Gígurinn Snorri fannst á myndum sem Mariner 10 tók af Merkúríusi árið 1974. Gígurinn er fremur smár, aðeins 19 km í þvermál, á suðurhveli Merkúríusar. Væri gígurinn á jörðinni væri hann hér um bil í miðju Indlandshafi. Tillöguna að nafninu má rekja til þeirra stjörnufræðinga sem störfuðu við Mariner 10 leiðangurinn og birtist fyrst í grein eftir stjörnufræðinginn David Morrison í ágúst 1976 í 28. hefti Íkarusar, sem er fræðirit um reikistjörnufræði. Einhver stjörnufræðingurinn í hópnum hefur flett upp á nafni Snorra í Encyclopaedia Britannica og lagt til að gígurinn bæri nafn hans. Nafnatillagan var samþykkt af nafnanefnd Alþjóðsambands stjarnfræðinga sama ár. Gígurinn sem er kenndur við Júlíönu Sveinsdóttur (1889-1966) er talsvert stærri en sá sem kenndur er við Snorra, eða 220 km að þvermáli. Hann er einnig að finna á suðurhveli Merkúríusar, á svipuðum stað og Indónesía er á jörðinni. Júlíana Sveinsdóttir var brautryðjandi í íslenskri myndlist á fyrri hluta 20. aldar og ein fárra kvenna sem gerðu myndlistina að ævistarfi á þeim tíma. Gígurinn fannst á myndum sem Messenger geimfarið tók í janúar 2008. Svo virðist sem einhver stjörnufræðingurinn í hópnum hafi flett upp á nafni Júlíönu í bókinni Dictionary of Women Artists og lagt til að gígurinn bæri nafn hennar. Nafnið var samþykkt af Alþjóðasambandi stjarnfræðinga í apríl 2008. Heimildir og mynd:
- Gazetteer of Planetary Nomenclature.
- Mercury Features Receive New Names. Fréttatilkynning frá Johns Hopkins University: Applied Physics Laboratory.
- Mynd: Stjörnufræðivefurinn. Sótt 25. 11. 2009.
Þetta svar er hluti af lengri umfjöllun um íslensk örnefni í sólkerfinu á Stjörnufræðivefnum og birt hér með góðfúslegu leyfi.