Um tyrkneska lambið er það að segja að það hefur ekki mannshöfuð í bókstaflegum skilningi. Engar líkur eru á því að frjóvgun hafi orðið á milli manns og sauðkindar. Ástæðan fyrir því er erfðafjarlægðin á milli tegundanna tveggja. Ætla má að sameiginlegur forfaðir manns og sauðkindar hafi verið uppi fyrir meira en 60 milljón árum síðan og erfðaefni þessara tegunda er svo ólíkt að samruni kynfruma á ekki að geta átt sér stað. Til að samruni erfðamengis sé mögulegur þarf erfðamengið að eiga sér talsverða samsvörun. Litningatala sauðkinda er nokkuð hærri en hjá mönnum, eða 54 litningar (2n=27), menn hafa hins vegar 46 litninga (2n=23). Því er hægt að útiloka að blendingur manns og sauðkindur geti orðið til. Tyrkneska lambið hefur einungis fæðst með mikinn fæðingargalla og tilviljun ræður því að sumum finnst afmyndaður haus lambsins líkjast mannsandliti. Frekara lesefni á Vísindavefnum:
- Geta hundar og refir eignast saman afkvæmi? eftir Jón Má Halldórsson
- Geta úlfar og hundar eignast afkvæmi og skiptir máli hvaða hundategundir eru þar að verki? eftir Pál Hersteinsson
- Væri hægt að frjóvga egg úr konu með sæði úr hundi? eftir JMH
- Hefur tveimur dýrategundum verið blandað saman? Ef svo er, hvaða tegundum? eftir Jón Má Halldórsson
- Pressan.is. Sótt 15.1.2010.