera að þessi nöfn eru dregin af bæjarnafninu (sérnafninu) Háls en ekki af samnafninu háls. Úr því að ljóst er að nafnhlutinn Háls í Ytri-Háls og Fremri-Háls hefur stöðu sérnafns verði því heimilt að rita nöfnin svo sem hér er gert (í stað þess að gert sé að skyldu að rita Fremriháls og Ytriháls).Stjórn Íslenskrar málnefndar féllst 8. maí 2001 fyrir sitt leyti á þessa meginreglu örnefnanefndar og taldi þessa útfærslu á gildandi ritreglum eðlilega. Samkvæmt þessari niðurstöðu er ritað Efri-Bakki ef gengið er út frá því að Bakki sé sjálfstætt sérnafn en annars er ritað Efribakki. Mynd:
- Mats: Myndasafn. © Mats Wibe Lund.