Hörður Kristinsson, grasafræðingur, lýsir brönugrösunum í Íslensku plöntuhandbókinni svo;
Blómin eru í klasa, purpurarauð, óregluleg, af blómhlífarblöðunum vísa fimm upp en stærsta krónublaðið vísar niður og myndar neðri vör. Hún er með dökkrauðum dröfnum og rákum, þríflipuð að framan, með tveim ávölum, breiðum hliðarsepum og einum mjóum miðsepa. Frævan gárótt og snúin, situr neðan undir blómhlífinni, þar sem blómin eru yfirsætin. Stöngullinn blöðóttur. Blöðin lensulaga, stór, 6-10 cm á lengd og 1-2 cm á breidd, greipfætt, hárlaus, oftast alsett dökkum blettum á efra borði.Brönugrös eru um 15-25 cm á hæð. Kjörbúsvæði þeirra eru lyng- og grasbrekkur auk þess sem grösin finnast einnig í kjarrlendi. Blómgunartími brönugrasa hér á landi er í júní og júlí. Brönugrös eru ekki meðal helstu lækningajurta í íslenskri náttúru. Brönugrasaseiði er talið hemja hósta og mýkja háls. Einnig mun smyrsl sem gert er úr rótum brönugrasa virka vel á útbrot og gott er að bera það á sár. Heimildir og mynd:
- Arnbjörg L. Jóhannsdóttir. Íslenskar lækningajurtir. Mál og menning. Reykjavík. 2. útg. 1998.
- Hörður Kristinsson. Íslenska plöntuhandbókin. 2. útgáfa. Mál og menning. Reykjavík. 1998.
- Mynd: gudnysigga á Flickr.