Sólin Sólin Rís 10:17 • sest 16:10 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 21:40 • Sest 15:54 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 10:12 • Síðdegis: 22:46 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 03:46 • Síðdegis: 16:36 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 10:17 • sest 16:10 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 21:40 • Sest 15:54 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 10:12 • Síðdegis: 22:46 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 03:46 • Síðdegis: 16:36 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Hversu gömul eru orðin áramót, nýársdagur, nýársnótt og gamlárskvöld?

Guðrún Kvaran

Árnastofnun - mynd í *Árnarstofnun
Orðið áramót er ekki gamalt í málinu ef marka má Ritmálssafn Orðabókar Háskólans. Þar er elsta dæmið fengið úr öðru bindi Íslands Árbóka í sögu-formi sem ritaðar voru af Jóni Espólín og gefnar út í 12 bindum á árunum 1821–1855. Orðið skýrir sig sjálft. Það á við mót liðins árs og ársins sem er að hefjast, þegar gamla árið kveður og nýja árið tekur við. Venja er í síðari alda máli að þessi mót séu á miðnætti gamlárskvölds og nýársnætur eða nýársdags.

Það virðist fyrst snemma á 16. öld að 1. janúar fer að teljast fyrsti dagur nýs árs og er sú venja talin fylgja siðaskiptunum (Árni Björnsson 1993: 393). Í Ritmálssafni Orðabókarinnar er elst dæmi um nýársdag úr Nýja testamentisþýðingu Odds Gottskálkssonar sem gefin var út 1540. Orðið kemur þó ekki fyrir í textanum sjálfum heldur úti á spássíu í öðrum kafla sem skýring á textanum:
Þá ♣ átta dagar voru liðnir og að barnið skyldi umskerast, var nafn hans kallað Jesús.

Á spássíunni stendur ,,♣ nýársdag“. Næstu dæmi frá 16. öld eru úr Íslensku fornbréfasafni í bréfi frá árinu 1541 og Marteinn Einarsson notaði orðið í þýðingu sinni Ein Kristilig handbog sem gefin var út 1555. Nýársdagur er nefndur í sálmabók Guðbrands Þorlákssonar frá 1589 og einnig í húspostillu þeirri sem hann gaf út 1597 þannig að hann hefur fljótt fengið varanlegan sess í málinu.



Áramótum fagnað á Ísafirði.

Dæmi um orðið nýársnótt eru talsvert yngri. Elsta dæmið í Ritmálssafni Orðabókarinnar er úr Vallholtsannál. Við árið 1632 stendur (Annálar I: 328):
Nýjársnótt brann allur bærinn Húsey í Skagafirði og fjósið og heyið með.

Áður en farið var að nota orðið nýársdagur var talað um áttadag, það er áttunda dag jóla, og kemur það orð þegar fyrir í rituðu máli í Íslenskri hómilíubók, sem talin er rituð um 1200, um þann dag sem á latínu nefnist circumcisio Domini.

Árni Björnsson hefur elst dæmi um gamlárskvöld frá árinu 1791 haft eftir Sveini Pálssyni lækni þar sem hann segir frá brennu skólapilta (1993: 395):
Á gamlárskvöld halda þeir brennu á hæð einni skammt frá skólanum, sem þeir kalla Vulcan.

Elstu dæmi Orðabókarinnar um gamlárskvöld (einnig ritað gamlaárskvöld) eru úr Þjóðsögum Jóns Árnasonar, sem fyrst voru gefnar út 1862–1864, og sama er að segja um gamlársdag (einnig ritað gamlaársdag) og gamlársnótt (gamlaársnótt). Þar kemur fram að nóttin milli gamlársdags og nýársdags er bæði nefnd gamlársnótt og nýársnótt (I: 423):
sagt að það skuli gjöra á nýjársnótt (gamlársnótt)

Algengari málvenja nú er að tala um nýársnótt.

Heimildir og mynd:

  • Annálar I = Annálar 1400–1800. Gefnir út af Hinu íslenzka bókmentafélagi. I. bindi. Reykjavík 1922–1927.
  • Árni Björnsson. 1993. Saga daganna. Reykjavík: Mál og menning.
  • Nýja testamenti Odds Gottskálkssonar. 1988. Sigurbjörn Einarsson, Guðrún Kvaran, Gunnlaugur Ingólfsson og Jón Aðalsteinn Jónsson rituðu inngang. Reykjavík: Lögberg.
  • Ritmálsskrá Orðabókar Háskólans (www.arnastofnun.is).
  • Mynd: BB.is. Sótt 21. 12. 2009.

Þetta svar hefur einnig birst sem pistill um orð vikunnar á vef Stofnunar Árna Magnússonar.

