Skútabólga getur komið fram af ýmsum ástæðum. Í fyrsta lagi má nefna að bifhár í slímhúð holanna sem sjá um að fjarlægja slímið virka ekki af ýmsum ástæðum og slím hleðst upp. Í öðru lagi getur kvef og ofnæmi leitt til of mikillar slímmyndunar eða stíflað holurnar. Í þriðja lagi getur fólk verið með sepa í nefinu, nefbeinsspora eða aflagað miðnesi sem stíflar leiðina inn í og út úr holunum. Helstu einkenni bráðrar skútabólgu hjá fullorðnum koma fram eftir slæmt kvef og eru andremma eða lélegt lyktarskyn, hósti (oft verstur á nóttunni), þreyta og almenn vanlíðan, sótthiti, höfuðverkur (þrýstingsverkur, verkur bak við augun, tannverkur eða viðkvæmni í andliti), nefstífla, nefrennsli og hálssærindi. Þrálát skútabólga hefur sömu einkenni og bráð en þau eru vægari en vara lengur. Hjá börnum koma einkenni oftast fram eftir kvef eða aðra öndunarfærasýkingu sem hefur verið að batna en versnar svo á ný. Einkenni skútabólgu hjá börnum eru hár hiti, dökkur litur á nefslími í að minnsta kosti þrjá daga og nefrennsli ýmist með eða án hósta sem varir í tíu daga eða meira. Sem ráð við skútabólgu getur verið gott að leggja heitt, rakt þvottastykki yfir andlitið nokkrum sinnum á dag, drekka mikinn vökva til að þynna slímið, anda að sér heitri vatnsgufu tvisvar til fjórum sinnum á dag eða skola nefgöng með saltlausn til að flýta fyrir bata. Varast ber að nota lyf sem fást í apótekum án lyfseðils. Þau hjálpa ef til vill fyrstu dagana en geta síðan leitt til þess að ástandið versnar ef þau eru notuð lengur en í 3-5 daga. Í flestum tilfellum læknast bráð skútabólga af sjálfri sér. Sýklalyf eru yfirleitt ekki notuð við bráða skútabólgu en geta verið nauðsynleg ef vitað er að hún stafar af bakteríu eða sveppi. Ef skútabólgan stafar af ofnæmi duga sýklalyf ekki og einnig getur skurðaðgerð komið til greina til að laga galla í nefinu ef um það er að ræða. Heimildir og mynd:
- MedlinePlus
- WebMD
- Mynd: Frontal sinus á Wikipedia