Höfundur

Guðrún Kvaran

prófessor

Útgáfudagur

30.12.2009

Spyrjandi

Ritstjórn

Tilvísun

Guðrún Kvaran. „Hversu gömul eru orðin áramót, nýársdagur, nýársnótt og gamlárskvöld?“ Vísindavefurinn, 30. desember 2009, sótt 21. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=54839.

Guðrún Kvaran. (2009, 30. desember). Hversu gömul eru orðin áramót, nýársdagur, nýársnótt og gamlárskvöld? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=54839

Guðrún Kvaran. „Hversu gömul eru orðin áramót, nýársdagur, nýársnótt og gamlárskvöld?“ Vísindavefurinn. 30. des. 2009. Vefsíða. 21. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=54839>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Hversu gömul eru orðin áramót, nýársdagur, nýársnótt og gamlárskvöld?
Orðið áramót er ekki gamalt í málinu ef marka má Ritmálssafn Orðabókar Háskólans. Þar er elsta dæmið fengið úr öðru bindi Íslands Árbóka í sögu-formi sem ritaðar voru af Jóni Espólín og gefnar út í 12 bindum á árunum 1821–1855. Orðið skýrir sig sjálft. Það á við mót liðins árs og ársins sem er að hefjast, þegar gamla árið kveður og nýja árið tekur við. Venja er í síðari alda máli að þessi mót séu á miðnætti gamlárskvölds og nýársnætur eða nýársdags.

Það virðist fyrst snemma á 16. öld að 1. janúar fer að teljast fyrsti dagur nýs árs og er sú venja talin fylgja siðaskiptunum (Árni Björnsson 1993: 393). Í Ritmálssafni Orðabókarinnar er elst dæmi um nýársdag úr Nýja testamentisþýðingu Odds Gottskálkssonar sem gefin var út 1540. Orðið kemur þó ekki fyrir í textanum sjálfum heldur úti á spássíu í öðrum kafla sem skýring á textanum:
Þá ♣ átta dagar voru liðnir og að barnið skyldi umskerast, var nafn hans kallað Jesús.

Á spássíunni stendur ,,♣ nýársdag“. Næstu dæmi frá 16. öld eru úr Íslensku fornbréfasafni í bréfi frá árinu 1541 og Marteinn Einarsson notaði orðið í þýðingu sinni Ein Kristilig handbog sem gefin var út 1555. Nýársdagur er nefndur í sálmabók Guðbrands Þorlákssonar frá 1589 og einnig í húspostillu þeirri sem hann gaf út 1597 þannig að hann hefur fljótt fengið varanlegan sess í málinu.



Áramótum fagnað á Ísafirði.

Dæmi um orðið nýársnótt eru talsvert yngri. Elsta dæmið í Ritmálssafni Orðabókarinnar er úr Vallholtsannál. Við árið 1632 stendur (Annálar I: 328):
Nýjársnótt brann allur bærinn Húsey í Skagafirði og fjósið og heyið með.

Áður en farið var að nota orðið nýársdagur var talað um áttadag, það er áttunda dag jóla, og kemur það orð þegar fyrir í rituðu máli í Íslenskri hómilíubók, sem talin er rituð um 1200, um þann dag sem á latínu nefnist circumcisio Domini.

Árni Björnsson hefur elst dæmi um gamlárskvöld frá árinu 1791 haft eftir Sveini Pálssyni lækni þar sem hann segir frá brennu skólapilta (1993: 395):
Á gamlárskvöld halda þeir brennu á hæð einni skammt frá skólanum, sem þeir kalla Vulcan.

Elstu dæmi Orðabókarinnar um gamlárskvöld (einnig ritað gamlaárskvöld) eru úr Þjóðsögum Jóns Árnasonar, sem fyrst voru gefnar út 1862–1864, og sama er að segja um gamlársdag (einnig ritað gamlaársdag) og gamlársnótt (gamlaársnótt). Þar kemur fram að nóttin milli gamlársdags og nýársdags er bæði nefnd gamlársnótt og nýársnótt (I: 423):
sagt að það skuli gjöra á nýjársnótt (gamlársnótt)

Algengari málvenja nú er að tala um nýársnótt.

Heimildir og mynd:

  • Annálar I = Annálar 1400–1800. Gefnir út af Hinu íslenzka bókmentafélagi. I. bindi. Reykjavík 1922–1927.
  • Árni Björnsson. 1993. Saga daganna. Reykjavík: Mál og menning.
  • Nýja testamenti Odds Gottskálkssonar. 1988. Sigurbjörn Einarsson, Guðrún Kvaran, Gunnlaugur Ingólfsson og Jón Aðalsteinn Jónsson rituðu inngang. Reykjavík: Lögberg.
  • Ritmálsskrá Orðabókar Háskólans (www.arnastofnun.is).
  • Mynd: BB.is. Sótt 21. 12. 2009.

Þetta svar hefur einnig birst sem pistill um orð vikunnar á vef Stofnunar Árna Magnússonar....